11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

138. mál, læknaskipunarlög

Sigurvin Einsson:

Herra forseti. Umr. um þetta mál hafa orðið óvenju langar og sé ég ekkert við það að athuga. Ég tel, að þessar umr. hafi verið bæði nauðsynlegar og gagnlegar.

Þetta frv. má segja, að sé samansett af tveimur meginþáttum: Annars vegar, að mikilsverðar ráðstafanir eru gerðar til þess að bæta hag þeirra lækna, sem eiga að starfa í dreifbýlinu, ég vil segja: alveg óvenjulega mikið er til þess gert með þessu frv. Hins vegar er óneitanlega allrík tilhneiging til þess um leið að fækka læknishéruðum í landinu með lögum. Deilurnar hafa orðið um annan þátt frv., fækkun héraðanna, en hinn þátturinn hefur fyllilega verið viðurkenndur af ræðumönnum, hversu mikið nú á að gera til þess að reyna að tryggja það, að ekki verði læknislaust hérað á Íslandi.

Út af afnámi læknishéraðanna hafa spunnizt allmiklar umr. um eitt hérað sérstaklega, Suðureyrarhérað í Súgandafirði. En af öllum þeim hv. þm., sem talað hafa í málinu, hefur ekki einn einasti mælt því bót að leggja það hérað niður, þó að á því hafi bólað, að það kynni að mega gera það eftir stuttan tíma, ef auglýsingar bera ekki árangur. Ég ætla þó, að hinir muni vera fleiri, sem telja, að það eigi ekki undir neinum kringumstæðum að leggja það niður. Og mér virðist umr. hafa yfirleitt hneigzt í þá átt, að menn fjarlægist það heldur að vera að leggja niður læknishéruð með lögum, og svo skildi ég hæstv. forsrh., að hann sé tiltölulega svipaðrar skoðunar og við, sem hófum þessar umr., um það, að það sé ekkert aðalatriði að vera að leggja héruðin niður með l., heldur er þjónustan, hvernig fyrir henni verði séð, auðvitað aðalatriðið. Ég hef þess vegna þá trú nú, að það komi ekki til, að hv. n. leggi það til, að Suðureyrarhérað verði lagt niður.

En ég vil víkja að hinum tveimur héruðunum á Vestfjörðum, sem á að leggja niður samkv. frv. og samkv. skoðun þeirra manna, sem á þau hafa sérstaklega minnzt, ætla ég, að þeir telji nokkur rök fyrir því að gera það. Þessi héruð eru Flateyjarhérað og Djúpavíkurhérað. Ég skal fúslega viðurkenna, að það eru minni líkur til þess, að læknar fáist í þau heldur en í Suðureyrarhérað. Þó veit enginn okkar nú, hvaða áhrif kunna að hafa þær ráðstafanir, sem nú á að gera með staðaruppbót og öðrum kjarabótum til lækna. Það kann að fara svo, að í þau héruð fáist líka læknar. En sá er gallinn á þessu frv., að það á að leggja þessi tvö héruð, Flateyjarhérað og Djúpavíkurhérað, niður skilyrðislaust. Það á ekki að gefa fólkinu í þessum héruðum kost á, að á það reyni, hvort kjarabæturnar geti komið því til leiðar, að læknir komi í héruðin og það hafi lækni. Það á alls ekki að gefa því kost á þessu. Það á að leggja þau niður skilyrðislaust samkv. frv. Í bráðabirgðaákvæðum þessa frv. er sagt, að auglýsa skuli 3 af þeim 5 læknishéruðum, sem frv. fjallar um, að verði lögð niður, en tvö, sem ekki á að auglýsa, eru einmitt þessi: Flateyjarhérað og Djúpavíkurhérað. Að vísu vantar inn í frv. það ákvæði, að komi læknar í hin þrjú, verði þau alls ekki lögð niður. En hæstv. heilbrmrh. gat þess í upphafi síns máls, að með lögskýringu ætti að skilja það svo, að þau yrðu ekki lögð niður, ef læknar kæmu. En þessi tvö héruð eiga ekki að njóta þessara kosta. Þau eiga ekki að njóta þeirra. Ég segi, að mér þyki það nokkuð hart, þótt um fámenn læknishéruð sé að ræða, að draga þau svona í dilka, að tvö af þessum fimm eigi ekki að eiga nokkurn kost á því, að læknir komi þangað þrátt fyrir mikilsverðar tilraunir með þessu frv. að fá þangað lækna. Og hver græðir svo á því, að þau séu lögð niður? Ekki fólkið, sem þarna býr. Það á að hafa sömu þjónustu, eftir að þau eru lögð niður, eins og það hefur nú, þó að héraðið sé læknislaust. Ekki ríkið, því að ég hef ekki orðið þess var, að nokkur hv. ræðumaður hafi imprað á því, að það eigi að spara fyrir ríkið með þessu móti og það er víst áreiðanlega ekki heldur tilgangurinn. Ef þessi héruð eru áfram sjálfstæð læknishéruð samkv. lögum, en samt læknislaust þar, verður þeim þjónað af nágrannalækni og sá læknir fær hálf önnur laun. Ef héruðin verða lögð niður og sameinuð nágrannahéraði, verður þeim þjónað af þeim lækni, sama lækninum, og læknirinn fær þar hálf önnur laun. Það er m.ö.o. bókstaflega nákvæmlega sama, hvort heldur verður gert, hvað þetta snertir. Mismunurinn er bara einn og ekki nema einn. Hann er sá, að verði héruðin lögð niður, er útilokaður möguleikinn til, að þar komi læknir aftur, fyrr en þá lögunum yrði breytt. Verði þau ekki lögð niður, er möguleikinn opinn, að læknar komi í þessi héruð. Þetta er munurinn á þessum tveimur aðferðum. Og ég vil spyrja: Hvaða hv. þm. vill stuðla að því að útiloka þennan möguleika hjá þessum tveimur læknishéruðum og hagnast ekkert við það, ekki á nokkurn hátt, hvorki fólkið né hið opinbera? Ég vil því alvarlega beina því til hv. n., að hún láti eitt yfir öll þessi fimm læknishéruð ganga, þau verði engin afnumin, þau eigi öll að hafa opinn möguleikann áfram til þess, að þangað komi læknar og með öllu ástæðulaust að gera slíka breytingu, fyrr en þaulreynt er, hvort þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera með þessu frv., bera árangur eða bera ekki árangur. Og ég geri mér fyllilega vonir um, að hv. n. geri þetta, því að hún hlýtur að sjá, að hér er misrétti beitt við tvö héruðin af fimm. Það tapar enginn neinu við það, þótt þau séu áfram á pappírnum læknishéruð og þeim verði þjónað af nágrannalækni, fyrst á að þjóna þeim hvort sem er.

Þá vil ég vekja athygli á 4. gr. frv., en þar segir: „Nú tekst ekki í eitt ár að fá héraðslækni skipaðan í eitthvert læknishérað samkv. 1. gr., þó að það hafi verið auglýst minnst þrisvar og er þá heimilt að sameina héraðið því nágrannahéraði, sem bezt hentar, ef staðhættir annars leyfa slíka sameiningu, enda verði læknir ráðinn til starfa í hinu sameinaða læknishéraði ásamt héraðslæknum þeim, sem starfa þar fyrir.“

Þarna á að heimila heilbrigðisyfirvöldunum að leggja niður læknishéruð án þess að til lagabreytingar komi, ef reynslan eftir eitt ár sýnir, að auglýsingar um lækna bera ekki árangur. Ég vil beina því til n., sem fjallar um þetta mál, að athuga þessa grein sérstaklega. Og mér sýnist, að umr. nú um þetta mál séu lítil hvöt til þess, að Alþ. afsali sér ákvörðunarréttinum um það, hvort nokkurt læknishérað skuli lagt niður eða ekki. Það er að vísu sá munur á þessu og hinni aðferðinni, að þarna á að koma læknir við hliðina á öðrum lækni, þeir verða tveir í hinu sameiginlega læknishéraði, en hið gamla læknishérað, sem verður lagt niður með þessum hætti samkv. 4. gr., er ekki lengur til og þó að tveir læknar séu í nágrenni, er enginn læknir í hinu gamla héraði fyrir það. Og ég sé ekki heldur, hvað er unnið með þessu, því að auðvitað getur hið opinbera alveg eins ráðið annan lækni til viðbótar í nágrannahérað, meðan hitt héraðið er læknislaust, án þess að leggja það niður og þá er eins og í hinu tilfellinu opinn möguleikinn til þess, að læknir komi í hið upprunalega hérað.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr., en endurtaka að lokum þá ósk mína, að það verði ekki farið að draga í dilka þessi 5 læknishéruð, sem um er rætt í frv., að verði lögð niður, þannig að 3 af þeim eigi kost á, ef vel fer, að vera til áfram, en 2 eigi alls ekki að vera til lengur. Það teldi ég ranglæti, ef þannig yrði farið með þessi tvö. Það má minna á það, að það eru ekki glæsilegar samgöngurnar hjá fólkinu í þessum tveimur héruðum. T.d. eru Breiðafjarðareyjar, sem m.a. eru stundum innilokaðar af ís og þarf ekki harðan vetur til, jafnvel núna í vetur flugum við nokkrir þm. Vestfjarðakjördæmis yfir Breiðafjörð í janúarmánuði og þá náðu ísspangirnar út undir Skáleyjar. Það þarf ekki mikið til að gera þessu fólki erfitt fyrir. Um Djúpavíkurhérað er þess að geta, að Árneshreppur hefur ekkert vegasamband við Hólmavík, þar sem læknirinn á að sitja, — ekkert vegasamband. Eða ætli það muni ekki einhverjir hv. þm. eftir frásögn í útvarpinu, sem ekki fyrir löngu var birt um læknisvitjun úr Árneshreppi, þar sem kona var í barnsnauð á Norðurfirði og tók það 24 klukkutíma að ná í lækninn, flytja hann yfir Trékyllisheiði, Reykjarfjörð og norður Árneshrepp, á hestum, á skíðum, á sleða, á bát og gangandi Og þegar loksins læknirinn kom í Norðurfjörð eftir 24 klukkutíma bið, var hann svo út af þreyttur, að hann datt niður og gat ekkert að hafzt til næsta dags og konan rétt að segja í dauðanum. Ég þarf ekki að vera að minna á þetta þess vegna, að ég viti ekki, að hver einasti þm, muni gera sitt til þess að tryggja sem bezta þjónustu þarna. En mér finnst, að svona atburðir séu hvetjandi til þess að leggja ekki læknishéruðin niður að þarflausu, þegar enginn ávinningur er á annað borð.