11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

138. mál, læknaskipunarlög

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Þetta frv. til læknaskipunarlaga hefur nú verið allýtarlega rætt við 1. umr. og mál til komið, að það komist til n., því að ég hygg, að meginþorri hv. þm. í þessari d. sé því hlynntur, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Ég skal þess vegna vera mjög stuttorður. En það eru fyrst og fremst ummæli hv. 11. þm. Reykv. í síðustu ræðu hans, sem gefa mér tilefni til aths.

Þessi hv. þm. lýsti mjög fjálglega yfir undrun sinni á því, að ég og nokkrir fleiri þm. höfum látið það í ljós við þessa umr., að þótt héraðslæknum í nokkrum verst settu læknishéruðunum séu boðnar staðaruppbætur og fleiri hlunnindi til þess að reyna með því að bæta úr hreinu neyðar- og vandræðaástandi, eigi að okkar dómi ekki að gera slíkt að almennri reglu í kjarasamningum annarra embættismanna og opinberra starfsmanna. Yfir þessari afstöðu okkar var hv. 11. þm. Reykv. svo öldungis hissa, að hann sagðist halda, að við, þessir reyndu alþm., eins og hann kallaði okkur, mundum ógjarnan vilja láta það fréttast heim í héruð, að við hefðum ekki það, sem hann kallaði „víðari sjóndeildarhring“ en þetta í hagsmunamálum kjósenda okkar. Út af þessu vil ég aðeins segja þetta: Ummæli mín og fleiri hv. þm. féllu að gefnu tilefni frá hv. 11. þm. Reykv., þar sem hann í sinni fyrstu ræðu um þetta mál krafðist þess, að staðaruppbætur og önnur hlunnindi yrðu veitt embættismönnum og opinberum starfsmönnum almennt. Þessi krafa hans sem formanns í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja hefði auðveldlega getað orðið til þess að spilla fyrir framgangi þess frv., sem hér liggur fyrir, af því að svo vill nú einu sinni til, að stór hópur þm. telur sér skylt að hugsa um fjárhagsafkomu ríkissjóðs og það mundi að sjálfsögðu skipta miklu máli, hvort þau kjör, sem boðin eru samkv. frv., næðu til 17–20 manna eða til 4000–5000 manns. Sem betur fer virðist mér á umr., að almennt hafi krafa formanns Bandalags starsmanna ríkis og bæja verið skilin sem eins konar skrautsýning af hans hálfu frammi fyrir kjósendum, sem hann langi alveg dæmalaust mikið til þess að hafa góða og fylgispaka og helzt þannig, að þeir líti á hv. þm. sem einhvers konar bjargvætt. Hv. þm. vill sem sagt ekki láta þessa hv. kjósendur frétta annað af sér, en að hann sé einhver hinn mesti kröfugerðarmaður fyrir þeirra hönd, sem fyrirfinnist. Hinu vill hann halda alveg leyndu og ekki láta fréttast til kjósenda, að einhver og í þessu tilfelli ríkissjóður, þurfi að borga brúsann. Þetta ætti þó hv. þm. að hafa manna bezta aðstöðu til að vita og skilja sem háttsettur embættismaður í fjmrn. Hann ætti t.d. að vita, að síðasta 6.6% launahækkun til opinberra starfsmanna kostar ríkið 66 millj. kr. Þessar 66 millj. kr. þarf að borga og til þess að það sé hægt, er um tvennt að ræða, annaðhvort að afla ríkinu nýrra tekna með sköttum og álögum eða að skera niður útgjöld samkv. þeim fjárl., sem afgreidd hafa verið fyrir þetta ár, þannig að þessi upphæð sparist.

Í tilfellum sem þessum er afstaða hv. 11. þm. Reykv. og flokksbræðra hans ósköp einföld. Þeir heimta stöðugt aukin útgjöld án þess að gera nokkra skynsamlega grein fyrir fjáröfluninni á móti. En ég vil fyrir mitt leyti gera þá lágmarkskröfu til hv. 11. þm. Reykv. sem háttsetts embættismanns í fjmrn., að hann skilji það, að við, sem skipum stuðningsflokka ríkisstj., getum ekki tekið svo afkáralega afstöðu, allra sízt í því skyni að blekkja kjósendur okkar. Þeir þurfa ekki aðeins á hvers konar opinberri þjónustu að halda, heldur eru þeir líka skattgreiðendur, sem gjarnan vilja, að svo og svo miklu af því fé, sem þeir láta af hendi til ríkisins, sé varið til verklegra framkvæmda, en sé ekki öllu eytt í kostnað við opinber störf. Mínir kjósendur mega a.m.k. frétta það, að í þessu efni telji ég rétt að finna ráð og leiðir, sem taki hæfilegt tillit til hvors tveggja, skattabyrðarinnar annars vegar og möguleikanna til að framkvæma það, sem gera þarf á vegum þess opinbera almenningi til hagsbóta, hins vegar.

Hef ég svo litlu við að bæta öðru en því að benda á, að séu þau fríðindi, sem fram eru boðin samkv. frv., gerð að almennri reglu, ná þau ekki tilgangi sínum. Þess vegna eru þau aðeins boðin fram í 17–20 læknishéruðum, en ekki í læknishéruðunum öllum. Þess vegna er það líka á misskilningi byggt hjá hv. 11. þm. Reykv., að staðaruppbætur geti bætt úr almennum hjúkrunarkvennaskorti, eins og hann sýndi reyndar fram á sjálfur í ræðu sinni með því að gera grein fyrir, hversu tilfinnanlegur skortur er á hjúkrunarkonum bæði í dreifbýli og þéttbýli. Af þessum ástæðum vil ég ítreka það, að opinberir starfsmenn eiga að mínum dómi ekki almennt að bera sig saman við læknana í erfiðustu læknishéruðunum. Þeir geta borið fram réttmætar kröfur til kjarabóta á öðrum grundvelli.

Hv. 11. þm. Reykv. nefndi það í sinni ræðu, að gripið hefði verið til þess ráðs vestur á Ísafirði fyrir nokkrum árum að greiða kennurum staðaruppbót. Þetta er rétt, svo langt sem það nær. En þar með er ekki öll sagan sögð. Af þessu varð nefnilega ekki mikill árangur annar en sá, að kaup þeirra kennara, sem fyrir voru, hækkaði. Það varð ekki til þess, að nýir kennarar kæmu til staðarins. Þetta var ekki óeðlileg ráðstöfun á þeim tíma, vegna þess að kennarar voru orðnir aftur úr öðrum stéttum í launum og þá var beðið eftir kjarabótum þeim til handa, sem fengust með þeim kjarasamningum opinberra starfsmanna, sem nú gilda. Og auðvitað var það í samræmi við allan málflutning hv. 11. þm. Reykv., að hann þagði vandlega yfir því, að þessar staðaruppbætur eru ekki lengur greiddar og voru aldrei greiddar nema í eitt ár vestur á Ísafirði. Sannast sagna held ég, að það sama hafi átt sér stað annars staðar, þar sem þessar tímabundnu staðaruppbætur voru upp teknar.

Hv. 5. þm. Vestf. sýndi tilburði í þá átt að taka undir þann málflutning hv. 11. þm. Reykv., sem ég hef gert að umtalsefni, með því að líkja mér og fleiri þm, við herkerlingar, sem syngju í kór eftir skipun frá öðrum. Þetta er vitaskuld sleggjudómur, sem naumast er svara verður. En ég tel þó, að ég muni það rétt, að við umr. hér í hv. d. um kjör verkfræðinga hafi hv. 5. þm. Vestf. eitt sinn látið orð falla á þá leið, að hann vildi ekki jafna til kjörum svo lærðra manna sem þeirra og alls almennings og sýnir þetta, að hv. þm. getur tekið undir svipaðan söng, þegar sá gállinn er á honum. En auðvitað fer hann alltaf út af laginu, eins og reynslan sýnir.