11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

138. mál, læknaskipunarlög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það var einmitt í tilefni af ummælum um hjúkrunarskólann, sem höfðu fyrr fallið í þessum umræðum, sem ég hafði kvatt mér hljóðs, þótt ég teldi sjálfsagt, að hv. þm. talaði á undan, þegar hann lét þess getið, að hann hefði þegar kvatt sér hljóðs, en það farið fram hjá hæstv. forseta.

Hv. 4. þm. Reykv. lét þess getið í ræðu fyrr í þessum umr., að keyra hefði þurft ríkisstj. áfram með svipuhöggum til þess að hafast eitthvað skynsamlegt og gagnlegt að í málefnum hjúkrunarskólans. Hæstv. forsrh. svaraði þessum ummælum nokkrum orðum í einni af ræðum sínum, og var allt, sem hann sagði um málið, bæði satt og rétt. En vegna þess að málefni hjúkrunarskólans heyra undir menntmrn., þykir mér rétt að bæta nokkrum frekari upplýsingum við það, sem hæstv. forsrh. sagði, til þess að ekkert þurfi að fara á milli mála um einstök atriði þess máls, sem hér er um að ræða.

Það er 22. júlí 1963, sem formaður skólanefndar hjúkrunarskólans, dr. Sigurður Sigurðsson landlæknir, ritar menntmrn. og óskar eftir því, að það beiti sér fyrir fjárveitingu á fjárlögum næsta árs, fjárlögum 1964, til byggingar hjúkrunarskóla. En þá kom í ljós við athugun málsins, að engin teikning,ekki einu sinni frumdrög að teikningu viðbyggingar við hjúkrunarskólann höfðu verið gerð. Ég bað því þegar um það, að undinn yrði bráður bugur að því, — það bað ég um strax í kjölfar þessa bréfs, — að gera teikningar að viðbyggingu við hjúkrunarskólann og kostnaðaráætlun um þá teikningu.

Þegar fjárlög voru afgreidd hér á hinu háa Alþingi í des. 1963, voru enn engar teikningar og enn engin kostnaðaráætlun komin, og þess vegna taldi ég mér ekki fært að fara fram á það við hv. fjvn., að hún tæki fjárveitingu til byggingar þessa skóla inn í fjárlög fyrir árið 1964 enda er svo skýrlega fyrir mælt í lögum um greiðslu skólakostnaðar, að fjárveitingar til skólabygginga skuli ekki ákveðnar af Alþingi, fyrr en fyrir liggja bæði teikningar og kostnaðaráætlun. Hins vegar var tekin í heimildagrein fjárlaganna heimild til lántöku til byggingar hjúkrunarskólans, þ.e.a.s. á síðustu stundu var hjúkrunarskólanum bætt við lánsheimild vegna menntaskóla og kennara skóla, þannig að lánsheimild skyldi geta náð til hjúkrunarskólans eins og menntaskólans og kennaraskólans.

Það er síðan 22. apríl í fyrra, 22. apríl 1964, sem bréf kemur frá skólanefndinni um það, að teikningar og kostnaðaráætlun séu nú tilbúnar. Skömmu síðar, eða 6. maí 1964, fer ég ásamt landlækni, formanni byggingarnefndar og fleiri embættismönnum úr menntmrn., þ. á m. ráðuneytisstjóra Birgi Thorlacius, í hjúkrunarskólann, við skoðum hann og könnum þörfina fyrir nýbyggingar þar og að loknum mjög ýtarlegum umræðufundi í hjúkrunarskólanum með þessum embættismönnum og að sjálfsögðu skólastjóra hjúkrunarskólans er tekin sú ákvörðun í byggingarmáli hjúkrunarskólans, að svo miklu leyti sem þessir aðilar voru um það bærir að taka ákvörðun á því stigi, að það væri ekki heppilegt að byrja byggingarframkvæmdir það vor með því fé, sem kynni að fást út á lánsheimildina, heldur skyldi stefnt að því að undirbúa málið rækilega fyrir næsta vor, fyrir vorið 1965 og gera tilraun til þess að fá það fé á fjárlögum ársins 1965, sem hægt yrði að vinna fyrir á því ári og síðan vilyrði fyrir fjárveitingum áfram, þannig að ljúka mætti byggingunni á 2–3 árum. Þessi stefna var mörkuð á þessum fundi 6. maí 1964 í hjúkrunarskólanum og allir aðilar voru þessari meginstefnu sammála, formaður byggingarnefndarinnar, skólastjóri hjúkrunarskólans og við, sem þarna vorum f. h. menntmrn. Ég lagði þetta mál þegar í stað á eftir fyrir ríkisstjórnina og ríkisstj. féllst á þessi sjónarmið og ákvað þar með, að byggingarmálum hjúkrunarskólans skyldi þannig hagað, að ríkisstj. skyldi taka í fjárlagafrv. sitt fyrir árið 1965 þá fjárupphæð, sem talið væri unnt að vinna fyrir á því ári, og síðan árið 1965 það, sem nauðsynlegt væri til þess að ljúka byggingunni eða koma henni eins langt og fært þætti á því ári. Og þetta var gert. Húsameistari var beðinn um áætlun um það, fyrir hversu mikið fé væri hægt að vinna á árinu 1965. Hann taldi hægt að vinna samkv. teikningunni fyrir 7 millj. kr., ekki meira og 7 millj. voru teknar í fjárlög ársins 1965 og eru í fjárlögum 1965 samkv. till. ríkisstjórnarinnar.

Ég vil taka það sérstaklega fram og undirstrika, að það leið ekki einn mánuður, frá því að ríkisstj. bárust fullgildar teikningar og kostnaðaráætlun um nýbyggingu fyrir hjúkrunarskólann, þangað til hlutaðeigandi aðilar: byggingarnefnd, skólastjóri og ríkisstjórn, höfðu markað framtíðarstefnu í málinu, sem tvímælalaust varð að teljast sú skynsamlegasta, eins og öllum málavöxtum var háttað. Þessar ákvarðanir höfðu þegar verið teknar í maímánuði 1964 og þar með mörkuð stefna í málefnum skólans og ég þori að fullyrða, að jafnvel þó að byrjað hefði verið til einhverra málamynda á sumrinu 1964 fyrir nokkurra millj. kr. lánsfé, hefði skólinn fyrir þær sakir ekki orðið fyrr tilbúinn, en hann verður nú, með þeirri miklu fjárveitingu, sem ákveðin er á árinu 1965, enda nægilegt fé fyrir hendi til þess að vinna fyrir það, sem framkvæmanlegt þykir að vinna við bygginguna á þessu ári.

Þetta er sá þáttur í þessu máli, sem raunverulega skiptir máli, þetta er alvöruþátturinn í málinu, ef svo mætti segja. En rétt eftir að þessar ákvarðanir voru teknar hefst ofboðlitill gamanþáttur í málinu, því að það gerist 20. maí eða rétt eftir að þessar fullnaðarákvarðanir voru teknar og öllum, sem áhuga höfðu á málinu, var kunnugt um, að ákvarðanir höfðu verið teknar, hefst áskoranasöfnun eða áskriftasöfnun meðal lækna, læknakandidata og læknastúdenta um það að skora á ríkisstj. að hraða byggingarmálinu. Ríkisstj. tók að sjálfsögðu með ánægju á móti áskorun um að hraða byggingarmáli, sem hún sjálf var búin að taka fullnaðar- og endanlegar ákvarðanir um, hvernig skyldi haga, og að hafa skyldi sérstakan hraða á þessu máli, meiri hraða en á mjög mörgum öðrum byggingarmálum, sem verið hafa á döfinni, auðvitað af því, að ríkisstj. hefur viðurkennt frá byrjun, að mikil þörf væri fyrir hjúkrunarskólann. Og seinni gamanþátturinn í málinu er svo fólginn í því, að um haustið í fyrra, í ágústmánuði, hefst áskriftasöfnun meðal hjúkrunarkvenna á öllu landinu um að skora á ríkisstj. að hraða byggingarmálinu, þó að ég sé þess fullviss, að ýmsir forustuaðilar í hjúkrunarkvennastétt vissu vel, hvernig málinu var komið og hvaða ákvarðanir hefðu verið teknar. En einhverjir aðilar virðast hafa sérstaka ánægju af því að ganga um á milli manna og kvenna með áskriftaskjöl um að skora á ríkisstj. að hraða þessu máli, en hraðinn á áskriftasöfnuninni var samt ekki meiri en svo, að það tók tímann frá 11. ágúst 1964, er áskriftasöfnunin hófst og þangað til nú fyrir 2 eða 3 vikum, að tvær ágætar hjúkrunarkonur gengu á minn fund og afhentu mér undirskriftaskjalið undirskrifað af eitthvað 300 hjúkrunarkonum. Það tók með öðrum orðum ekki langt frá því hálft ár að safna undirskriftum 300 hjúkrunarkvenna undir það að hraða byggingarframkvæmdum, sem allar ákvarðanir höfðu verið teknar um. Látum það nú vera, ef einhverjir hafa gaman af slíkum vinnubrögðum, er þeim það síður en svo of gott. Auðvitað skaðaði það ekki málið, það gerði ekki heldur gagn af þeirri einföldu ástæðu að skynsamlegar ákvarðanir höfðu áður verið teknar í málinu.

Ég get svo að síðustu látið þess getið, að undanfarið hefur farið fram fullnaðarendurskoðun á teikningum og á kostnaðaráætlun fyrir þessa byggingu, sem hér er um að ræða, og um hana hafa fjallað allir þeir aðilar, sem um slíkar byggingar eiga að fjalla: húsameistari, fræðslumálastjóri, byggingarnefndin að sjálfsögðu, og einmitt 15. marz s.l. staðfesti menntmrn. endanlega teikningarnar og kostnaðaráætlunina og hefur skýrt byggingarnefndinni frá því og þar með heimilað henni að hefja byggingarframkvæmdirnar og ráðstafa því fé, sem til þess er veitt á fjárlögum.