01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

138. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. heilbr.- og félmn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Mér er kunnugt um, að hún hefur fjallað af samvizkusemi um málið og ýtarlega. Hún hefur gert ýmsar leiðréttingar á frv. til bóta og flutt brtt. einnig, sem eru til bóta. Þær hef ég allar kynnt mér og get fallizt á þær og sumar reyndar einnig fluttar í samráði við mig. Um brtt., sem ég flyt á þskj. 342 um Suðureyrarhérað, er það ljóst, eins og fram kemur í grg. n., að hún hefði tekið þá brtt. upp líka. Það atvikaðist nú þannig, að ég flutti þessa brtt. fljótlega, því að mér fannst, að eftir atvikum væri það eðlilegra, sem fram kom hér í umr. og reyndar annars staðar frá, að láta þetta hérað halda áfram enn um sinn og sjá, hvort ekki tekst svo til, að þar verði læknir skipaður. Fyrrv. héraðslæknir, sem nú er staddur í Svíþjóð, skrifaði mér ýtarlegt bréf um þetta mál, hógvært og greindarlegt og það var bæði það og ýmsar fleiri ástæður, sem ollu því, að ég flutti þessa brtt., en um hana er víst enginn ágreiningur.

Ég lét í ljós við 1. umr. málsins, að ég væri ekki alls kostar ánægður með, hvernig þessu frv. var tekið. .Ég ætla nú ekki að víkja að því og allra sízt að erfa það. Það eru víst álög á okkur þm. öllum að misskilja stundum hverjir aðra að ástæðu litlu. Mér þykir hins vegar mjög vænt um, að það sér nú hilla undir það, að þetta mál geti fengið góða afgreiðslu með sameiginlegri afstöðu þm. á þessu þingi og það þykir mér mjög vænt um, en þó miklu vænna um hitt, ef það mætti leiða til úrbóta á því mikla vandamáli, sem því er ætlað að einhverju leyti og að sem mestu leyti að leysa.