01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

138. mál, læknaskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram brtt. á þskj. 380 við 13. gr. þessa frv. Í 13. gr. er gert ráð fyrir að, að uppfylltum sérstöðum skilyrðum megi veita á ári hverju læknastúdentum ríkislán til náms gegn skuldbindingu um læknisþjónustu í héraði að loknu námi. Í minni brtt. felst, að heimilt skuli að veita á ári hverju læknastúdentum námslaun, er nægi þeim til lífsframfæris, meðan þeir stunda nám í læknadeild, gegn skuldbindingu um læknisþjónustu í héraði að loknu námi. Nánari ákvæði um þetta skulu sett í reglugerð, svo sé og heimilt, ef þörf þykir, að hafa ákvæði til þess að tryggja á sama hátt sjúkrasamlagslækna.

Ég held, að það hafi komið mjög greinilega í ljós í sambandi við allt það vandamál, sem læknaþjónustan í dreifbýlinu er, að það, sem fyrst og fremst þurfi að gera í þessum efnum auk þeirra umbóta, sem verið er að gera með þessu frv., betri launa fyrir læknana og ýmis fríðindi, sem þeir fá, þegar þeir eru í dreifbýlinu, þurfi að tryggja, að meira af læknastúdentum geti útskrifazt, sem vilji taka að sér slíka þjónustu. Núna mun það vera svo, að maður, sem leggur fyrir sig að verða læknir og byrjar hér að nema og ef hann verður að taka allt að láni, vegna þess að hans efnahagur sé þannig, að hann eigi ekki svo ríka foreldra að, að þeir geti kostað hann allan tímann og ef hann getur fengið slík lán, sem er mjög erfitt, vegna þess að við vitum um, að það er mjög margt af mjög efnilegum læknanemum, sem verður að hætta læknanámi af fjárhagslegum ástæðum, þó að þeir vildu helzt rækja það nám, — en ef hann getur fengið lán til þess að ljúka við þetta, verða hans skuldir almennt að loknu námi frá 600 þús. kr. upp í 1 millj., ef hann t.d. fer eitthvað út á eftir til þess að reyna að fullnuma sig, þannig að bara t.d. vextir af slíkum fjárupphæðum eru strax orðnir stórfé, þegar farið er að reikna út laun á eftir og á að taka tillit til slíks. Ég held þess vegna, að það sé um að gera fyrir þjóðfélagið, að svo miklu leyti sem það ætlar að hafa þessa lækna sem fastráðna starfsmenn sína og ekki bara hafa þá í „bisness“ svo að segja, þá sé alveg nauðsynlegt, að þjóðfélagið taki upp þann hátt að launa slíka menn frá upphafi, láta þá fá námslaun, á meðan þeir eru í háskólanum. Það mundi vissulega þýða um leið, að þjóðfélagið gerði ýmsar sterkari kröfur til þeirra. En ég held, að það sé ekkert að því. Og þegar ég segi þarna, meðan þeir stunda nám í læknadeildinni, á ég við, að þeir fái full námslaun allan veturinn, — allan tímann, sem þeir stunda námið, fái þeir full námslaun, sem þeir geti lifað af, þeir verði starfsmenn ríkisins strax frá upphafi og séu það áfram. Og ég er alveg viss um, að þetta mundi hjálpa stórlega til þess að fá efnilega og unga menn til þess ekki aðeins að byrja á læknanáminu, heldur halda áfram við það og sinna því.

Ég minntist á við 1. umr. þessa máls, að næst á eftir því að leysa vandamál fólksins í dreifbýlinu og skapa því lífsmöguleika með því að tryggja því lækna stöndum við frammi fyrir því vandamáli nú, að í þéttbýlinu eru að verða vandkvæði á því að fá sjúkrasamlagslækna. Það eykst í sífellu sá háttur, að læknarnir temji sér einhverjar sérlækningar, hætti sem sjúkrasamlagslæknar, stundi síðan sín læknisstörf á grundvelli ávísana frá sjúkrasamlagslæknunum. Ég er ekki að hafa á móti því, að menn verði sérfræðingar, og vissulega þarf þess með, en það er alveg ófært, að ástandið sé að verða þannig, að menn geti varla fengið sjúkrasamlagslækna, það sé yfirleitt ekki að verða neitt úrval um slíkt, þannig að fjölgun sjúkrasamlagslækna í þéttbýlinu er að verða nauðsyn, ekki önnur eins lífsnauðsyn og læknavistin í dreifbýlinu, sem er spursmál um lífsöryggi fyrir það fólk, sem þar er, slíkt ægilegt vandamál er þetta náttúrlega ekki í þéttbýlinu. En þess vegna hef ég bætt þarna aftan við þessa till. því, að ráðh. væri heimilt að setja líka inn í reglugerðina ákvæði um að tryggja á sama hátt sjúkrasamlagslækna. Það væru sem sé ekki aðeins samningar við menn um að verða læknar í dreifbýlinu, heldur mætti líka og með einhverjum öðrum hætti semja við þá um, að þeir tækju að sér og ættu að verða sjúkrasamlagslæknar.

Nú hafa sumir sagt: Er ekki verið að hneppa menn í ævilangan þrældóm með því að semja við þá um það, að þeir skuli taka að sér að vera embættismenn ríkisins, jafnvel helzt til æviloka eða þangað til þeir fái eftirlaun? Ég verð nú að segja, það er kannske ósköp gamaldags, að það hefði nú einhvern tíman ekki þótt vera slæm boð að bjóða upp á, þegar einn stúdent byrjar nám í háskóla, að hann geti tryggt sér að vera opinber embættismaður ævina út. Það var a.m.k. hér áður fyrr í okkar þjóðfélagi og þurfum við ekki að leita langt aftur til þess, að þegar menn fóru í háskóla til þess að nema, voru menn í fyrsta lagi algerlega óvissir um það að fá nokkuð að gera á eftir og urðu máske oft og tíðum að hætta í miðju háskólanámi, vegna þess að þeir höfðu hvorki möguleika á því efnahagslega að halda áfram né nokkurt útlit fyrir að fá nokkurt starf á eftir, þannig að ef væri sagt við stúdenta nú, að þeir gætu fengið laun, á meðan þeir væru að nema og laun alla sína ævi sem fastir starfsmenn ríkisins og það góð laun, mundu það ekki hafa þótt slæm boð hér fyrrum. En hins vegar með tilliti til breyttra tíma og til þess að sýnast ekki allt of gamaldags í slíku álít ég, að það væri vel hægt, ef hæstv. ráðh. þætti þetta of harðvítugt, að bjóða mönnum upp á slík kostakjör sem áður hefðu þótt, væri vel hægt í reglugerð að gera ráð fyrir því, að ef nú slíkum læknanemum, eftir að þeir eru orðnir læknar og seinna meir snýst hugur og vilja fara í aðra hluti, sem vel getur komið fyrir, geti þeir fengið þessu þannig breytt, að þau námslaun, sem þeir hafa fengið greidd, skoðist að svo eða svo miklu leyti sem námslán, sem þeir þá borga og máske að litlu leyti sem styrkur. Það er samsvarandi háttur hafður á, þó að í miklu minni stíl sé, í sambandi við þau námslaun, sem nú eru greidd. En höfuð munurinn á þeim námslaunum, sem ég þarna tala um og þeim námslaunum, sem nú eru til, er að þetta er hugsað sem full námslaun, námslaun, sem nægja mönnum til lífsframfæris. Hins vegar fer því fjarri með þá styrki, sem núna eru veittir. Ég vildi þess vegna mjög mælast til þess, að þessi tilraun væri gerð. Það er líka fróðlegt að vita, hvernig hún gengi, hvað snertir fyrst og fremst þessa grein og það er fróðlegt að vita, hvað það gengi e.t.v. að prófa fleiri greinar síðar, þar sem okkur líka vantar menn. Ég held þess vegna, að hér, þar sem allir eru sammála um, að þörfin sé svo mikil, væri tilvalið að byrja með því að koma á fullum námslaunum með svona sérstökum skilyrðum. Ég mun gjarnan, ef nm. í hv. heilbr.- og félmn. álíta það æskilegra, taka þessa till. aftur til 3. umr., ef mönnum fyndist nauðsynlegt að geta athugað hana betur og vildu síður greiða atkv. um hana nú. Ég álít að öllu leyti, að það væri mjög heppilegt, að við tækjum upp á þessari nýjung einmitt í sambandi við þetta þýðingarmikla mál, sem hér er um að ræða.