01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

138. mál, læknaskipunarlög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar heilbr.- og félmn. fór að athuga frv. til læknaskipunarlaga, kom fljótt í ljós, að það var góður vilji fyrir hendi í n. um að strjúka nokkra þá megingalla af frv., sem orðið höfðu orsök til nokkurra umr. um málið við 1. umr. Það var strax augljóst, að það mundi vera hægt að fá samkomulag um að hverfa frá að leggja niður Suðureyrarlæknishérað, sömuleiðis Bakkagerðislæknishérað og Raufarhafnarlæknishérað. Að vísu hefði ég helzt kosið, að alveg hefði verið horfið frá því að leggja nokkurt læknishérað niður, því að ég sé í raun og veru ekki, að neitt verulegt vinnist með því. Það verður með þeim hætti, sem nú er lagður til, frestað aðgerðum í því efni og tilraunir gerðar til þess að fá lækna í þessi læknishéruð, sem lagt er til, að verði sameinuð nágrannalæknishéruðunum og ef tækist að fá lækna í þau, verður væntanlega horfið frá því að leggja þau niður.

Hins vegar er þó dálítið dregið úr, að því er snertir Flateyjarlæknishérað. Það var í frv. gert ráð fyrir því, að íbúar Flateyjarlæknishéraðs skyldu eiga læknissókn til Stykkishólms, sem er þeim óhagkvæmara, en að eiga læknissókn til Reykhóla. Nú er þessu breytt þannig, að íbúar Flateyjarlæknishéraðs skulu eiga læknissókn til Reykhólalæknishéraðs, en jafnframt þó rétt til þess, þegar svo stæði á, að það þætti hagkvæmara, að sækja lækni til Stykkishólms. Ég held nú, úr því að ekki fékkst samkomulag um að hverfa alveg frá að leggja nokkurt læknishérað niður, sé þetta það eina, sem hægt var að gera fyrir íbúa læknishéraðs Flateyjarhrepps.

Fari svo, eftir að þetta frv. hefur verið samþ., að auglýsingarnar í þrjú skipti beri þann árangur, að það fáist læknir í Flateyjarhérað, þó að enginn læknir hafi fengizt þangað um mjög langan tíma, er málið leyst og þá verður sem sé horfið frá að sameina þetta læknishérað Reykhólahéraði. En ef svo færi nú enn, þegar embættið væri auglýst með hinum breyttu og bættu kjörum, að enginn læknir fengist þangað, er spurningin, hvort íbúum Flateyjarlæknishéraðs er nokkur hagur í því, að það heiti áfram Flateyjarhérað. Sé ég ekki annað en þá séu þeir engu bættari. Hins vegar má gera sér miklu meiri vonir um það, að auglýsingarnar beri árangur, þegar læknir þar á að njóta þeirra fríðinda, sem nú eru fyrst borin fram, þ.e.a.s. að þriggja ára þjónustutími reiknist sem 5 ár, þeir fái kostaðar ferðir til framhaldsnáms o.s.frv., o.s.frv., sem í frv. felst. Tilraunin verður gerð og héraðið verður ekki sameinað nágrannalæknishéraði, nema því aðeins að enn, þrátt fyrir hin bættu kjör, fáist bangað enginn læknir. Og þá sé ég ekki, að þeirri tilraun afstaðinni, að það sé nein bót að því fyrir íbúa Flateyjarlæknishéraðs að heita sérstakt hérað, þá verður þetta fólk að fá þjónustu frá öðru hverju nágrannahéraðanna. Ég held því, að með þeirri breytingu, sem gerð hefur verið á frv. um þjónustu við íbúana í Flateyjarlæknishéraði, sé í raun og veru ekki mikill fengur að því, þó að það hefði fengizt í gegn með samkomulagi, að það væri sérstakur liður í 1. gr. frv. og héti áfram sérstakt læknishérað. Allt verður gert, sem hægt er, til þess að prófa það og fá úr því skorið, hvort læknir fæst þangað undir hinum nýju kjörum og fáist slíkur læknir, verður héraðið ekki lagt niður. Það er a.m.k. skilningur minn á frv., eins og frá því er nú gengið.

Um Djúpavíkurlæknishérað vil ég aðeins segja það, að ég hefði líka kunnað betur við, að það hefði fengið að halda sínu sæti í 1. gr. læknaskipunarlaga, a.m.k. meðan svo stendur, að héraðið er ekki í akvegasambandi við það læknishérað, sem á að veita þjónustuna. En svo bráðan ber það ekki að undir neinum kringumstæðum, að Djúpavíkurhérað verði lagt niður, að þetta vegasamband verði ekki komið á áður, því vil ég a.m.k. treysta. Að öðru leyti er um þetta læknishérað að segja, að það verður reynt til þrautar og vafalaust höfð afskipti af því máli af hendi íbúanna sjálfra að reyna að bjarga sínu læknishéraði með því að hafa úti öll spjót um það að útvega þangað lækni með hinum bættu kjörum, einmitt þegar þeir vita, að ef þetta tekst ekki, vofir það yfir, að þeirra hérað verði lagt niður. Ég held því, að út á nálega eitt komi, hvort við hefðum fengið því framgengt að taka þessi tvö mjög svo fámennu héruð inn í 1. gr. eða sú skipan verði á þeirra málum, sem nú er lagt til, að þraut reyna, hvort læknir fáist til þjónustu í þessi héruð og þá tilraun má gera bæði af hendi heilbrigðisyfirvaldanna, landlæknis og heilbrigðisstjórnarinnar og einnig af hendi íbúanna og ég álít a.m.k., að það leggi fastar að íbúunum að sitja ekki aðgerðalausir með hendur í skauti, heldur gera eitthvað til þess að reyna að útvega lækni með hinum breyttu og bættu kjörum, með því að hafa þetta á þennan veg.

Till., sem hér liggja fyrir á öðrum þskj. en á þskj. 362 frá heilbr.- og félmn., ég vil segja örfá orð um þær till. Till. á þskj. 362 eru allar ágreiningslausar frá n. og hafa stuðning allra nefndarmanna.

Brtt. á þskj. 347 frá Sigurvin Einarssyni hafa nú nokkrar verið teknar aftur og verða því ekki til atkvgr. við þessa umr. Þær eru sumar samhljóða till. n., eins og t.d. að því er snertir Suðureyrarhérað og nokkur fleiri atriði eru samhljóða því, sem n. sjálf leggur til og þær till. voru að sjálfsögðu teknar aftur. Hinar till. eru um, að Djúpavíkurhérað og Flateyjarhérað verði tekin inn sem sérstakir liðir á 1. gr. og þannig ekki tekin nú ákvörðun um að samelna þau nágrannahéruðum. Um það er þá sem sé ágreiningur enn þá. Ég lýsti því hér, að ég hefði talið það æskilegast að fá þetta fram, en þar sem ég sé ekki, að með þeirri tilhögun, sem samkomulag gat orðið um, sé jafnvel séð fyrir högum þessa fólks, að því er snertir heilbrigðisþjónustu, þá sé ég ekki, að þetta sé mikið ágreiningsatriði, úr því sem komið er.

En það er 5. liður brtt. á þskj. 347, sem hv. 3. þm. Vestf. gerði að umtalsefni og fór fram á við n., að hún athugaði betur, hvort hún gæti ekki fallizt á þá till. Ég þarf engan umhugsunarfrest um það fyrir mitt leyti. Ég tel, að það væri til verulegra bóta, að hægt væri að fá samþykkta 5. till. á þskj. 34, og ég mun, hvað sem mínir meðnm. sjá sér fært að gera í því efni, fylgja þeirri till. Ég tel hana til bóta einmitt fyrir hvert það hérað, sem fyrir því yrði, sem þar frá greinir. Ég tel, að það væri til bóta að fá hana samþykkta og vil vænta þess, að meðnm. mínir með þeim góða samkomulagsvilja, sem þeir hafa sýnt í þessum málum til lausnar þeim á hagfelldan hátt, þeir athugi það, hvort þeir geti ekki veitt þessari till. stuðning.

Þá liggur hér einnig fyrir till. á þskj. 380 frá Einari Olgeirssyni, hv. 3. þm. Reykv. og hafði hann gert grein fyrir efni hennar við 1. umr. málsins, en hafði ekki lagt hana fram sem till., þegar við fjölluðum um málið í n. Hins vegar var mér það kunnugt í n., að um hana yrði ekki samkomulag. Þessi till. er um, að upp verði tekin námslaun til þess að örva það, að efnalitlir menn geti farið út í læknisnámið og við þannig getum e.t.v. dregið úr læknaskortinum með slíkri aðstoð, sem í námslaunum felst og lýsti ég stuðningi mínum við þá hugmynd við 1. umr. og endurtek það hér, að ég mun greiða þessari till. atkv. og tel, að það væri hyggilegt ráð að verða við þeim óskum um, að upp verði tekin námslaun einmitt við læknanám, eins og þar er gert ráð fyrir.

Brtt. á 392 eru einnig frá n. í heild og eru nánast leiðréttingar, sem n. öll stendur að og hef ég þá ekki fleira um þetta mál að segja. En ég tel rétt, að n. komi saman til þess að athuga, hvort hún yrði samferða um stuðning við 5. töluliðinn á þskj. 347.