06.04.1965
Neðri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

138. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Við 2. umr. um frv. til læknaskipunarlaga voru tvær till., sem teknar voru aftur til 3. umr., og þykir mér rétt að geta þess, að heilbr.- og félmn. ræddi báðar þessar till., till. 3. þm. Reykv. (EOl) og till. 3. þm. Vestf. (SE), á fundi sínum í morgun og var meiri hluti n. á þeirri skoðun um till. 3. þm. Reykv., að þetta mál þyrfti frekari athugunar við og í því sambandi vil ég nefna það nýmæli í þessu frv. til nýrra læknaskipunarlaga, að heimilt er samkv. till. landlæknis og að fenginni umsögn læknadeildar Háskóla Íslands að veita á ári hverju læknastúdentum ríkislán til náms gegn skuldbindingu um læknisþjónustu í héraði að loknu námi. Breytingin á þessari gr., sem hv. 3. þm. Reykv. leggur til, er á þessa leið, að í staðinn fyrir „heimilt að veita læknastúdentum ríkislán til náms“, þá leggur hann til, að læknastúdentar fái námslaun, er nægi þeim til lífsframfæris, meðan þeir stunda nám í læknadeild.

Ég tel, að með þessu nýmæli í frv. um heimild til að veita læknastúdentum ríkislán til náms sé stigið nokkuð mikilvægt skref í þá átt að létta læknastúdentum námskostnað og það sé eitt af mörgu, sem fram kemur í þessu frv. til þess að stuðla að því að fá frekar lækna og þá um leið læknastúdenta til þess að gegna héraðslæknisstörfum. Mér finnst, að með þessu frv. hafi verið stigið í heild mjög mikilvægt skref í þessa átt. Hins vegar má alltaf um það deila, menn vilja ganga misjafnlega langt í einu, en við í meiri hl. heilbr.- og félmn. teljum, að það væri rétt að sjá, hvernig framvinda þessara mála verður nú næstu árin, en ekki ganga lengra að svo stöddu.

Í sambandi við hina till., sem fyrir liggur frá 3. þm. Vestf., er meiri hl. n. á þeirri, skoðun að réttara sé að leggja áherzlu á það að hraða endurskoðun laganna um læknisvitjanasjóð, eins og fram kom hér við 2. umr. málsins í hv. þd. Till. hv. 3. þm. Vestf. finnst mér að sé að mörgu leyti gölluð, því að það er ekki þar með sagt, þó að læknishérað verði læknislaust, að það séu ekki ýmis önnur héruð, þó að læknir sé í þeim, þar sem fólk þarf að kosta mjög dýra sjúkraflutninga. Það eru til læknishéruð, þar sem þarf að flytja sjúkling hundruð km leið eða 3–31/2 tíma ferð á bát á sjúkrahús eða til læknis, þó að héraðslæknir sé í læknishéraðinu. Þess vegna má segja, að ef þessi till. yrði samþ., væri töluvert misræmi þarna á milli fólks í hinum dreifðu byggðum landsins og því finnst mér miklu réttara og eðlilegra að leggja höfuðáherzlu á að stórefla læknisvitjanasjóð. Við vitum, að læknisvitjanasjóður er mjög ófullkominn, vegna þess að þessi lög eru orðin 23 ára gömul og þar er styrkur ríkissjóðs bundinn að krónutölu og þar af leiðandi er framlag hans orðið mjög lítilfjörlegt í alla staði og bráð nauðsyn á því að hraða endurskoðun þessara laga á þann veg, að allir, sem þurfa á dýrum sjúkraflutningum að halda eða læknisvitjun, fái þar meira en verið hefur nú um mörg undanfarin ár. Frá þessu hefur verið gerð ein undantekning og hún er sú, að eitt afskekktasta læknishérað landsins og afskekktasti hreppur landsins, Árneshreppur, hreppsnefnd hans sendi erindi til fjvn. á s.l. hausti og óskaði. eftir því vegna einangrunar hreppsins, að það yrði veitt sérstakt fjárframlag til sjúkraflutninga, og fjvn. varð við þessu erindi og veitti 25 þús. kr. til þessa hrepps í þessu skyni, og það var samþ. á fjárl. yfirstandandi árs.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég legg mjög mikla áherzlu á, að læknisvitjanasjóður verði efldur, frv. samið upp að nýju og ég vænti þess og treysti því, að heilbrmrh., sbr. það, sem hann sagði um daginn við 1. umr. þessa máls, að hann leggi frv. til l. um þetta efni fyrir næsta þing.