06.04.1965
Neðri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

138. mál, læknaskipunarlög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkrar setningar. — Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Reykv., er því miður ekki eins vel að sér í þessu máli, sem hann gerir að umtalsefni og æskilegt væri og skal ég þó ekki nota það til neinnar ádeilu á hann. Það er ekki við því að búast, að einstakir þm. þekki til hlítar sögu máls eins og námsstyrkja og námslauna. Hann vakti athygli á því, að 1950 hefði eingöngu verið um námsstyrki að ræða, en nú væri hins vegar svo að segja eingöngu um námslán að ræða. Ég vil aðeins taka það fram, bæði gagnvart hv. þm. og öðrum hv. þm., sem ekki heldur kunna að vita hið sanna í þessu máli, að það var fyrir einróma forgöngu stúdenta sjálfra við Háskóla Íslands, sem námsstyrkir við háskólann voru afnumdir algerlega og námslán tekin upp í staðinn. Það gerðist með lagasetningu um lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands árið 1953. Þáv. stúdentaráð beitti sér einróma fyrir því, að námsstyrkir voru afnumdir og námslán tekin upp í staðinn. Þetta gaf svo góða raun við Háskóla Íslands sökum þess, hversu mjög námslánin gátu hækkað vegna endurgreiðslu þeirra frá þeim, sem fengu þau, að menntamálaráð tók einnig upp að breyta námsstyrkjum í námslán án nokkurs atbeina frá Alþ. eða frá stjórnarvöldum, og sú ákvörðun var tekin einróma af fulltrúum allra flokka í menntamálaráði, einnig af flokksbróður hv. 5. þm. Reykv. í menntamálaráði. Þegar svo stóra átakið var gert um endurskipulagningu stuðningsins við íslenzka námsmenn erlendis sérstaklega 1961, var mjög um það rætt, hvort frekar ætti að beita námslánum eða halda áfram námsstyrkjum í einhverju formi. Mjög margir voru þeirrar skoðunar, að rétt væri að haga stuðningi við námsmenn erlendis eins og gert er við námsmenn hér í háskólanum, veita eingöngu námslán. Sú varð þó ekki niðurstaðan, heldur fá þeir, sem stunda nám erlendis, sumpart að vísu aðallega námslán, en þó einnig námsstyrki. Að vekja sérstaka athygli á því og kalla það afturför, að námsstyrkir hafi ekki nema eitthvað þre- eða fjórfaldazt síðan 1950, þegar jafnstórkostleg aukning hefur orðið á námslánunum, jafnhagkvæm og þau eru; eins og ég er áður búinn að marglýsa, er náttúrlega algerlega út í bláinn, sérstaklega þegar það er haft í huga, að hugmyndin um breytingu frá námsstyrkjum í námslán er komin frá stúdentunum sjálfum og má þá geta nærri, hvort sú breyting er þeim óhagkvæm.