06.04.1965
Neðri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

138. mál, læknaskipunarlög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður, en ég neyðist til að gera hér tvær örstuttar aths.

Hæstv. menntmrh. fékkst nú til að viðurkenna, að í þessum samanburði þetta 15 ára tímabil yrði að taka ýmislegt til greina og hann nefndi það t.d., að fjöldi námsmanna hafi meira en tvöfaldazt á þessu tímabili og gengismunurinn væri þrefaldur. Ég er auðvitað algerlega óviðbúinn að fara út í útreikninga á þessum atriðum sitjandi hér í sætinu mínu og hafandi ekki neitt við höndina til að fletta upp í og bera saman. En þó er einfalt samkv. þeim tölum, sem hann kom með, að athuga, hvernig þróunin hefur verið frá 1959 og bið ég nú hæstv. ráðh, að fylgja mér sæmilega eftir. Hann segir, að námslaunin hafi samtals verið þá 3 millj. Hann segir, að á þessu tímabili hafi fjöldi námsmanna tvöfaldazt, ég skildi ráðh. rétt þannig: tvöfaldazt. (Gripið fram í.) Úr 209 í 330. Jæja, þá hefur upphæðin vaxið um 50% Þá erum við komnir upp í um það bil 41/2 millj. Í öðru lagi viðurkennir hann, að gjaldeyrir og gengi hafi fallið, þannig að nú þurfi tvöfalt fleiri íslenzka peninga til að greiða upphæðina. Þá erum við komnir upp í einar 9 millj. kr. Ég er búinn að taka hérna þau tvö atriði, sem hann réttilega nefndi. En hann sleppti aftur á móti tveimur atriðum, sem ég tók sérstaklega fram. Það er annars vegar, að við verðum að gera ráð fyrir nokkurri dýrtíð í þeim löndum, þar sem stúdentarnir eru við nám. Ég er nú ekki nógu fróður um þetta atriði, en þó held ég, að það sé í rauninni ekkert mjög ósanngjarnt að segja, að dýrtíðin hafi vaxið í mörgum þessum löndum kannske um 5% á ári. Við erum þá komnir upp 30% á þessu tímabili og 30% af þessum 9 millj., sem ég er kominn upp í, hækka töluna upp í eitthvað á milli 12 og 13 millj. Og þar að auki bætist svo við liður, sem ég nefndi hér áðan, en ráðh. tók ekki með í reikninginn, að vegna þess, hve Háskóli Íslands er lítill og vegna þess, hve hann býður upp á fáa möguleika fyrir menn að stunda nám, verða stúdentar í vaxandi mæli að leita til útlanda og oft til dýrustu landanna, eins og Bandaríkjanna eða annarra, þannig að þar má hiklaust reikna með a.m.k. 2–3 millj. til viðbótar. Þá erum við í þessum mjög svo lauslega útreikningi komnir upp í um það bil 14–15 millj. Ráðh. reiknaði í upphafi með, að nú væru námslánin um 16 millj. samtals og sjá þá allir, að munurinn getur ekki verið ýkjamikill. Hitt er svo annað mál, að samkv. þessum útreikningi mínum er ofurlítill munur, sem nemur 1/15 hluta eða svo, en það getur vel stafað af vitlausum útreikningi eða af öðrum ástæðum. Hefði maður þó talið, að á þeim góðæristímum, sem þjóðin hefur búið við nú á síðustu árum, hefði verið tækifæri til þess að bæta kjör stúdenta hlutfallslega, þannig að þeirra kjör færu batnandi með auknum þjóðartekjum og meiri möguleikum til þess að veita þeim námslán, því að ekki eru þetta þó styrkir, heldur bara lán, sem þeir skulda og verða að greiða síðar.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég tel það ánægjulegt að heyra, að forsrh. hæstv. dregur nú mjög í land miðað við fullyrðingar sínar hér fyrir nokkrum vikum. Hann lagði nú fyrir mig eina spurningu, sem ég er auðvitað nauðbeygður til að svara. Hann spurði, hvort ég teldi, að læknastúdentum væri mikill greiði gerður með því, ef samkv. till. Einars Olgeirssonar, hv. 3. þm. Reykv., ætti að skuldbinda stúdenta til að vinna alla ævina úti á landi, því að í tillögunni stæði: „gegn skuldbindingu um læknisþjónustu í héraði að afloknu námi.“ Hér er að vísu ekkert tiltekið um það, hversu lengi þeir eigi að stunda nám. En næsta setning á eftir er: „Nánari ákvæði um námslaun þessi skal setja í reglugerð.“ Það mætti með sama rétti túlka þessi orð á þann veg, að þeir ættu ekki aðeins að starfa að afloknu námi í þjónustu ríkisins, heldur væri einnig hugsanlegt að spyrja: Er ætlunin, að þeir verði í héraði alla ævi, eins og segir í þessum orðum? Er ætlunin, að þeir verði að dúsa úti á landi alla sína ævi? Nei, ég held, að ég ætli ekki hæstv. forsrh. þá ósanngirni að vilja túlka þessa till., sem hér er borin fram, með svo fáránlegum hætti. Hérna er ráðh. gefið það á vald að ákveða nánar um þetta atriði, hversu langur tími þetta eigi að vera, og ég efast ekkert um, að hæstv. forsrh. treystir hæstv. menntmrh. eins vel og ég til þess að setja reglugerð um þetta atriði, sem sé með sanngirni sett og þá efast ég ekki um, ef svo væri, að læknanemar mundu hiklaust fagna þessari till. sem stórsigri í sínum réttindamálum.