12.04.1965
Efri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

138. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það hefur um langan tíma verið mikið vandamál hér á landi að veita fólkinu í strjálbýlinu viðunandi læknisþjónustu og hafa ýmsar tilraunir verið gerðar til þess að bæta úr því, en tæplega borið þann árangur, sem til var ætlazt. Það var þess vegna á s.l. vori, að ég skipaði 6 manna n. til þess að framkvæma endurskoðun á læknaskipunarlögunum og læknaþjónustu dreifbýlisins almennt í því skyni að finna lausn á hinu aðkallandi vandamáli, sem stafar af skorti á læknum til héraðslæknisstarfa, einkum í hinum fámennari og afskekktari héruðum landsins. Í þessa n. reyndi ég að velja þá menn, sem ég taldi bezt til þess hæfa og fjölluðu þeir um málið, Sigurður Sigurðsson landlæknir, sem var formaður n., Benedikt Tómasson skólayfirlæknir, varaformaður, Óskar Þórðarson yfirlæknir, formaður Læknafélags Íslands, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri í félmrn. og Jón Thors fulltrúi í dóms- og kirkjumrn. Síðan var einn maður tilnefndur frá háskólanum, fyrst dr. Sigurður Samúelsson og Kristinn Stefánsson síðar. Ég hygg að þetta hafi verið þeir menn, sem gátu sameinað bezta þekkingu á þessu máli, enda veit ég, að þeir unnu vel að því að undirbúa þá endurskoðun, sem þeim var falin og skiluðu svo á s.l hausti till. að frv., sem síðar hlaut athugun í ríkisstj. og var lagt, eins og kunnugt er, fyrir Nd. Alþ. Um það var smávegis ágreiningur í upphafi, ekki efnishlið málsins, held ég og nú liggur þetta mál fyrir Ed., eftir að nokkrar breytingar hafa verið gerðar á því í Nd.

Það, sem mestum ágreiningi olli, var í raun og veru það í Nd., að lagt var til að sameina nokkur læknishéruð, m.ö.o. að horfast í augu við staðreyndir, gera sér grein fyrir því, að hæpið væri að halda vissum læknishéruðum. Þetta getur í sjálfu sér alltaf verið álítamál. Samkomulag varð svo um það, bæði milli mín og n. og þm. í Nd., að draga úr þeim till., sem þar voru gerðar, þannig að af fimm læknishéruðum, sem gert var ráð fyrir að sameina öðrum læknishéruðum, eru nú aðeins tvö eftir. Hin þrjú eru aftur sjálfstæð, eins og fram kemur í frv. Það eru Suðureyrarhérað, Raufarhafnarhérað og Bakkafjarðarhérað. Þessi þrjú halda sér enn sem sjálfstæð læknishéruð, en Djúpavíkurhérað og Flateyjarhérað verða ekki sjálfstæð læknishéruð, ef ekki tekst að fá lækni í þau með þeim hlunnindum, sem felast í þessari löggjöf, eftir að þau hafa verið auglýst í tiltekinn tíma, eins og þar er gert ráð fyrir.

Í sjálfu sér var ekkert aðalefni máls, hvort læknishéruð væru fleiri eða færri, heldur hitt, að fólkið gæti fengið viðunandi læknisþjónustu í dreifbýlinu og það má segja, að það sé aðalkjarni og efni málsins, og um það fjalla viss ákvæði í þessu frv., fyrst og fremst í 6. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að í tilteknum héruðum, minnstu héruðunum, sem erfiðast hefur reynzt að fá lækna í, skuli þeir fá tiltekna staðaruppbót á laun, er nemi hálfum launum í hlutaðeigandi héraði og þau eru talin upp, þessi héruð, í 6. gr. Enn fremur eru þeim veitt hlunnindi, sem felast í því að héraðslæknar geta eftir tiltekinn tíma fengið aðstöðu til þess að fara til náms erlendis á kostnað ríkisins, eins og segir í 2. mgr. 6. gr., og vænta má, að það sé nokkuð mikils virði, því að m.a. er það eitt af því, sem hefur gert þeim erfiðara um vik í fámenninu að geta haldið við sínu námi og sinni þekkingu í þessari ört vaxandi grein, sem læknavísdómurinn er, skulum við segja. Og enn fremur er gert ráð fyrir því um þá, sem eru í hinum minni læknishéruðum, eins og segir í 3. mgr., að þeirra aldur er reiknaður á sérstakan hátt, þannig að þeim reiknast 5 ár fyrir hver 3 ár, sem þeir hafa gegnt í héraðinu. En eftir öðrum ákvæðum frv. er lögð megináherzla á það, að aldur þeirra í embætti skuli hafa úrslitaþýðingu að öðru jöfnu, þegar þeir sækja um önnur læknishéruð eða aðrar stöður. Svo er enn fremur á öðrum stöðum í frv. gert ráð fyrir því að veita þeim sérstök lán, ríkislán til náms gegn skuldbindingu um læknisþjónustu í héraði að afloknu námi, ef menn vilja gerast héraðslæknar og enn fremur að stofna bifreiðalánasjóð héraðslækna, en það er eitt af því sem hefur verið erfitt héraðslæknum, sem koma beint frá námi, að eignast bifreiðar, sem nauðsynlegar eru fyrir þá í starfi þeirra. Þetta má segja, að séu í meginatriðum hlunnindi, sem felast í þessu frv.

Þegar n. skilaði álíti sínu, voru einnig ályktunartill., sem hún skilaði til ráðh. Þær voru því miður ekki prentaðar með frv., en mér þykir rétt að gera grein fyrir þeim nú, þær snerta ekki meðferð málsins beinlínis, en þær voru þrjár. Sú fyrsta fjallaði um breytingu á læknakennslunni, en um það ályktaði n. eftirfarandi: N. telur, að læknakandidötum sé tilfinnanlega vant þjálfunar í almennum læknisstörfum utan sjúkrahúsa og er því lagt til, að rn. fari fram á það við menntmrn., að læknadeild háskólans verði falið að gera till. um slíkt nám og tilhögun þess. Í öðru lagi sérfræðiréttindi heimilislækna og embættislækna: N. álítur mikils vert að auka veg almennrar læknisþjónustu og embættislæknastarfa með því að gera heimilislækningar og embættislækningar að sérgreinum. Leggur n. til, að læknadeild háskólans verði falið að semja reglur um nám í þessum sérgreinum. Báðar þessar ályktunartill. heyra í raun og veru undir menntmrn., en ekki heilbrmrn. og ég hef skrifað hæstv. menntmrn. og beðið hann um að taka þessi mál til meðferðar og úrlausnar. Í þriðja lagi gerði n. ályktunartill. um sjúkravitjana- og sjúkraflutningaflug á eftirfarandi hátt: N. telur nauðsynlegt, að settar verði ákveðnar reglur um sjúkravitjana- og sjúkraflutningaflug, svo sem hvernig skuli til slíks flugs stofnað, hver skuli vera lágmarksmenntun flugmanna þeirra, sem slíkt flug annast og hvers konar farartæki skuli notað og hver sé útbúnaður þess, enn fremur hvaða aðilar annist greiðslur fyrir flugið og í hvaða hlutföllum. Um þetta mál hefur mitt rn. fjallað og ég hef beðið landlækni og fulltrúa minn í heilbrmrn. og auk þess farið þess á leit við félmrh., að hann leggi til sinn ráðuneytisstjóra til þess með þessum tveimur mönnum að fjalla um þetta málefni. Og í viðbót við það hef ég beðið þessa 3 menn um að taka til endurskoðunar löggjöfina um læknisvitjanasjóð, sem er orðin úrelt og nær ekki tilgangi sínum. Því miður hefur dregizt um of að endurskoða þá löggjöf, en ég geri mér vonir um, eftir að hafa falið þessum mönnum að fjalla um það mál, að svo kunni að fara, að till. um frv. að nýrri læknisvitjanalöggjöf geti legið fyrir næsta þingi.

Ég hef ekki verið fjölorður um málið, m.a. vegna þess, að um það spunnust miklar umr. í Nd., sem ég veit, að hv. þm, eru kunnar. Ég geri mér vonir um, þó að það sé aldrei hægt að fullyrða um það, að þetta frv., ef að lögum verður, geti nokkuð bætt úr miklum vanda, sem okkur hefur verið á höndum í þessum málum og vildi leyfa mér að vænta, að hv.

Ed. tæki málinu vel og tæki það til skjótrar afgreiðslu.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.