12.04.1965
Efri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

138. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér þykir mjög vænt um það, sem fram kom hjá hv. 9. þm. Reykv. í þessu máli, að hann taldi veigamesta atriðið kannske vera það, sem felst í 4. gr. og ég skal viðurkenna það, að ég lagði ekki áherzlu á það í minni frumræðu, m.a. vegna þess, að ég var svolítið hvekktur eftir undirtektir málsins í Nd. Og það má segja, eins og hv. þm. sagði, að ég hafi guggnað fyrir till. Nd.-manna um það að sameina ekki þau héruð, sem upphaflega var ráð fyrir gert í frv. Það finnst mér nú ekki vera veigamikið aðalatriði málsins og ég reyndi þar að skilja viðkvæmni manna, bæði þm. og fólks á viðkomandi stöðum. En það er rétt hjá hv. 9. þm. Reykv., að það er mjög veigamikið atriði, sem felst í 4. gr., að reyna að sameina héruðin og fá fleiri menn til þess að stunda sameiginlega stærra umdæmi. Og það kemur fram í grg. frá n., er undirbjó málið, einmitt þetta veigamikla atriði, hversu mikill þungi það er og mikil ábyrgð það er, sem liggur á einum lækni í stóru héraði að þurfa að taka úrslitaákvarðanir, — á mönnum, sem eru menntaðir við það að vinna sameiginlega með fleirum og koma svo einir út í lifið og þurfa að taka ákvarðanir, þegar örlögum skiptir og líf liggur við hjá sjúklingum þeirra. Ég er alveg sammála hv. þm., að þetta er eitt af því veigamesta í málinu og einmitt og sér í lagi líka vegna þess, að við getum frekar gert þetta nú orðið, heldur en við gátum gert það áður með bættum samgöngum, sem við höfum, betri vegum og svo flugsamgöngum, sem gert er ráð fyrir líka og gerð er grein fyrir í upphaflegri grg. frv., að verði til þjónustu fyrir stærri læknishéruð, en áður hafa verið, bæði með þyrlum og litlum flugvélum og það kynni að geta orðið til stórra bóta í þessu máli. Ég legg ekki mikið upp úr því, þó að við höfum fallizt á það, sjálfur lagði ég til í minni tillögugerð, að Suðureyrarlæknishérað yrði áfram læknishérað. En á það er að líta, að ef í eitthvert af þessum læknishéruðum og öðrum læknishéruðum fæst ekki héraðslæknir áfram, er almenna heimildin í 4. gr. fyrir hendi til þess að sameina læknishéruðin.

Um þetta skal ég svo ekki meira segja, en ég þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir við málið og vona, að málið fái fljóta og góða afgreiðslu.