05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

138. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Ragnar Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, kom frá Nd. og þarf ég ekki að vera langorður um það. Ég geri ráð fyrir því, að allir hv. þdm. hafi kynnt sér efni þess, en það miðar að því að bæta læknaþjónustu dreifbýlisins með því að bæta kjör héraðslækna, bæði með hækkuðum launum og ýmsum öðrum hlunnindum. Ég hygg, að allir séu á einu máli um, að það sé brýn nauðsyn að bæta læknisþjónustu fólksins í strjálbýlinu. En alþjóð eru kunnir þeir erfiðleikar, sem á því hafa verið að fá lækna til þess að starfa úti um byggðir landsins, sérstaklega í hinum fámennari og strjálbýlli héruðum.

Heilbr.- og félmn. hefur athugað frv. og skilað sameiginlegu áliti á þskj. 594. Þrír nm. áskildu sér þó rétt til þess að bera fram brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Og nú eru komnar hér fram tvær brtt. (Önnur er á þskj. 588 frá hv. 9. þm. Reykv. og er sú brtt. í fjórum liðum. Önnur brtt. er komin frá hv. 1. þm. Vesturl. á þskj. 640.

Ég verð að leggja til, að þessar brtt. verði báðar felldar. Og í sannleika sagt kemur mér dálítið á óvart, að þær brtt. skuli koma hér fram, vegna þess, að mér virtist, að í nefndinni væru þessir hv. þm, mjög ánægðir með frv., og þessar brtt, finnst mér ekki svo mikilvægar, að það sé ástæða til þess að láta þær tefja þetta frv., því að öllum hv. þm. hlýtur að vera það sama í huga og mér, að það sé mjög nauðsynlegt að koma þessu frv. áleiðis. En núna er naumur tími til stefnu.

Þetta frv. tók nokkrum breytingum í Nd. frá því sem það var, þegar það var upphaflega lagt fram. Og þær breytingar voru gerðar skv. óskum utan af landsbyggðinni. Eru þær þess efnis, að nokkur héruð, sem áður voru sérstök læknishéruð, verði ekki sameinuð öðrum læknishéruðum. En þetta eru Súðavikurhérað, Raufarhafnarhérað og Bakkagerðishérað.

Þá varð sú breyt. á ákvæðum til bráðabirgða, að áður, en núv. Flateyjarhérað og Djúpavíkurhérað, sem sameinast nú öðrum héruðum, verði lögð niður og sameinuð þeim læknishéruðum, sem þau eiga að sameinast, þá skuli þau auglýst laus til umsóknar þrisvar í röð með sömu kjörum og aðrir læknar njóta í þeim læknishéruðum, sem um getur í 6. gr. frv.

Þetta er að mínum dómi allt til bóta, þar sem með þessu er reynt að koma enn þá lengra til móts við þarfir fólksins í strjálbýlinu, en frv. gerði upphaflega ráð fyrir.

Frv. þetta, ef að lögum verður, felur í sér miklar breytingar til bóta fyrir héraðslækna, sem starfa úti um landið í hinum fámennu héruðum, enda er þörfin til úrbóta mjög brýn. Stórbætt launakjör auk margs konar hlunninda ættu að stuðla að því, að ungir og áhugasamir læknar verði fúsari til þess, en verið hefur nú um skeið að gerast héraðslæknar úti á landi og vitanlega hafa allir landsmenn sama rétt til góðrar heilbrigðisþjónustu. Verði frv. að lögum, er stórt spor og mikilvægt stigið í þá átt, að svo megi verða, Ég vil vona það, að hv, þd. stuðli að því.