12.04.1965
Efri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

57. mál, eftirlit með útlendingum

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. Ég tel þá tilhögun mjög æskilega, sem þegar er orðin, að norrænir ríkisborgarar séu leystir undan vegabréfaskyldu, þegar um er að ræða ferðalög frá einu Norðurlandanna til annars. Hins vegar tel ég mig ekki vera reiðubúinn til að viðurkenna samnorræn landamæri út á við hvað vegabréfaskyldu snertir, eins og ákvæði þessa frv. gera þó ráð fyrir. Ef útlendingur annar, en Norðurlandabúi fær dvalarleyfi í einu hinna norrænu landa, á hann þar með óheftan aðgang að þeim öllum. Mér finnst, að vafasamt geti verið, að þetta sé réttmætt í öllum tilvikum. Það er alls ekki víst, að útlendingur, sem talinn er æskilegur eða meinlaus í einu hinna norrænu landa og sé það, reynist það, sé um leið meinlaus og hættulaus í öðru Norðurlandanna. Útlendingur, sem fær t.d. dvalarleyfi í Svíþjóð, getur verið óæskilegur á Íslandi og jafnvel hættulegur þar og öfugt. Einnig má hugsa sér þann möguleika, að útlendingur, annar en Norðurlandabúi komi sér út úr húsi í einu Norðurlandanna fyrir eitthvað smávægilegt og verði fyrir þær sakir rækur úr því landinu og þar með samkv. frv. úr öllum Norðurlöndum. Ég tel hugsanlegt, að í slíku tilviki geti verið óréttlátt að flæma hann frá öllum Norðurlöndum, þó að hann hafi eitthvað brotið af sér, ef um lítið er að ræða, í einu þeirra. Þá finnst mér einnig vafasamt, að það sé rétt að fela útlendingaeftirliti annarra þjóða að ákveða að nokkru leyti a.m.k., hverjir megi til Íslands koma og hverjir ekki, en það er einmitt ákveðið í þessu frv. Ég er ekki reiðubúinn til þess að samþykkja þetta og vil aðeins gera grein fyrir mínum sjónarmiðum.

Ég vil einnig benda á, að í 7. gr. er gert ráð fyrir, að í samninga við önnur ríki megi setja ákvæði um gagnkvæmar undanþágur frá reglum um dvalarleyfi. Hér finnst mér of langt gengið. Ég held, að Alþ. eigi ekki að sleppa úr höndum sér að ákveða slíkt hverju sinni, og gefa þetta laust í eitt skipti fyrir öll. Við höfum þegar gert ýmsa samninga við önnur ríki og önnur ríki en Norðurlönd og samkv. þessu lít ég svo á, að inn í þá samninga væri stjórnarvöldum heimilt að setja þessi ákvæði um gagnkvæmar undanþágur frá reglum um dvalarleyfi og svo um alla nýja milliríkjasamninga, sem gerðir yrðu af Íslands hálfu. Ég tel ekki neina þörf á því, að þetta ákvæði standi í þessum lögum, heldur miklu réttara, að Alþ. fjalli þá um þetta atriði í hverju einstöku tilviki.