13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

177. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um fjölgun menntaskóla í landinu. Í gildandi l. um menntaskóla, sem eru frá árinu 1946, segir, að menntaskólar skuli vera tveir, annar í Reykjavík, en hinn á Akureyri og að stofna skuli hinn þriðja í sveit, þegar fé sé veitt til þess á fjárlögum. Samkv. þessari heimild var menntaskóli stofnaður á Laugarvatni. Eru því nú 3 menntaskólar á Íslandi, auk þess starfrækir Verzlunarskóli Íslands lærdómsdeild, sem brautskráir stúdenta samkv. reglugerð frá 5. nóv. 1942 og enn fremur mun Kennaraskóli Íslands brautskrá stúdenta samkv. nýsettum lögum um þann skóla frá 26. apríl 1963. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að menntaskólar skuli vera 6, þ.e.a.s. að nýr menntaskóli skuli stofnaður í Reykjavík og auk þess skuli stofnaðir heimavistarmenntaskólar á Vestfjörðum og á Austurlandi. Enn fremur er heimilað að stofna fleiri menntaskóla í Reykjavík eða nágrenni, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum. Sú skipan, sem gert er ráð fyrir á menntaskólamálunum í þessu frv., er því sú, að í Reykjavík skuli vera heimangöngumenntaskólar, nú þegar tveir, en síðan eins margir og þörf gerist, en utan Reykjavíkur skuli vera einn menntaskóli í hverjum landsfjórðungi, sunnanlands og norðan, vestanlands og austan og skuli þeir allir vera heimavistarskólar. Þá er og í frv. heimilað að efna til kennslu í námsefni 1. bekkjar menntaskóla við gagnfræðaskóla, þar sem nemendafjöldi og önnur skilyrði gera slíka ráðstöfun eðlilega og framkvæmanlega. Er menntmrn. þá heimilað að setja reglur um slíkt skólahald, þ. á m. skilyrði um lágmarkstölu nemenda í hverjum bekk. Er þetta bæði gert til þess að létta á húsnæðisþörf sjálfra menntaskólanna og þá fyrst og fremst heimavistarmenntaskólanna og einnig til þess, að foreldrar þurfi ekki að senda þá unglinga, sem ætla að stunda menntaskólanám, að heiman fyrr en ári síðar en ella eða þegar deildaskiptingin hefst í menntaskólunum. Reynslan hefur sýnt, að unnt er að halda uppi kennslu í námsefni 1. bekkjar menntaskóla í framhaldi af gagnfræðaskólanámi, en ógerningur er að halda uppi kennslu í námsefni lærdómsdeildar, máladeildar eða stærðfræðideildar eða í öðrum deildum, sem stofnaðar kynnu að verða í tengslum við gagnfræðaskóla.

Nauðsynlegt er að marka nú þegar framtíðarstefnuna í menntaskólamálum. Námsefni menntaskólanna og sjálft skipulag þeirra hefur undanfarið verið í gagngerðri endurskoðun. Hvarvetna eru nú að verða miklar breytingar á menntaskólanámi, bæði á sjálfu námsefninu, kennsluaðferðum og deildaskiptingu við námið. Ég hef talið sjálfsagt, að við Íslendingar fylgdumst vandlega með því, sem er að gerast með nálægum þjóðum í þessum efnum og þess vegna gert ráðstafanir til þess, að námsefnið yrði endurskoðað. Hér er hins vegar um mikið verkefni að ræða, sem taka mun nokkurn tíma, ekki hvað sízt vegna þess, að komið hefur í ljós, að samhliða breytingum á menntaskólanáminu er skynsamlegt og eðlilegt að gera vissar breytingar á gagnfræðaskólanáminu og líka háskólanámi, a.m.k. í sumum greinum. Þó mun verða kappkostað, að þessu verki öllu miði eins fljótt áfram og mögulegt er. Hins vegar er engin ástæða til þess að láta lagasetningu um hina ytri hlið menntaskólamálanna, ef svo mætti segja, bíða endurskipulagningar á innri hliðinni eða sjálfu skálastarfinu. Þess vegna flytur ríkisstj. þetta frv., sem ætlað er að marka stefnuna að því leyti, hvar menntaskólar skuli staðsettir í landinu og hvers konar þeir skuli vera, þ.e.a.s. að hversu miklu leyti þeir skuli vera heimangönguskólar og að hversu miklu leyti heimavistarskólar.

Það er fyllilega tímabært að fjölga nú menntaskólunum, bæði heimangönguskólum og heimavistarskólum. Fjölgun menntaskólanemenda hefur verið mjög mikil undanfarin ár og mun þó eflaust verða enn meiri á næstu árum. Raunar tel ég, að það eigi að vera eitt helzta stefnuatriði íslenzkra skólayfirvalda að vinna að því, að æ fleiri unglingar leggi leið sína gegnum menntaskólana, kennaraskólann og tækniskóla, þ.e. láti ekki staðar numið við gagnfræðastigið eða iðnskólana, heldur haldi áfram námi í æðri skólum og séu sem flestir í háskólum.

Erfitt er að spá um það, hversu margir muni óska eftir menntaskólanámi á næstu árum. Nokkrar vísbendingar má þó fá af því, hversu margir nemendur hafa sótt menntaskólana undanfarin ár. 1961 luku 476 nemendur landsprófi með einkunn, sem veitti þeim rétt til inngöngu í menntaskóla eða kennaraskólann, og af þeim héldu 424 áfram námi í menntaskólunum og kennaraskólanum. 1962 luku 525 landsprófi og 504 héldu áfram námi. 1963 luku 560 nemendur námi og 558 héldu áfram námi. Á þessum 3 árum fjölgaði því þeim, sem héldu áfram námi í menntaskólum eða kennaraskólanum, um 134. Rektor menntaskólans í Reykjavík hefur talið óvarlegt að gera ráð fyrir því, að menntaskólanemendum í Reykjavík fjölgi um minna en 100 á ári að meðaltali á næstu árum. Samkvæmt upplýsingum skólameistara menntaskólans á Akureyri hefur fjöldi umsókna um skólavist verið nokkuð svipaður allra síðustu ár, en allmikil aukning varð fyrir nokkrum árum, þegar stóru árgangarnir frá síðustu stríðsárunum tóku að komast á menntaskólaaldur. Einnig á Laugarvatni mun fjöldi umsækjenda hafa verið nokkuð svipaður upp á síðkastið. Aðsókn að kennaraskólanum hefur hins vegar farið mjög vaxandi síðustu ár, einkum eftir að nýju lögin tóku gildi.

Ég tel þó rétt að taka fram og leggja á það sérstaka áherzlu, að engum nemanda með fullgildum landsprófsréttindum hefur verið synjað um aðgang að menntaskólanámi. Um þá tvo af menntaskólunum, sem eru heimavistarskólar, þ.e. menntaskólana á Akureyri og á Laugavatni, er það að segja, að nokknum umsækjendum hefur þurft að synja um vist í heimavist skólanna árlega. Á Akureyri verður árlega að synja um það bil 24–30 nemendum um heimavist, en nokkuð á annað hundruð nýnemar eru á ári hverju teknir í skólann. Á Laugarvatni hefur venjulega orðið að vísa frá heimavist um 15 nemendum af 50–60 umsækjendum. Allir þeir umsækjendur, sem eiga ekki kost á dvöl í heimavistum á Akureyri eða Laugarvatni, hafa hins vegar átt kost á því að sækja menntaskólana og hafa gert það. Aðsóknin að heimavistunum á Akureyri og Laugarvatni bendir hins vegar greinilega til þess. að þörf sé fyrir fleiri heimavistarskóla og er það meginástæða þess, að lagt er til í þessu frv., að hinir nýju menntaskólar á Vestfjörðum og Austfjörðum verði einmitt heimavistarskólar.

Ég tel rétt að fara nokkrum orðum sérstaklega um byggingarmál Menntaskólans í Reykjavík og fyrirhugaða byggingu nýs menntaskóla í höfuðstaðnum. Byggingarmál Menntaskólans í Reykjavík höfðu lengi vafizt fyrir mönnum og verið allmikið deilumál. Núverandi ríkisstj. hefur markað þá stefnu, að menntaskóli skuli framvegis vera á núverandi skólastað við Lækjargötu, en jafnframt skuli byggður annar menntaskóli í Hamrahlíð. Er tilætlunin, að gamli menntaskólinn fái til umráða allt svæðið milli Lækjargötu, Amtmannsstígs, Þingholtsstrætis og Bókhlöðustígs, að fráteknu nokkru belti vegna húsaraðar við Þingholtsstræti, og er nú unnið að skipulagningu þessa framtíðarskólasvæðis. Á þessu svæði hefur þegar verið byggt skólahús, sem raunar er stærra að rúmmáli, en gamla skólahúsið eða 5.000 m3, en gamla skólahúsið er 4.450 m3. Þetta hús er sérstaklega gert fyrir kennslu í sérgreinum, þ.e. náttúrufræðigreinum, efnafræði, eðlisfræði og fyrir kennslu í tungumálum. Er við það miðað, að í þessu skólahúsi verði hægt að beita nýjustu tækjum og nýjustu aðferðum í þessum kennslugreinum. Kennslustofurnar eru yfirleitt stórar, sumar helmingi stærri, en í gamla skólahúsinu, þar eð kennsla í þessum greinum fer að mestu fram sem verklegar æfingar við sérstaklega gerð vinnuborð. Í nánum tengslum við kennslustofurnar eru svo að sjálfsögðu geymslur fyrir kennslutæki og áhöld og jafnframt vinnuherbergi kennara. Stofur með upphækkuðum sætum eru tvær, önnur fyrir rúmlega 50 nemendur, en hin fyrir 27 nemendur. Í stofum þeim, sem ætlaðar eru fyrir tungumálakennslu, er gert ráð fyrir að koma fyrir tækjum til málakennslu og þar verður einnig bókasafn og lesstofa. Á neðri hæð hússins eru þrjár stórar kennslustofur, kennarastofa og mörg lítil geymslu- og vinnuherbergi. Á efri hæð eru 4 eiginlegar kennslustofur og stærri fyrirlestrasalurinn, sem rúmar 50–60 nemendur, þar sem m.a. geta farið fram sýningar bæði á kvikmyndum og skuggamyndum við mjög góðar aðstæður. Þá er einnig lítið kennaraherbergi og geymslur. Í kjallara er fyrirhuguð kaffistofa fyrir nemendur, fatageymsla, ýmsar geymslur og vinnustofur og aðstaða fyrir nemendur til ýmiss konar félagsstarfsemi. Síðar er fyrirhugað að byggja á skólasvæðinu stórt leikfimihús og samkomusal.

Um byggingu nýja menntaskólans í Hamrahlíð er það að segja, að unnið er að því að fullgera teikningar af honum. Er gert ráð fyrir því, að skipulag hans verði með nýtízkulegum hætti, þannig að að verulegu leyti verði við það miðað, að stofurnar verði sérkennslustofur og nemendur flytji sig þannig milli kennslustofa eftir því, hvaða kennslu þeir sækja í hverjum tíma, en ekki að kennarar flytji sig milli kennslustofanna eða til nemendanna, eins og nú er aðalreglan. Er að því unnið, að hægt verði að ljúka fyrsta áfanga þessarar byggingar fyrir næsta haust, en í þessum fyrsta áfanga eru 6 kennslustofur og stærð hans um 2.300 m3. Eru fjárveitingar fyrir hendi til þess að ljúka þessum áfanga, þannig að kennsla ætti að geta hafizt í hinum nýja menntaskóla í Reykjavík á næsta hausti, ef tekst að ljúka byggingarframkvæmdunum nógu tímanlega.

Um Menntaskólann á Akureyri er það að segja, að þótt byggt hafi verið fyrir skömmu heimavistarhús við hann, þá þarf að horfast í augu við það, að sjálft skólahúsið er gamalt timburhús, sem krefst endurnýnunar innan tíðar. Það, sem Menntaskólann á Akureyri vanhagar þó mest um, er aðstaða til sérkennslu í raunvísindagreinum. Er nú í undirbúningi athugun á því, með hverjum hætti haganlegast sé að bæta hér úr. Verið getur, að skynsamlegast sé að byggja sérstakt hús fyrir kennslu í þessum sérgreinum og þyrfti þá að hefja fjárveitingar til þess í næstu fjárlögum. Þá munu og liggja fyrir niðurstöður þeirrar athugunar, sem nú er að hefjast á þessu máli.

Um Menntaskólann á Laugarvatni er það að segja, að þegar hefur verið ákveðið að stækka hann í áföngum á 5 árum, þannig að nemendatala tvöfaldist. Nú eru að Laugarvatni um 100 menntaskólanemendur, en gert er ráð fyrir, að þeir geti orðið 200 að 5 árum liðnum. Hefur verið ákveðið að byggja eitt heimavistarhús á ári næstu 5 ár, hið fyrsta á sumri komanda, hvert um sig fyrir um 20 nemendur. Máladeild og stærðfræðideild Menntaskólans á Laugarvatni hafa undanfarin ár ekki verið nema hálfsetnar hvor deildin vegna skorts á heimavistarhúsnæði. Úr þessu verður nú smám saman bætt, þannig að allir bekkir verða fullsetnir og kennslukraftar nýttir að fullu.

Um hina nýju heimavistarskóla á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem ráðgerðir eru í þessu frv., er það að segja, að gert er ráð fyrir að byggja þá í áföngum. Taka verður fullt tillit til þess, að ekki er vandalaust að koma á fót menntaskóla. Veldur því fyrst og fremst kennaraskortur, en nauðsynlegt er, að við menntaskóla starfi vel menntaðir kennarar. Vandalítið er að koma á fót kennslu í fyrsta bekk menntaskólanna, en vandinn byrjar við deildaskiptinguna. Hversu mikinn hraða verður hægt að hafa á við stofnun þessara tveggja heimavistarmenntaskóla, verður að fara eftir aðstæðum og aðsókn að skólunum. Á þessari stundu er það aðalatriðið að marka stefnuna. Síðan fer það eftir þörfinni fyrir skólana, skilyrðum til þess að útvega kennara og fjárveitingum, hversu hröð uppbygging hinna tveggja nýju skóla getur orðið.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.