13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

177. mál, menntaskólar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að lýsa ánægju minni yfir því frv. hæstv. ríkisstj. um breyt. á l. um menntaskóla, sem hér er til umr.,og stuðningi við það. Eins og kunnugt er, hef ég á þrem undanförnum þingum borið fram ásamt hv. 4. þm. Sunnl. frv. til breytinga á þessum sömu lögum og áður, en ég átti sæti á þingi, mun hv. 5. þm. Reykv. hafa flutt frv. um fjárveitingar til byggingar annars menntaskóla í Reykjavík. En þessi frv. hafa ekki náð fram að ganga og síðasta frv. af þessum mun nú vera í öruggri geymslu hjá hv. menntmn. Efni þess frv. er í stuttu máli það, að menntaskólar skuli vera fjórir, tveir í Reykjavík, einn á Akureyri og einn á Laugarvatni, en auk þess skuli stofna einn menntaskóla á Austurlandi og einn á Vestfjörðum, þegar fé er veitt til þeirra á fjárlögum.

Þegar efni þessa frv. er borið saman við það, sem hér liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj., sést auðvitað strax, að þar er í grundvallaratriðum enginn munur. Í frv. hæstv. ríkisstj. segir að vísu í upphafi, að menntaskólar skuli vera 6, en strax í næstu setningu er því bætt við, að menntaskólarnir á Vestfjörðum og Austurlandi skuli byggðir, þegar fé er veitt til þeirra á fjárl. og er þá ljóst, að sama tilhögun er ráðgerð og við hv. 4. þm. Sunnl. höfðum lagt til í okkar frv. Þess vegna segir það sig sjálft, að ég hef fyrir mitt leyti fyllstu ástæðu til þess að fagna flutningi þessa frv og geri það, eins og ég áðan sagði.

Til viðbótar eru í frv. hæstv. ríkisstj. nokkru fyllri ákvæði um önnur atriði, sem eflaust eru til bóta og ég efa ekki, að um þau hefði getað náðst samkomulag við okkur flm. frv. á þskj. 63, ef eftir því hefði verið leitað og samstarfsvilji við okkur hefði verið fyrir hendi, t.d. í hv. menntmn. Þar er t.d. gert ráð fyrir því, að heimilt sé að stofna fleiri menntaskóla í Reykjavík eða nágrenni, þegar fé verður til þess veitt á fjárl. Sú viðbót er vissulega góðra gjalda verð, enda hefur mér a.m.k. aldrei til hugar komið, að bygging eins skóla til viðbótar hér á þessu svæði væri nokkur framtíðarlausn, heldur vildi ég með flutningi frv. undirstrika hitt, að brýnasta þörfin í menntaskólamálunum væri bygging eins menntaskóla í Reykjavík og að sú framkvæmd mætti ekki undir neinum kringumstæðum dragast.

Þótt hér sé sú breyting gerð, sem ég áðan gat, dettur mér ekki heldur í hug og vafalaust engum, að með þessu frv. hæstv. ríkisstj. séu menntaskólamálin leyst um alla framtíð. Slíkt getur aldrei átt við um neina lagasetningu og allra sízt þá, sem fjallar um menntunar– og menningarmál ungrar og vaxandi þjóðar.

Eins og ég hef áður bent á hér á þessum stað í sambandi við menntaskólamálin, þá eru nemendur menntaskólans í Reykjavík nú um 930 og gamla skólahúsið, sem tekið var í notkun árið 1846, er fyrir löngu orðið of lítið fyrir allan þann fjölda. Þær viðbyggingar, sem reistar hafa verið í grennd við gamla húsið, auka ekki möguleika skólans að neinu marki til þess að taka við fleiri nemendum. Eins og hæstv. menntmrh. áður sagði, er þar fyrst og fremst um að ræða húsnæði, sem gerir kleift að halda uppi viðunandi kennslu í ýmsum sérgreinum, svo sem náttúrufræðigreinum, efnafræði, eðlisfræði og því um líku, en aðstaða til þeirrar kennslu hefur fram að þessu verið mjög óhæg og ekki svarað kröfum tímans. Þrátt fyrir viðbyggingarnar getur því skólinn ekki fjölgað nemendum að nokkru marki. Auk þess hafa skólamenn bent á þá staðreynd, sem nokkuð er rakin í grg. okkar á þskj. 63, að Menntaskólinn í Reykjavík sé nú þegar orðinn a.m.k. nægilega stór og því beinlínis rangt að stefna að frekari fjölgun nemenda í honum. Þeir telja margir, þ.e. skólamennirnir, sem látið hafa í ljós álít sitt um þetta, að heppilegasti nemendafjöldi í slíkum skóla sé 500–600; en ýmsir nefna þó miklu lægri tölu fjölda nemenda, allt niður í 300–350. Allir munu hins vegar, að ég held, vera sammála um, að 900 sé allt of hátt, jafnvel þótt allar aðstæður væru svo sem bezt verður á kosið. Þessi skoðun um nemendafjöldann kemur m.a. mjög glöggt fram af viðtali, sem dagblaðið Vísir birti í gær við skólastjóra allra menntaskólanna af tilefni þess frv., sem hér liggur fyrir til umr.

Augljóst er því af þessu, að gamli skólinn getur ekki tekið fleiri nemendur og ekki heldur er æskilegt, að hann geri það, jafnvel þótt ástæður væru fyrir hendi. Á hinn bóginn fjölgar alltaf þeim ungmennum, sem getu hafa og ástæður til að sækja um inngöngu í menntaskólana og er þannig sýnt, að bygging nýs menntaskóla, er hér knýjandi nauðsyn og raunar orðið of seint að hefja þær framkvæmdir, þar sem full ástæða væri til að létta á þeim skóla, sem fyrir er og fjölgunarmöguleikar eru nú engir.

Menntaskólinn á Laugarvatni hefur starfað árum saman skv. heimildarákvæði í gildandi lögum og eru því ákvæði frv. um hann aðeins formbreyting til samræmis við ríkjandi ástand, svo sem einnig var í frv. okkar hv. 4. þm. Sunnl.

Ég hef áður í sambandi við mál þetta lýst viðhorfi mínu til menntaskólabygginga á Austurlandi og Vestfjörðum og skal því fara fljótt yfir sögu um það nú. Að undanförnu hafa hv. Alþingi oft borizt tilmæli frá fólki í þessum byggðarlögum, sem lýsa miklum áhuga og eindregnum vilja fyrir því, að þar megi sem fyrst rísa slíkar menntastofnanir til þess að jafna aðstöðu unglinganna til framhaldsnáms án tillits til þess, hvar á landinu þeir eru búsettir. Þingmenn þessara kjördæma hafa einnig borið fram lagafrv. í samræmi við þessar óskir. Og ég vil segja, að mér finnst það sanngirniskrafa, að íbúar Vestfjarða og Austfjarða verði að þessu leyti settir við sama borð og aðrir landsmenn. Svo hljóta að mínum dómi allir þeir að hugsa, sem í einlægni óska þess, að byggð megi haldast í öllum landshlutum og jafnast, eftir því sem frekast er kostur, en aðstaðan til mennta hlýtur ávallt að verða eitt grundvallaratriði þessa máls.

Ýmsir hafa talið mikil vandkvæði á, að því yrði við komið að starfrækja góða menntaskóla í þessum fámennari landshlutum, einkum vegna þess, að þar verði ekki nægur kostur hæfra kennara. Vel má vera, að við talsverða örðugleika verði að glíma í þessu efni fyrst í stað, en ég trúi því ekki, að þeir séu óyfirstíganlegir, ef raunverulegur vilji er fyrir hendi til að greiða úr þeim. Á það hefur líka verið bent, að þessar sömu röksemdir voru uppi hafðar, þegar fjallað var um stofnun menntaskólanna á Laugarvatni og Akureyri, en vel hefur rætzt úr erfiðleikunum þar og svo hygg ég, að enn muni fara, þegar til kemur.

Um þörf okkar Íslendinga fyrir bætta aðstöðu til framhaldsmenntunar er óþarfi að fjölyrða, hún er öllum svo ljós og almennt viðurkennd. Þær breytingar, sem eru að verða á þjóðfélagsháttum víðast hvar og þá ekki hvað sízt hér á landi, auka þörf okkar á sérmenntuðu fólki í margvíslegum greinum. Við lifum á tíma sérhæfingar og það, sem einu sinni þótti gott og gjaldgengt, eins og það að vera læknir, lögfræðingur, prestur og auk þess „smiður, kóngur, kennarinn, kerra, plógur, hestur,“ — -það svarar ekki lengur til þeirra hugmynda, sem Íslendingar í dag hafa um nútímaþjóðfélag. Batnandi þjóðarhagur byggist í vaxandi mæli á því, að vísindi og tækni verði tekin í þjónustu atvinnuveganna miklu frekar, en orðið er. Á því byggist einnig fyrst og fremst hlutgengni okkar meðal þjóða. Þess vegna er það nauðsyn að greiða fyrir því, að sem allra flestir eigi þess kost að afla sér þeirrar menntunar, sem er forsenda þess að geta orðið virkur þátttakandi þessarar framtíðaruppbyggingar. Menntaskólarnir eru þar nauðsynlegur hlekkur, en jafnframt þarf auðvitað að efla aðrar greinar skólamálanna og þá vitanlega ekki hvað sízt háskólans, sem þarf að geta leitt til farsælla lykta þá fræðslu, sem menntaskólanámið er undirbúningur að.

Þegar frv. okkar hv. 4. þm. Sunnl. var hér síðast til umr., fannst mér mega skilja það á máli hæstv. menntmrh., að flutningur þess væri óþarfur, a.m.k. að því er við kæmi nýjum menntaskóla í Reykjavík, þar sem hæstv. ríkisstj. hefði þegar ákveðið að byrja byggingu nýs skólahúss og var nefndur til staðurinn, þ.e. Hamrahlíð í Reykjavík, þar sem slík bygging hafði áður verið ráðgerð. Ég gat ekki skilið það þá, hvernig slíkt mætti verða, að hæstv. ríkisstj. gæti ákveðið fjölgun menntaskólanna án lagaheimildar eða hafið byggingu skólahússins án fjárveitingar. Að vísu skal ég viðurkenna, að ég vantreysti ekki þá fremur en nú, hæstv. menntmrh. til góðra hluta á sviði menningarmálanna, því að ég veit, að hann hefur skilning á mikilvægi þeirra, enda sjálfur hámenntaður skólamaður. En einmitt vegna þess fannst mér afstaða hans ákaflega undarleg og taldi það ekki bera vott um heppileg vinnubrögð fyrir framgang málsins að neita að afla lagaheimildar eða neita stuðningi við að afla lagaheimildar í því skyni að bæta úr brýnustu þörfinni í þessum efnum, þegar fram var komið á Alþingi frv. í þá átt. Og ég mun af þessu tilefni hafa látið einhver orð falla í þá átt, að ég teldi, að Alþingi ætti ekki að afsala sér því frumkvæði, sem það jafnan hefur haft um skipan skólamála hér á landi. Ég taldi þá og tel enn, að allar meiri háttar breyt. í skólamálunum eigi að fara þannig fram og hljóti fara þannig fram, að Alþingi veiti lagaheimild og ákveði fjárveitingar, en hlutverk hæstv. ríkisstj. sé að gera það, sem Alþingi hefur fyrir mælt, en að ekki sé farið að á hinn veginn, að hæstv. ríkisstj. ákveði sjálf framkvæmdir án afskipta Alþingis. Og ég var satt að segja dálítið ósáttur við hæstv. menntmrh. og stjórnarsinna hér á hv. Alþingi út af þessu. Þeim meiri er ánægja mín nú yfir því að verða þess var, að þessi mun ekki hafa verið tilgangurinn. Það hefur líklega alltaf verið ætlunin að afla lagaheimildar, en hefur bara af einhverjum ástæðum ekki verið talið henta að samþ. fram komið frv. um þetta efni fyrr en nú, að það er borið fram af hæstv, ríkisstj., annaðhvort þetta eða hæstv. ríkisstj. hefur séð að sér og hætt við að ganga fram hjá Alþingi. Hvort veldur, skiptir vitanlega engu máli. Aðalatriðið er hitt, að nú standa vonir til þess, að úrbætur fáist í þessu mjög svo aðkallandi máli og að svo megi skipast, að allir eigi menntaskólanáms kost, sem uppfylla hæfileg skilyrði. Við þurfum á öllu því fólki að halda, sem hefur hæfileika til framhaldsnáms og aðstæður til þess að öðru leyti. Þess vegna fagna ég þessu frv. og óska þess, að það megi fá skjóta og jákvæða afgreiðslu hér á hv. Alþingi.