13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

177. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ.. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil láta í ljós þakklæti til þeirra ræðumanna, sem talað hafa, fyrir mjög jákvæðar undirtektir undir þetta frv. og mér er ljúft að veita skýringu á fsp. hv. síðasta ræðumanns um það atriði, hvers vegna svo er kveðið á í frv., að nýjan menntaskóla í Reykjavík skuli stofna, en heimavistarskólana á Vestfjörðum og Austurlandi, þegar fé er veitt til þess á fjárl. Það er alveg ástæðulaust að láta þennan orðalagsmismun verða efni nokkurrar tortryggni eða nokkurrar óánægju. Skýringin er einfaldlega sú, að þegar hefur verið veitt fé á fjárl. til menntaskólans í Reykjavík og þess vegna þótti fært að taka þannig til orða, að menntaskóla skuli stofna í Reykjavík, enda má segja, að bygging hans sé raunverulega hafin með framkvæmdaundirbúningi. Hins vegar hefur enn ekkert fé verið veitt á fjárl. til menntaskóla á Vestfjörðum og Austurlandi og eingöngu af þeim sökum þótti, — ég vil jafnvel segja lögfræðilega, — ekki fært að kveða svo á um það, að þá menntaskóla skuli stofna, þ.e.a.s. áður en nokkurt fé er veitt á fjárl. En ríkisstj. hefur gert ráð fyrir því að hafa í sínum fjárlagatill. fyrir næsta ár tillögur um fjárveitingar til stofnunar þessara heimavistarskóla.