13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

177. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, eingöngu til að taka það fram, að það er síður en svo, að ég hefði nokkra tilhneigingu til undanbragða í svari mínu og enn síður til þess að segja ekki satt og rétt um jafneinfalda hluti og hér er um að ræða. Í raun og veru greinir okkur hv. 5. þm. Vestf. ekkert á um efni málsins, þ.e.a.s. til hvaða framkvæmda fé hefur verið veitt. Ástæða þess, að fjárveiting til menntaskóla í Reykjavík er orðuð í fjárl. eins og hún er orðuð, þ.e.a.s. til Menntaskólans í Reykjavík, er eingöngu sú, að skv. lögum er starfandi aðeins einn menntaskóli í Reykjavík og þess vegna er ekki hægt að orða fjárveitingu til menntaskólaframkvæmda í Reykjavík öðruvísi, en þannig. En það hefur öllum hv. alþm., fjvn. og öllum hv. alþm., verið ljóst, enda marggerð grein fyrir því í fjvn. og í fjárlagaumr. hér, að hluta þeirrar fjárveitingar, sem um er að ræða, ætti að nota til þess að hefja byggingarframkvæmdir við nýjan menntaskóla í Reykjavík. Um nokkurt skeið var það nokkur spurning, hvort þessi nýi menntaskóli ætti fyrst um sinn að vera hluti af gamla menntaskólanum, þ.e. lúta stjórn gamla menntaskólans og það mun um þetta, sem nokkur orð hafa fallið milli okkar hv. 11. þm. Reykv. (EÁ) á sínum tíma, þ.e. hvort láta ætti nýjan menntaskóla, sem aðeins starfaði í 5–6 kennslustofum, fá sérstakan skólastjóra, sérstakan rektor og sérstaka skólastjórn, eða hvort hann ætti áfram að vera undir stjórn gamla menntaskólans. Um þetta þurfti að taka sjálfstæða ákvörðun og það er þegar nokkuð síðan ég tók þá ákvörðun, að þegar nýr menntaskóli tæki til starfa í Hamrahlíð, skyldi hann fá sérstaka skólastjórn, þá skyldi honum verða skipaður sérstakur rektor. En til þess að það væri unnt, var auðvitað nauðsynlegt að lögheimila stofnun annars menntaskóla í Reykjavík. Það var vel framkvæmanlegt að hefja byggingu nýs menntaskóla í Reykjavík með fjárveitingu, eins og gert hefur verið, vegna þess að sá skóli á að annast menntaskólafræðslu lögum samkvæmt. Hins vegar mundi ekki hafa verið hægt að fá nýjum menntaskóla í Reykjavík sjálfstæða stjórn, þ.e.a.s. gera hann að sjálfstæðri stofnun, nema með lagasetningu, en það er einmitt slík heimild, sem gert er ráð fyrir að æskja með því frv., sem hér hefur verið lagt fram.

Ég vona, að hv. 5. þm. Vestf. taki nú, að gefnum þessum viðbótarskýringum, fyrri skýringu mína á orðalagi frv. gilda og ég get ekki annað en endurtekið, að ég vona, að þeir menn, sem eru sérstakir áhugamenn um stofnun menntaskóla á Vestfjörðum og á Austurlandi, misskilji á engan hátt það orðalag, sem haft er á frv. varðandi þetta, vegna þess að ástæðan er eingöngu formleg. að það þótti ekki fært að kveða á um skyldu til stofnunar menntaskóla á þessum stöðum, meðan ekkert fé hefði enn verið veitt til þess í fjárl. En það get ég endurtekið, að í till. ríkisstj. til næstu fjárl. munu verða till. um fjárveitingar til heimavistarskóla á Vestfjörðum og á Austurlandi.