29.04.1965
Efri deild: 76. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

177. mál, menntaskólar

Björn Jónsson:

Herra forseti. Sjálfsagt fagna því flestir, að með þessu frumvarpi eru gefnar ákveðnar vonir um stórt átak á næstu árum í málefnum menntaskólanna með þeim fyrirheitum, sem frv. felur í sér um stofnun a.m.k. þriggja nýrra skóla og þá væntanlega mjög fullkominna menntaskóla. Og ég er sízt kominn hér upp í ræðustól til þess að lasta þessar fyrirætlanir eða gera lítið úr þeim vonum, sem við þetta frv. er hægt að binda, því að margar af þessum framkvæmdum, sem hér er ráð fyrir gert, eru vafalaus og brýn nauðsyn og hv. Alþingi virðist almennt vera sammála um nauðsynina.

En þetta fyrirhugaða stórátak, sem hér á að gera á næstu árum, hlýtur líka að leiða hugann að því, hvernig búið er að þeim menntaskólum, sem nú eru starfandi og hverra aðgerða er þörf til eflingar þeim og til þess að þeir geti þróazt eðlilega á næstu tímum. En ég hygg, að flestum, sem eitthvað þar til þekkja, hljóti að vera það ljóst, að verulegra breytinga og endurbóta er þörf hjá þeim þremur skólum, sem nú eru starfandi. Á sumar þessara nauðsynlegu endurbóta varðandi menntaskólana, sem nú eru starfandi í landinu, er minnzt í grg. með þessu frv., þ. á m. um það, að ákveðið sé að stækka menntaskólann að Laugarvatni í áföngum, sem eiga þó ekki að vera hraðari en það, að það á að taka 5 ár að efla þann skóla, svo að hann geti tekið 100 nemendur til viðbótar. Og það er líka kunnugt um þann skóla, að þar er aðbúnaður nemenda vægast sagt fyrir neðan allar hellur til náms. Má m.a. geta þess, að þar þurfa almennt 4 nemendur að búa í hverju herbergi eða helmingi fleiri, en ætlazt er til og heimavistin er byggð fyrir og þekkja allir, sem í skóla hafa verið, að slíkt eru engin fullnægjandi námsskilyrði, þótt ekki væri annað.

Þá er aðeins með einni setningu minnzt á Menntaskólann á Akureyri og segir þar í grg., að þótt byggt hafi verið fyrir skömmu heimavistarhús við Menntaskólann á Akureyri, þá þarf að horfast í augu við, að sjálft skólahúsið er gamalt timburhús, sem krefst endurnýjunar innan tíðar. Að heimavistarhús hafi verið byggt fyrir skömmu við Menntaskólann á Akureyri, er nokkuð mikill misskilningur. Ég tel það a.m.k. ekki skamman tíma, að ekkert hefur verið gert fyrir Menntaskólann á Akureyri hvað húsakynni snertir síðan á dögum nýsköpunarstjórnarinnar. Þá var sú heimavist byggð. Það tók að vísu nokkuð mörg ár að koma henni upp, en það hefur ekkert átak verið gert í sambandi við húsnæðismál Mentaskólans á Akureyri frá því á tímum nýsköpunarstjórnarinnar, og finnst sjálfsagt mörgum það vera harla langur tími, þar sem um er að ræða eina elztu og virðulegustu menntastofnun þjóðarinnar.

Það er vissulega rétt, eins og segir í grg., að það verður að horfast í augu við þá staðreynd, að ekki verður komizt fram hjá því til nokkurrar lengdar, úr því sem komið er, að gera eitthvert verulegt átak í sambandi við endurbætur á Menntaskólanum á Akureyri. Og það er ekki aðeins um það að ræða, að allt skólahúsið, þar sem kennslan fer fram, er orðið mjög gamalt og úr sér gengið og að mörgu leyti niðurnítt, heldur er þannig ástatt, að það nægir alls ekki til þess að svara þeim nauðsynlegu kröfum, sem nú þarf að gera, til þess að kennsla geti farið fram með eðlilegum hætti. Er þar þá alveg sérstaklega um að ræða þau vandkvæði, sem eru í sambandi við kennslu í raunvísindalegum námsgreinum, náttúrufræði, eðlisfræði og slíku, en það má segja, að hvorki er til þess húsnæði né önnur aðstaða, eins og nú er. Þetta ástand hefur að vísu lengi verið óþolandi og ég vil segja alveg frá því fyrsta, að stærðfræðideild var stofnuð við Menntaskólann á Akureyri, en þó munu forráðamenn Menntaskólans á Akureyri að sjálfsögðu þola það ástand, sem er í þessum efnum, enn þá verr, eftir að byggt hefur verið nýtt hús yfir þessa starfsemi menntaskólans hér í Reykjavík og á sama tíma og fyrirhugað er að byggja marga fullkomna menntaskóla á næstu árum.

En ég veit, að hæstv. menntmrh. er kunnugt um það, enda munu forráðamenn Menntaskólans á Akureyri ekki fyrir alllöngu hafa snúið sér sérstaklega til ráðuneytis hans með óskir og kröfur um skjótar úrbætur í þessum efnum, en till. þeirra er sem sagt sú, að fyrsti áfanginn, sem gerður verði til eflingar Menntaskólans á Akureyri verði, að það verði byggt fullkomið hús yfir hinar raunvísindalegu námsgreinar og þá verði einnig haft í huga, að samkomusalur skólans er orðinn allt of lítill og ófullnægjandi. En varðandi þessa framkvæmd háttar þannig, að sú stóra lóð, sem Menntaskólinn á Akureyri hefur, er óskipulögð og er þess vegna ekki fært að byggja á henni einstakt hús, nema að því sé hugað, hvernig byggingum verður í framtíðinni komið fyrir á skólalóðinni og það gefur því auga leið, að undirbúningur að þessu eina húsi er miklu meiri, af þessum ástæðum, heldur en ella væri. Þess vegna mun það vera tillaga forráðamanna Menntaskólans á Akureyri og krafa, að nú þegar á þessu vori eða sumri verði séð fyrir nægu fé til þessarar undirbúningsvinnu, þannig að teikningar af skólalóðinni og af þessu fyrirhugaða og alveg bráðnauðsynlega húsi geti legið fyrir strax á næsta vori, þannig að framkvæmdir geti hafizt þá.

Í þessu sambandi vil ég greina frá því, að það mun vera álit allra kunnugra manna á Akureyri, að viðgerðir á gamla húsinu eða breytingar á því til þess að hola þar niður kennslu í raunvísindalegu fögunum kemur ekki til greina og mundi þegar til lengdar léti verða dýrasta leiðin til þess að bæta þarna úr og það er álit þeirra, að nýtt hús til þessarar starfsemi sé eina viðunanlega lausnin, sem um er að ræða.

Mér þykir nú hlýða í sambandi við þetta mál og með sérstöku tillíti til þess, að bæði Menntaskólinn í Reykjavík hefur fengið mikla fyrirgreiðslu til þess að koma þeim málum, sem ég hef rætt hér um í sambandi við Menntaskólann á Akureyri, í viðunanlegt horf og jafnframt er fyrirhugað að byggja marga — ekki bara einn, heldur marga nýja, fullkomna menntaskóla. Þá þykir mér hlýða að spyrja hæstv. menntmrh. um það, hvort hann telji ekki, að þá sé einnig kominn tími til þess að gefa ákveðin fyrirheit um það, að allra nauðsynlegustu breytingar og endurbætur á Menntaskólanum á Akureyri verði framkvæmdar svo fljótt sem verða má og þá á ég við, að málið verði undirbúið á allan hátt tæknilega og fjárhagslega á þessu ári, þannig að framkvæmdirnar gætu hafizt á árinu 1965 og helzt verið lokið á sem skemmstum tíma.