29.04.1965
Efri deild: 76. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

177. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég get vel skilið umhyggju hv. 4. þm. Norðurl. e. (BJ) fyrir Menntaskólanum á Akureyri, sem er sannarlega ein bezta menntastofnun á Íslandi og á allt hið bezta skilið af hálfu ríkisvaldsins. Mér var það og algerlega ljóst, að engin skynsemi og engin sanngirni væri í því að ráðgera byggingu nýrra menntaskóla í tveimur landsfjórðungum á Vestfjörðum og á Austurlandi, án þess að áður eða a.m.k. alveg samhliða væri athugað, hvað þyrfti að gera fyrir þá menntaskóla, sem þegar eru fyrir í landinu.

Hann gat þess, hv. þm., að miklar framkvæmdir hafa undanfarið staðið yfir og er nú lokið að vissum áfanga til við Menntaskólann í Reykjavík, þannig að aðstaða hans hefur verið stórbætt frá því, sem áður hefur verið, og nú má fullyrða með góðri samvizku, að þar hefur verið komið á hinni fullkomnustu aðstöðu til kennslu í raunvísindagreinum, þar eð sú nýbygging, sem fyrst og fremst er helguð kennslu í þeim greinum, er að rúmmáli stærri, en gamli skólinn og aðbúnaður þar allur hinn fullkomnasti. Jafnframt hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að stækka Menntaskólann að Laugarvatni, að vísu í áföngum, þannig að nemendatala hans geti komizt upp í 200 á næstu 5 árum.

En mér var algerlega ljóst, að einnig þyrfti að sinna þörfum og óskum Menntaskólans á Akureyri, um leið og þessi framtíðarstefna væri mörkuð og þess vegna er það, að þegar hafa átt sér stað viðræður milli okkar rektors Menntaskólans á Akureyrí um, hverjar þarfir þess skóla væru nú brýnastar og hann lét þá mjög ákveðnu ósk í ljós f. h. Menntaskólans á

Akureyri, að reist yrði nýtt hús fyrir skólann til þess að bæta aðstöðu til kennslu í raunvísindagreinum, þ.e.a.s. að fylgt yrði líkri stefnu þar og fylgt hefur verið við Menntaskólann í Reykjavík. Ég hef fyrir mitt leyti algerlega fallizt á þetta og falið Menntaskólanum á Akureyri að undirbúa nú í sumar tillögugerð um slíkar framkvæmdir, bæði að því er teikningar snertir og kostnaðaráætlanir að sjálfsögðu og hef ég síðan gert ráð fyrir því að gera till. um það í næstu fjárl., að byrjað væri að veita fé til slíkrar framkvæmdar við Menntaskólann á Akureyri. Þetta tel ég vera sjálfsagðan hlut, að sé eitt af nauðsynlegustu og fyrstu verkefnunum í menntaskólamálunum, sem þurfi að sinna.

Mér er sem sagt alveg óhætt að gefa þá hiklausu yfirlýsingu, að í sumar mun verða undirbúin bygging nýs húss við Menntaskólann á Akureyri, sem fyrst og fremst mun verða ætlað kennslu í raunvísindagreinum við þann skóla og að næsta Alþingi mun fá til meðferðar tillögur um nokkrar fjárveitingar til slíkrar byggingar, sem ég tel vera bráðnauðsynlega.