11.02.1965
Neðri deild: 41. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

8. mál, náttúrurannsóknir

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á nokkrum síðustu missirum hefur það orðið Íslendingum ljóst í mjög ríkum mæli, að við lifum nú á nýrri öld vísinda og tækni. Það hefur orðið þeim mönnum ljóst, sem mest hugsa um þetta, að íslenzka þjóðin verður að fylgjast með á þessu sviði, ef hún vill öðlast lífskjör, sem bera má saman við það, sem bezt er annars staðar og tryggja sér þá menntun og þá framleiðslu, sem þarf til þess, að framtíð þjóðarinnar sé í þeirri mynd, sem við helzt óskum. Það hefur orðið ljóst, að til þess að fylgjast með í vísindum og tækni, til þess að skapa á Íslandi sams konar þjóðfélag, sem er í bernsku annars staðar, verður að gera ný stórátök á tveimur höfuðsviðum, annars vegar á sviði skólamála og fræðslu, hins vegar á sviði vísindarannsókna. Mikið hefur verið um þetta rætt og virðist svo sem flestir séu sammála hér á landi um það, að vísindarannsóknir verði að efla stórlega á næstu árum og tengja þær atvinnuvegum þjóðarinnar eins og framast er unnt, til þess að hafa af þeim sem mest raunhæft gagn, jafnframt því sem þær efla alla dáð nú eins og áður.

Undirstaða þeirra vísindagreina, sem mestum stökkbreytingum hafa tekið og mestu valda um þessa nýju byltingu, eru náttúruvísindin. Það er nú nauðsynlegra, en nokkru sinni fyrr, fyrir hverja þjóð að þekkja land sitt eins vel og framast er unnt, að hafa gert þær rannsóknir, jarðfræðilegar og landfræðilegar, sem byggja má á örugga vitneskju um þróun landsins, um hagnýtt gildi þess og um þau efni, sem í því kunna að leynast. Á sama hátt er það nú nauðsynlegra, en nokkru sinni, að þekkja góð skil á dýrum, sem lifa í landinu, yfir því eða í sjónum í kringum það.

Á undanförnum áratugum hefur þjóðin átt marga mjög góða fræðimenn á þessu sviði og þeir hafa unnið miklar og verðmætar rannsóknir. Þeir hafa byggt upp meira af áhuga, en getu í fyrstu náttúrugripasafn, sem hefur haft mikla þýðingu hér á undanförnum árum. Nú hefur það gerzt á síðustu árum, að nefndir hafa starfað til þess að gera tillögur um skipulag vísinda- og rannsóknamála íslenzku þjóðarinnar. Komið hafa fram frv. um rannsóknarmál, sem legið hafa fyrir Alþingi nú s.l. 3 ár. Jafnframt hefur fylgt frv. það, sem hér kemur til 2. umr., um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands. Undanfarin tvö þing hefur þetta frv. verið látið kyrrt liggja vegna þess, að hitt frv., um almennar vísindarannsóknir, komst ekki fram, en í raun og veru er það ástæðulaust, þó að skyldleiki sé með frv. Þetta frv. er sjálfstætt mál og mikilsvert mál og því engin ástæða til þess að tefja framgang þess.

Ég vil raunar bæta því við, að hitt frv. er í alvarlegri athugun í n. og í þeirri n. virðist ríkja mjög sterkur hugur á því, að þetta þing liði ekki svo, að það mál verði ekki einnig athugað. í sambandi við bæði þessi mál er rétt, að hv. þm. geri sér það ljóst, að þetta eru frv., sem eru aðeins um skipulagsmál vísindarannsókna og náttúrufræða. Ef mönnum er alvara með að gera eitthvert átak á þessu sviði á næstu árum, boðar það ekki gott, ef Alþingi Íslendinga þarf að vera meira, en þrjú þing að velta fyrir sér skipulaginu og silkihúfunum, sem á þessu sviði eru. Þess vegna verðum við nú að taka rögg á okkur og afgreiða þessi mál bæði.

Ég þarf ekki að fara frekari orðum um efni þessa frv. um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands. Frv. er stutt og einfalt og talar sínu máli og mér er ekki kunnugt um, að nokkrar deilur hafi verið uppi um efni þess. Það er búið að fá allmikla meðferð, bæði hjá atvinnumálanefnd ríkisins, sem samdi það á sínum tíma og menntmrn. sendi það háskólanum, sem gerði nokkrar aths., en þó ekki veigamiklar, og var tekið tillit til þeirra, áður en frv. var lagt fram. Menntmn. mælir því einróma með því, að þetta frv. verði látið fram ganga og það verði upphaf að því, að betur verði búið að náttúrurannsóknum og þeirri nýju Náttúrufræðistofnun Íslands í framtiðinni, heldur en hingað til, að okkur megi takast að öðlast meiri og betri vitneskju um land okkar og lífið í því, en ég hef fyrir því orð kunnugra, að við höfum heldur dregizt aftur úr í þeim efnum á undanförnum árum og þurfum að taka okkur verulega á til þess að geta sagt, að vísindalegar rannsóknir á náttúru íslands séu á því stigi, sem þær þyrftu að vera.

Menntmn. mælir einróma með því, að frv. verði samþ. óbreytt.