25.02.1965
Efri deild: 46. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

8. mál, náttúrurannsóknir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. vildi ég segja þetta:

Ég er honum algerlega sammála um nauðsyn þess að taka sem fyrst upp kennslu í náttúrufræðum við Háskóla Íslands. Hins vegar tel ég það ekki tímabært að taka um það formlega lagaákvörðun í sambandi við þær skipulagsbreytingar, sem nú er rætt um að gera á skipan íslenzkra rannsóknarmála. Í því sambandi vil ég taka fram, að sú skoðun er í fullu samræmi við skoðun háskólans og Rannsóknaráðs ríkisins og forstöðumanna Náttúrugripasafns Íslands.

Þetta frv. er flutt samkv. ósk forstöðumanna Náttúrugripasafnsins og í samráði við háskólann og Rannsóknaráð ríkisins. Við teljum á þessu stigi eða nú í ár ekki æskilegt né nauðsynlegt að gera aðrar breytingar á gildandi l. en þær, sem felast í þessu frv. og er það algerlega óháð þeirri sameiginlegu skoðun þessara aðila, sem einnig er skoðun mín, að æskilegt sé hið fyrsta að taka upp kennslu í náttúruvísindum og náttúrufræðum við Háskóla Íslands. Ástæða þess, að við teljum ekki æskilegt né nauðsynlegt að kveða á um slíka kennslu í sambandi við þá endurskipulagningu Náttúrugripasafnsins, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er sú, að varðandi háskólann eru á döfinni aðrar fyrirætlanir um eflingu og aukningu hans, sem taldar eru meira aðkallandi, en að hefja þar kennslu í náttúrufræðum. Fyrst og fremst er þar þess að geta, að verið er að koma á fót eðlisfræðistofnun við háskólann og það er ósk háskólans sjálfs, að allt kapp sé á það lagt, að eðlisfræðistofnunin taki sem allra fyrst til fullra starfa og fyrir því er fullur vilji af hálfu ríkisstj. að stuðla að því, að svo geti orðið. Þetta er sú rannsóknarstofnun á vegum háskólans, sem allir eru sammála um, að æskilegast sé, að sem fyrst geti tekið til starfa.

Að því er snertir kennsluverkefni háskólans, er um að ræða tvö verkefni, sem háskólinn sjálfur og ríkisstj. telur eðlilegt að leggja megináherzlu á. Annað er að taka innan háskólans upp háskólamenntun fyrir framhaldsskólakennara innan heimspekideildar. Um það hafa þegar verið gerðar mjög ýtarlegar áætlanir af hálfu heimspekideildar og háskólaráðs, og vona ég, að þær áætlanir geti komið til framkvæmda innan skamms og á þeim tel ég raunar vera brýna nauðsyn vegna framhaldsskólanna og íslenzkra skólamála yfir höfuð að tala. En ef þær áætlanir koma til framkvæmda, mun verða fyrir því séð, að íslenzkir framhaldsskólakennarar eigi kost á háskólamenntun hér á Íslandi innan veggja Háskóla Íslands. Þá hefur og af hálfu háskólans verið lögð á það mikil áherzla, að sem fyrst verði unnt að taka upp kennslu til síðari hluta í verkfræði, þ.e. í byggingarverkfræði og tel ég fyrir mitt leyti mjög æskilegt, að af því geti orðið sem fyrst, og að athugunum á því máli er einnig unnið.

Þetta er hvort tveggja verkefni, sem mér skilst, að allir, sem um hafi fjallað, séu sammála um, að eigi að hafa forgang fram yfir það að taka hér upp kennslu í almennum náttúrufræðum. En þegar þessum verkefnum hefur verið tryggður framgangur, tel ég fyrir mitt leyti tíma vera kominn til þess að hefja alvarlegan undirbúning að því að hér sé tekin upp háskólakennsla í náttúrufræðum, og þá mundi það að sjálfsögðu gerast á þann hátt, sem hv. þm. einmitt gat um í sinni ræðu, að tengja Náttúrufræðistofnun Íslands háskólanum sem sérstaka rannsóknardeild, sem þá jafnframt yrði kennsludeild. Það er enginn ágreiningur milli okkar hv. 3. þm. Norðurl. v. um það, að að því ber að stefna, að upp verði tekin við Háskóla Íslands kennsla í náttúrufræðum og ég vona, að milli okkar sé heldur enginn ágreiningur um það, að þótt önnur verkefni séu talin enn brýnni og þess vegna sé lagt kapp á það að hrinda þeim í framkvæmd á allra næstu árum, komi að því innan tiltölulega skamms tíma, að starfssvið háskólans verði einnig víkkað út og eflt að því leyti, að þar verði tekin upp kennsla í íslenzkum náttúrufræðum og þá einmitt á þann hátt, sem hann gat um í sinni ræðu, að sú Náttúrufræðistofnun Íslands, sem nú verður komið á fót, ef þetta frv. verður að l., yrði gerð að háskóladeild og þá jafnframt að kennsludeild.