05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

8. mál, náttúrurannsóknir

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Eins og fram kom við 2. umr. þessa máls, hefur menntmn. haft frv, til frekari athugunar milli 2. og 3. umr., en einstakir nm, áskildu sér, þegar málið var afgr. úr n. til 2. umr., rétt til að flytja, brtt, við 3. umr. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma.

Í nál. kom það fram, að menntmn. sendi frv. m.a. til umsagnar Háskóla Íslands og vegna þess að menn töldu sig þurfa að hafa aðstöðu til að kynna sér enn nánar ábendingar og till. háskólans, var málið afgr. úr n. til 2. umr. með þeim áskilnaði, sem ég áður nefndi, einstakra nm. til að flytja brtt. eða fylgja þeim, sem fram kynnu að koma.

Það er rétt, að það komi hér fram, að í umsögn háskólans kemur fram sú skoðun, að heppilegast væri að bíða með afgreiðslu þessa frv. og ég held, að það sé rétt, að ég lesi orðrétt það, sem segir í umsögn háskólans um það atriði, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ekki ráð fyrir neinu sambandi við háskólann og alls ekki vikið að þessu mikilvæga atriði í grg. þess. Með frv. eru veigamiklar undirstöðurannsóknir lagðar til stofnunar utan háskólans. Er það ekki í samræmi við umr. á raunvísindaráðstefnu, sem boðað var til 1961 að frumkvæði menntmrh., en sú ráðstefna taldi eðlilegt, að undirstöðurannsóknir yrðu sem mest faldar háskólanum og er það einnig sú vísindastefna, sem mörkuð hefur verið af hálfu háskólans. Ný samdar till. um náttúrufræðikennslu við háskólann til BA-prófa og til koma Raunvísindastofnunar háskólans hafa og ásamt öðru breytt aðstöðunni verulega frá ársbyrjun 1961, er háskólaráð fjallaði um drög til ofangreinds frv., og hefur sú þróun leitt til þess, að enn brýnni þörf er á því nú en þá, að heildarlög verði sett hér á landi um undirstöðurannsóknir almennt, svo sem segir í bréfi háskólarektors frá 12. jan. 1961, er fylgir grg. með frv. og mundu lög um náttúrurannsóknir verða einn þáttur þeirra, eins og þar segir. Af hendi háskólans mun næstu daga verða stofnað til samningar á lagafrv., sem varðar Raunvísindastofnun háskólans og raunvísindadeild og er eðlilegt, að þá fari fram allsherjar athugun á því, hvernig undirstöðu rannsóknum verði í heild sinni skipað á hagfelldastan hátt. Væri heppilegast, að beðið væri með afgreiðslu ofangreinds lagafrv., unz þessari athugun er lokið, enda verður það vitaskuld einn þáttur þeirrar athugunar að kanna, hvernig hyggilegt er að haga tengslum milli náttúrugripasafns og háskólans til frambúðar.“

Þó að ég skuli ekki hér gera tilraun til þess að vefengja einstök atriði, sem fram koma í umsögn háskólans um þetta atriði, vil ég láta það koma fram, að nefndin taldi ekki rétt að hefta framgang frv. Í fyrsta lagi með tilliti til þess, að frv. er í aðalatriðum staðfesting á þeirri skipan þessara mála, sem er í dag og eins og þau hafa þróazt á undanförnum árum, og í öðru lagi er það með hliðsjón af því, að þegar sú athugun og lagasetning fer fram, sem um ræðir í umsögn háskólans, hlýtur eðlilega að verða endurskoðuð löggjöfin um náttúrufræðistofnun og samræmd eða felld inn í slíka heildarlöggjöf, en nefndin taldi, að undirbúningur slíks máls og lagasetning hlyti óhjákvæmilega að taka alllangan tíma.

Háskólinn bendir þá á tiltekin atriði í frv., sem hann teldi æskilegt að breyta, ef af því yrði, að það yrði afgreitt sem lög nú á þessu þingi. Menntmn. hefur tekið upp og flytur hér eina af þeim brtt. og hún kemur fram á þskj. 615, þar sem lagt er til, að 4. gr. frv. falli niður. Þar sem í umsögn háskólans er rætt um 4. gr. og bent á, að hana mætti og væri reyndar æskilegt að fella niður, er til þess vitnað, að þeir, sem njóta opinbers styrks eða fyrirgreiðslu til almennra rannsókna á náttúru Íslands, þurfi að láta í té skýrslu um störf sín, þegar þeir senda inn umsókn um styrki og segir, að það virðist vera nægileg skýrslugerð í þessu sambandi og einnig megi hafa það í huga, að niðurstöður rannsóknanna komi yfirleitt fram í formi rita eða tímaritsgreina og bent um leið á, að Rannsóknaráð virðist hafa litið þannig á, því að samhljóða ákvæði, sem nú er í 6. gr. laga frá 1940, hafi aldrei, svo að vitað sé, verið framfylgt. Þá segja þeir háskólamenn, að vísindalegar rannsóknir séu störf, sem engum sé ljúft að vinna undir lagaskyldu um samvinnu við aðila, sem geti verið allfjarskyldir, þó að hins vegar vísindamenn stofni iðulega til samstarfs af frjálsum vilja, þegar það á við og fari mjög í vöxt slík samvinna, eftir því sem rannsóknarleiðum fjölgi.

Að þessu athuguðu varð það niðurstaðan í nefndinni að flytja brtt. í þá átt, að 4. gr. frv. félli niður.

Í umsögn háskólans er bent á fleiri breytingar, en menntmn. hefur ekki í heild tekið upp aðrar af þeim till. til flutnings hér á hv. Alþ. Hins vegar áskildu menn sér, eins og áður segir, rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja öðrum, sem fram kynnu að koma og ég sé, að hv. 10. þm. Reykv. (ÓB) hefur tekið upp brtt. þær, sem háskólinn hefur lagt til við 5. gr. frv. Nú get ég að sjálfsögðu ekki lýst yfir afstöðu minna meðnm. annarra til þeirra brtt., þar sem einstakir menn hafa áskilið sér rétt til að fylgja brtt., sem fram kynnu að koma, þótt að vísu megi e.t.v. gefa nokkra vísbendingu um þeirra afstöðu það, að þeir eru ekki meðflm. að þessum till., en hvað sjálfa mig snertir vil ég þegar segja það, að ég treysti mér vart til að greiða þeim brtt. atkv. Ef þær verða samþykktar, mundi það jafngilda mjög verulegri breytingu á efni frv., og ástæður get ég einnig tilgreint, hvað mig áhrærir, nokkuð þær sömu og fyrir því voru, að ég taldi ekki heldur rétt að hefta framgang málsins, sem sé að hér er verið að staðfesta það, sem á er komið í þessum efnum og þá eðlilegt, að það yrði tekið upp síðar til endurskoðunar.

Loks er þess að geta, að frv. hefur komið óbreytt frá hv. Nd. og breytt., svo veruleg sem þarna kynni að verða um að ræða, gæti e.t.v. orðið til þess, að tvísýnt yrði um afgreiðslu frumvarpsins á þessu þingi. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara orðum um þessa brtt., því að hv. flm, mun að sjálfsögðu gera það sjálfur.