06.05.1965
Neðri deild: 83. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

8. mál, náttúrurannsóknir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. var afgr. í þessari hv. d. með shlj. atkv. samkv. einróma meðmælum hv. menntmn. d. Hv. menntmn. Ed. mælti einnig einróma með frv. og gerði við það eina brtt. um að fella niður 4. gr. upphaflega frv., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skylt er öllum þeim, er njóta opinbers styrks eða fyrirgreiðslu til almennra rannsókna á náttúru Íslands, að hafa samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og láta henni árlega í té skýrslur um rannsóknirnar.“

Menntmn. Ed. lagði til, að þessi gr. yrði felld niður, þar eð ástæðulaust væri að skylda alla til þess að gefa skýrslur til Náttúrufræðistofnunarinnar um starfsemi sína. Þessi brtt. menntmn. Ed. var gerð í samráði við menntmn. Nd. og mig, þannig að segja má, að eins og frv. var afgr. við 2. umr. í hv. Ed., hafi verið alger samstaða um málið. En svo gerist það við umr. í hv. Ed. í gær, að einn hv. þm., 10. þm. Reykv., Ólafur Björnsson, flytur brtt. við 5. gr., sem fjallar um annað orðalag um verkefni stofnunarinnar. Menntmn. Ed. hafði ekki viljað fallast á þessa brtt. Þess vegna flutti þm. þær einn og svo fór, að þær voru samþ. í hv. Ed. En þessar brtt. eru mjög gagnrýndar — eða orðalag þeirra — af forstöðumönnum og starfsmönnum Náttúrugripasafnsins og þess vegna vil ég leyfa mér að flytja brtt. um það að breyta 5. gr., sem fjallar um hlutverk stofnunarinnar, í upphaflegt horf og yrði þá 5. gr. eins og menntmn. beggja d. höfðu samþ. samhljóða, að 5. gr. skyldi vera, en það er 4. gr. núna. Við hv. 10. þm. Reykv., Ólafur Björnsson, höfðum samráð um þetta í gærkvöld og tjáði hann mér, að ef Nd. héldi fast við sína skoðun á orðalagi upphaflegu 5. gr., núverandi 4. gr., um verkefni stofnunarinnar, þ.e. endurtæki einróma samþykkt sína á upphaflegu orðalagi þessarar gr., þá mundi hann ekki endurflytja brtt. sínar í Ed., þannig að þá ætti frv. víst shlj. samþykki Ed.

Það er alveg nauðsynlegt, að þetta frv. verði afgr. á þessu þingi, vegna þess að samkomulag er orðið um það í hv. Ed. að afgreiða frv. um rannsóknarmálin, en þessi frv. eru nátengd hvort öðru. Verði rannsóknarmálafrv. afgreitt, er skipulag málanna gallað, nema því aðeins að ákvæði þessa frv. fái lagagildi líka. Þess vegna vil ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta skriflega brtt. um þetta efni. Ég hef haft samráð um flutning till. við þá af menntmn.-mönnum Nd., sem ég hef náð til nú í byrjun fundar og hafa þeir allir lýst sig samþykka flutningi till., enda ekki um annað að ræða, en að breyta einni frvgr. í það horf, sem þessi hv. d. hafði áður samþ. shlj. (Gripið fram í.) Ég skal lesa upp báðar gr., eins og frv. er núna. Breyt., sem samþ. var í Ed., er þannig, að verkefni stofnunarinnar eru þessi:

„a) Að koma upp sem fullkomnustu vísindalegu safni íslenzkra og erlendra náttúrugripa, varðveita það og skipuleggja til afnota fyrir vísindamenn á þeim sviðum, sem safnið nær til. b) Að koma upp sýningarsafni, er sé opið fyrir skóla og almenning. Skal safn þetta miðað við það að vera liður í náttúrufræðikennslu skólanna og auk þess stefna að því að glæða áhuga og skilning almennings á náttúrunni. c) Að vinna að rannsóknum og skipulagningu almennra rannsókna á náttúru íslands, einkum að því er snertir meiri háttar verk, þar sem samvinna við aðrar stofnanir og einstaklinga er æskileg eða nauðsynleg, svo sem kerfisbundin úrvinnsla úr efnivið safnsins, efling safnsins að vísindalegum efnivið, náttúrufræðileg kortagerð og skyld verkefni.“

Segja má, að hér sé ekki um verulegar efnisbreytingar að ræða og þó er að því leyti efnismunur á þessu, að í upphaflega frv. er gert ráð fyrir því sem aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands að vera miðstöð almennra vísindalegra rannsókna á náttúru Íslands, vinna að slíkum rannsóknum, samræma þær og efla. Þetta var talið aðalverkefni stofnunarinnar í upphaflega frv., eins og n. beggja d. mæltu með að þetta yrði. Samkv. brtt. er það gert að aðalverkefni Náttúrufræðistofnunarinnar að koma upp safni, að vera safn, og verður varla á móti því borið, að samhliða því sem nafni stofnunarinnar er breytt úr Náttúrugripasafni í Náttúrufræðistofnun, einmitt vegna þess að meiningin er, að Náttúrufræðistofnunin sé fyrst og fremst vísindaleg rannsóknarstofnun á náttúru íslands, þá er óneitanlega óeðlilegt að telja það fyrst í verkefnum þessarar stofnunar, að það skuli vera safn, einkum og sér í lagi ætlað að vera safn til leiðbeiningar við kennslu í skólum, t.d. í gagnfræðaskólum. Ég tel því tvímælalaust rétt að breyta frv. í upphaflegt horf og vona, að hv. Nd. standi við fyrri skoðanir sínar í þessu efni.