30.03.1965
Neðri deild: 60. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

166. mál, víxillög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. í víxillögum, nr. 93 1933, eru ákvæði um, hversu hárra vaxta og hversu hárrar þóknunar sé heimilt að krefjast af víxilskuldurum eftir gjalddaga víxils. Samkv. þessum ákvæðum eru víxilvextir eftir gjalddaga víxils þeir sömu og fyrir gjalddaga auk þóknunar, sem er 1/3% af víxilfjárhæðinni. Um s.l. áramót ákvað Seðlabankinn almenna hækkun dráttarvaxta og var það gert sem liður í þeirri viðleitni að auka skilvísi við greiðslu skulda. Eru hinar almennu reglur um dráttarvexti því nú þær, að greiða skuli 1% fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði. Til samanburðar má geta þess, að nú um árabil hafa gilt 1/2 % dráttarvextir fyrir hvern hálfan mánuð eða byrjaðan hálfan mánuð vegna lána Stofnlánadeildar sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóðs Íslands, en hjá þeim stofnunum eru hæstu vextir 61/2 % á ári.

Nú er það kunnara, en frá þurfi að segja, að víxlar eru eitt algengasta skuldabréfaform hér á landi. Ef ákvæði víxillaga, nr. 93 frá 1933, stæðu óbreytt, héldust mun lægri dráttarvextir á víxlum, en felast í ákvörðun Seðlabankans um s.l. áramót um dráttarvexti almennt. Þess vegna þykir nauðsynlegt að breyta fyrrnefndum ákvæðum víxillaganna. Ef þetta frv. verður að lögum, mundu dráttarvextir vegna víxilskulda verða 1% fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði að óbreyttri ákvörðun Seðlabankans um dráttarvexti innlánsstofnana og síðan breytast með breyttri ákvörðun Seðlabankans um dráttarvexti almennt.

Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.