30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

196. mál, Listasafn Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég álít, að það sé til bóta, að með þessu frv. er viðurkenndur jafn réttur Félags ísl. myndlistarmanna og Myndlistarfélagsins. Og ég vænti þess, að það leiði m.a. til þess, að sú viðurkenning verði tekin upp á fleiri sviðum, eins og t.d. þegar valin eru listaverk á sýningar, sem ríkið eða opinberir aðilar standa að einhverju leyti að. Ég viðurkenni einnig, að það sé nauðsynlegt að setja nokkrar reglur um það, hverjir skuli öðlast atkvæðisrétt samkv. þessum nýju l. aðrir en þeir, sem eru nú meðlimir í þessum tveimur félögum. Ég er hálfhræddur um, að þær reglur, sem settar eru um það atriði í þessu frv., kunni að vera helzt til þröngar og vildi þess vegna beina því til hv. menntmn., sem fær þetta frv. til athugunar, hvort ekki væri ástæða til þess að hafa þær rýmri. En samkv. þessum reglum getur listamaður, sem nú er ekki meðlimur annars hvors þessara félaga, ekki öðlazt atkvæðisrétt, nema hann hafi hlotið opinbera viðurkenningu, þ.e.a.s. hafi tekið þátt í listsýningu, sem ríkið hefur að einhverju leyti staðið að, ellegar hlotið listamannalaun eða Listasafnið keypt af honum listaverk. Nú veit maður það, að hjá öllum þeim aðilum, sem um þessi mál ráða, gætir stundum nokkurrar togstreitu og það virðist eins og vissar listastefnur verði nokkuð ráðandi um það, hvaða verk eru valin á sýningar eða hvaða verk eru keypt af Listasafninu og þó að við væntum þess, að slíkt eigi sér ekki stað í framtíðinni, þá sé nokkur hætta á því að slíkt geti átt sér stað í framtíðinni og því e.t.v. nokkur hætta á því, að maður, sem er vissulega listamaður og á skilið atkvæðisrétt samkv. þessum l., hafi ekki hlotið þá opinberu viðurkenningu, sem gert er ráð fyrir í þeim þremur atriðum, sem hér eru talin upp, að hann þurfi að hafa öðlazt a.m.k. 2 af þeim til þess að hafa fengið atkvæðisrétt. Ég vildi þess vegna beina því til hv. menntmn., að hún athugaði, hvort ekki væri möguleiki á því að hafa þessi skilyrði fleiri, svo að það væri frekar tryggt, að enginn klíkuskapur gæti orðið þess valdandi, að listamaður, sem á þennan atkvæðisrétt, fái hann, þótt hann hafi ekki orðið þeirrar náðar aðnjótandi, sem frv. gerir ráð fyrir.