08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

196. mál, Listasafn Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir fyrirvara mínum. Hann er varðandi það atriði þessa frv. að breyta því ákvæði, að Listasafn ríkisins skuli, eins og nú segir í lögum, fá árlega a.m.k. 500 þús. kr. af tekjum menningarsjóðs til listaverkakaupa, — breyta því í það form, að það skuli vera 1/6 hluti af tekjum menningarsjóðs. Ég skal ekki rekja þessa sögu ýtarlega, en vil aðeins geta þess, að eins og nú er um tekjur menningarsjóðs, þýðir þetta sennilega um 200 þús. kr. hækkun á ári. Ég vil í sambandi við þetta taka fram, að það er enginn efi á því að mínum dómi, að Listasafnið þarf á þessu aukna fé að halda. Það er eðlilegt, að með hækkandi verðlagi á öllum hlutum þurfi það aukið fé til listaverkakaupa. Þau hafa ekki verið meiri, en svo fram að þessu, að þau mega sízt við því að minnka. Með tilliti til þess hef ég viljað fylgja málinu, en gat þó ekki skrifað undir nál. án þess fyrirvara, að ég tel þetta mjög miklum örðugleikum bundið fyrir menningarsjóð, þar sem tekjur hans standa í stað. Tekjustofnar hans eru ákveðnir með lögum. Aðaltekjustofninn er 1 kr. af hverjum bíómiða og það hefur staðið óbreytt síðan 1957, að mjög veruleg breyt. var gerð á l. um menningarsjóð og þessi aðaltekjustofn hans, sem nú er, settur í lög.

Það er vissulega örðugleikum bundið fyrir menningarsjóð að taka á sig aukin fjárútlát að óbreyttum tekjum. Það hlýtur vitanlega að koma niður á öðrum verkefnum sjóðsins, sem eru mörg og var mörgum bætt við með lögunum frá 1957. En sérstökum örðugleikum mundi það valda að eiga að greiða þetta fé nú á þessu ári, þar sem menningarsjóður gerir fjárhagsáætlun í byrjun hvers árs og hefur fyrir nokkru lokið því fyrir þetta ár og það mundi verða örðugt fyrir hann, þótt ekki sé um stærri fjárhæð að ræða en þetta, að greiða meira fé til Listasafnsins á árinu 1965, en þær 500 þús. kr., sem settar voru á fjárhagsáætlun skv. þeim lagafyrirmælum, sem gilt hafa og enn gilda. Ég tel, að það væri af þessum ástæðum æskilegt, að hægt yrði að líta þannig á og framkvæma þetta ákvæði, ef að lögum verður, á þann hátt, að þessi breyt. úr 500 þús. kr. framlagi árlega í 1/6 af tekjum menningarsjóðs árlega taki gildi frá og með áramótunum næstu eða frá og með ársbyrjun 1966.