03.11.1964
Neðri deild: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir það, sem hæstv. menntmrh. sagði viðvíkjandi þörfinni á vísindalegum rannsóknum á því sviði, sem þetta frv. fjallar um, og um nauðsynina á fjárveitingum í því skyni. Ég vil um leið, af því að ég átti sæti í þeirri n., sem undirbjó þetta frv., gera örstutta grein grein fyrir þeim ágreiningi, sem hjá okkur var og nokkuð eimir eftir af í þessu frv.

Sá ágreiningur er fyrst og fremst um stjórnarfyrirkomulag á rannsóknastofnunum. Upphaflega var meiri hl. atvinnumálanefndar á því að taka raunverulega stjórn rannsóknastofnananna undan ríkinu, þannig að það væru hin einstöku samtök og stofnanir í þjóðfélaginu, ekki sízt atvinnurekendasamtök, sem útnefndu stjórnirnar í þessar rannsóknastofnanir og réðu forstjórana fyrir þeim. Ég var einn í minni hl. í þessari nefnd og var andvígur því fyrirkomulagi, sem meiri hl. lagði til. Hæstv. ríkisstj. fór þarna hins vegar nokkuð bil beggja. Hún lagði það til, sem ég álít alveg rétt, að forstjórarnir í þessum stofnunum væru útnefndir af viðkomandi ráðuneytum, eins og er með flestar af okkar stofnunum, sem á svona sviðum starfa, raforkumálastofnuninni og öðrum slíkum. Hins vegar var haldið þessu sérstaka stjórnarfyrirkomulagi að nokkru leyti, og hafa þó verið um það miklar deilur og nokkur átök og nokkrar breytingar og ég held jafnvel, að það, hve þetta frv. hefur tafizt, hafi að sumu leyti stafað af reipdrætti um fyrirkomulagið í þessum stjórnum, þó að mér sé ekki fyllilega um það kunnugt, en hitt veit ég, að nokkur ágreiningur er þar alltaf um, hverjir skuli skipa þá, sem í þessum stjórnum eigi að vera. Ég verð að segja það, að mín skoðun er, eins og nú er komið, að þegar forstjórarnir eru útnefndir af ríkisstj., sem ég álít rétt, þá eigi raunverulega að afnema þessar stjórnir líka, þær hafi ekkert sérstakt verkefni lengur, þriggja manna stjórnir, þar sem forstjórinn er þar einn af, séu raunverulega bara að gera þetta að bákni, sem sé óþarft, þessar stjórnir séu orðnar þarna milliliður, sem hafi enga raunverulega þýðingu í þessum vísindalegu stofnunum. Hins vegar er gengið út frá eins konar ráðgjafarnefnd í sambandi við hverja af þessum stofnunum. Þessar ráðgjafarnefndir eru ólaunaðar og þær eru skipulagðar af allmörgum aðilum í þjóðfélaginu og ég held, að þær geti verið mjög heilbrigðar. Nú er það svo, að eins og í frv. er gert ráð fyrir, eiga þessar ráðgjafarnefndir víða að útnefna einn mann í stjórnina, þannig að ef þær hafa þetta vald, getur orðið nokkur togstreita um, hvernig slíkar ráðgjafarnefndir séu skipaðar. Um leið og stjórnarnefndirnar sjálfar væru burt felldar og þar með réttur ráðgjafarnefndanna til þess að útnefna nokkurn mann í þær, mundi ekki þurfa að vera að deila um það, hve margir aðilar útnefndu menn í þessar ráðgjafarnefndir og ég álít, að það væri bezt, að þar væru sem flestir, sem áhuga gætu haft á þessum sviðum, þannig að forstjórar þessara stofnana gætu kallað þessar ráðgjafarnefndir saman, þegar þeim þóknast og var í upprunalega frv. gert ráð fyrir, að þær kæmu saman tvisvar á ári a. m. k. Þá mundi forstjórinn geta ráðgazt við þessa aðila, hann mundi geta haft þá marga og eins mundi ríkisstj. ráða því, hve margir það væru, þannig að þarna gætu bæði þeir aðilar, sem hefðu sérstakra hagsmuna að gæta þarna, ýmis atvinnurekendasamtök, aðilar af hálfu verkalýðssamtakanna, aðilar, sem hefðu sérstakan áhuga á þessu, eins og í sambandi við landbúnaðinn og samtök bænda og slíkir, — allir þessir aðilar, hvort það væru sérfræðingar, atvinnurekendur, verkamenn, starfsmenn eða aðrir slíkir, þeir hefðu allir saman aðstöðu til þess að láta koma þarna fram ýmsar hugmyndir og gagnrýna frá praktísku sjónarmiði ýmislegt af því, sem forstjóri stofnunarinnar væri að taka sér fyrir hendur. Ég held, að þetta væri mjög gott fyrirkomulag til þess að skapa góð og lífræn tengsl á milli forstjóra svona stofnunar og þjóðfélagsins í heild. Hins vegar held ég, að stjórnarnefndirnar ættu sem slíkar að falla þarna burtu og ég heyrði það, mér þótti vænt um það, að hæstv, ráðh. gerði ráð fyrir, að sú nefnd, sem þetta færi til, menntmn., gæti athugað þetta frv. með það fyrir augum að breyta því í samráði við hæstv. ríkisstj. og ég held, að það væri mjög gott, að sú nefnd gerði það.

Ég held, að sú breyting, sem frv. hefur tekið í meðferð hæstv. ríkisstj., hafi verið mikið til hins betra frá því, sem frv. meiri hl. var í upphafi og það eigi af hálfu Alþingis að ganga enn þá lengra á þeirri braut, sem ríkisstj. fór inn á.