20.10.1964
Neðri deild: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

6. mál, þingsköp Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég geri naumast ráð fyrir, að það verði miklar umr. um þetta frv., en þyki eðlilegt, að það komist í nefnd nú. Þar sem ég verð ekki við á fimmtudag, verð ég þakklátur fyrir, að það skuli verða tekið til umr.

Ég hygg, að það hafi verið fyrst í þingsköpum 1915, sem ákveðin var hámarkstala manna í fastanefndum, að það hafi verið óákveðið þangað til, hversu margir skyldu vera, en þá var talan 5 sett sem hámarkstala. Þá voru þm. 40, nú eru þeir orðnir 60, og er því hlutfallið orðið mjög breytt og eðlilegt í samræmi við fjölgun þm., að þessu hámarki verði breytt. Það kom einnig í ljós á síðasta þingi, að ekki var heppilegt það fyrirkomulag, sem þá var. Einn þingflokkanna hafði ekki mátt til þess að koma mönnum í neina nefnd í Nd. og fáa í Ed. En um mikils háttar mál varð samkomulag um það milli hinna flokkanna að óska eftir því, að þessi flokkur legði menn til meðferðar mála í nefndum. Hins vegar er það tekið fram í þingsköpum, að tala í n. eigi að standa á stöku, svo að það rekst á að auka sjötta manni í n. miðað við þetta fyrirmæli. Það eru því öll rök, sem hníga að því, að nú skuli vera breytt um hámark í nefndum, enda lýsti vilji þm. sér, þegar nefndir voru skipaðar á dögunum. Þá voru samþykkt afbrigði frá þingsköpum um, að 7 skyldu kosnir. Það mætti og segja, að það væri eðlilegt að fjölga einnig nefndum í Sþ., en það var ekki tekið upp í þetta frv., því að það reynir einungis á um kjörbréfanefnd. Um þingfararkaupsnefnd var ákveðið í nýjum lögum fyrr á þessu ári, að þar skyldu vera 5, og þótti ekki ástæða til að gera breyt. á því nú, þegar menn voru ásáttir um þetta í fyrra. Kjörbréfanefnd hefur sannast að segja mjög litla þýðingu varðandi störf þingsins. Meðferð mála á sér hins vegar stað í þeim nefndum, sem hér um ræðir, og í þeim nefndum í Sþ., þar sem tryggt er, að allir þingflokkar eigi fulltrúa.

Ég vonast til, að þetta frv. fái greiðan framgang, og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.