29.04.1965
Neðri deild: 75. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á þeirri öld tækni og vísinda, sem upp er runnin, þarf hver þjóð, hversu smá sem hún er, að hagnýta sér vísindalegar rannsóknir til að skapa sér þau lífskjör, sem við allir viljum njóta nú á dögum. Um þetta erum við allir sammála.

Hér á landi hafa verið stundaðar hagnýtar rannsóknir fyrir atvinnuvegi í mörg ár. Hins vegar hefur þurft að endurskipuleggja rannsóknarmálin og koma þeim í nútímahorf, þannig að við gætum í framtíðinni hagnýtt okkur ransóknir í þágu atvinnuvega eins og þarf á þeim breyttu tímum tækni og vísinda, sem við lifum á.

Um langt árabil hafa nefndir starfað að undirbúningi þessarar endurskipulagningar. Eftir að þær luku störfum, kom málið inn í Alþ., og hér hefur það verið síðan 1962. En ekki hefur tekizt að ná því samkomulagi um málið, að hægt væri að afgreiða það. Þegar haft er í huga, að hér er fyrst og fremst um að ræða skipulagningu rannsóknarmála atvinnuveganna, verður ljóst, að við megum ekki láta slíkt mál vefjast fyrir okkur öllu lengur. Ef Alþ. vill gera frekari átök í rannsóknarmálum fyrir atvinnuvegina og það þarf vissulega að gera, verður fyrst að ljúka skipulagsmálunum og koma svo að kjarna málsins. En hversu erfitt sem mönnum kann að reynast að gera upp við sig slík mál sem þetta, megum við ekki dveljast við það öllu lengur.

Menntmn. hefur fjallað um málið í þessum anda. Hún leggur á það mikla áherzlu, að Alþ. taki nú rögg á sig og afgreiði þetta mál. Í n. hafa verið mismunandi sjónarmið, en nm. hafa lagt sig fram um að finna þá sameiginlegu lausn, sem er í till. n. og hafa margir látið niður falla ýmsar hugmyndir sínar til að ná því samkomulagi.

Eins og getur á þskj. 533, var hv. 3. þm. Reykv. andvígur þeirri skipan, sem höfð er á stjórnum rannsóknastofnana og hann flytur um málið eina brtt., en styður það eindregið, hversu sem henni reiðir af, að því er mér hefur skilizt. Þeir hv. 3. þm. Vestf. og 4. þm. Sunnl. eru andvígir einu atriði í 45. og 53. gr., sem fjallar um fjáröflun, en styðja málið í heild engu að síður.

Brtt. þær, sem menntmn. hefur gert, eru á þskj. 507. Till. eru 37 talsins og 4 prentaðar síður. Ég vil benda mönnum á, að hér er fjallað um 5 rannsóknastofnanir og meginhlutinn af þessu prentmáli er sömu brtt., sem verður að prenta 5 sinnum í ákvæðum við hverja og eina af þessum stofnunum, svo að efni málsins er ekki eins fyrirferðarmikið og við fyrstu sýn kann að virðast. Skal ég nú í stuttu máli gera grein fyrir efni þessara till., sem prentaðar eru á þskj. 507.

Fyrsta brtt. er við 2. gr., um rannsóknaráð. N. leggur til, að fjölgað verði úr 17 í 21 mann í rannsóknaráði. N. telur rétt, að í því séu 7 alþm., en ekki 5 og er það í samræmi við þróun hér á þingi, sem ég þarf ekki að orðlengja um. En vissulega mun það rannsóknaráði til styrks, að allir þingflokkarnir eigi þar fulltrúa og að flokkslegar deilur þurfi ekki í þess mál að dragast. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að í ráðinu verði 5 forstjórar þeirra rannsóknastofnana, sem frv. fjallar um. Áður var gert ráð fyrir, að þessar stofnanir kysu sameiginlega aðeins 3 menn. Loks er gert ráð fyrir, að menntmrh. verði formaður rannsóknaráðs og þykir það heldur eiga að styrkja aðstöðu ráðsins. Dæmi eru þess í nágrannalöndum, að jafnvel forsrh. hafa farið með slíkt starf, en hér hefur orðið samkomulag um að leggja til, að menntmrh. verði formaður ráðsins.

2. brtt. er við 4. gr. Þar var ákvæði, sem hefði gert ómögulegt fyrir forstjóra stofnananna að komast í framkvæmdanefnd rannsóknaráðs, af því að talið var, að þar kynnu hagsmunir að rekast á. En að athuguðu máli þykir ekki rétt að útiloka þá frá setu í framkvæmdanefnd rannsóknaráðs, og því er brtt. 2 við 4. gr. flutt.

Í brtt. við 6. gr. er gert ráð fyrir, að framkvæmdastjóri rannsóknaráðs þurfi ekki að hafa háskólapróf í raunvísindum, gæti vel verið, að menn með próf í öðrum greinum séu jafngóðir til þess starfs.

4. brtt. er við 11. gr. og kemur þar að fyrstu rannsóknastofnuninni, Hafrannsóknastofnuninni. Segir þar, að í stjórn stofnunarinnar skuli vera 3 menn skipaðir af sjútvmrh. til fjögurra ára í senn, þar af einn án tilnefningar, einn tilnefndur af stjórn Fiskifélags Íslands og einn tilnefndur af ráðgjafarnefnd stofnunarinnar. Þetta er sú till., sem gerð er um stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar, og eru sams konar till. um allar hinar stofnanirnar síðar í þessu skjali.

Í brtt. 5 segir, að stjórnin eigi að samþykkja, en ekki semja starfsáætlun. Í brtt. 6 segir, að forstjórinn skuli ráða starfslið. Báðar till. eru til að styrkja aðstöðu og ábyrgð forstjóra stofnananna.

7. brtt. er við 15. gr., en hún fjallar um ráðgjafarnefnd fyrir þessa rannsóknastofnun. Menntmn. leggur til, að það skuli ákveðið, að slíkar ráðgjafarnefndir verði við stofnanirnar, en samkv. frv. var það ekki nauðsynlegt og þurftu tilteknir aðilar að óska eftir því. N. leggur til, að forstjóri viðkomandi stofnunar eigi sæti í ráðgjafarnefnd, en telur ekki ástæðu til þess, að hann sé sjálfkrafa formaður. Þá er gert ráð fyrir, að viðkomandi rn. geti með samþykki stjórnar stofnunarinnar fjölgað mönnum í ráðgjafarnefnd og sett reglur um, hversu vali nm. skuli hagað. Þessar ráðgjafarnefndir eiga að gegna því hlutverki að skapa föst tengsl á milli rannsóknastofnananna og viðkomandi atvinnugreina. Sést það á því, hverjir eiga að tilnefna þar menn.

Við 17. gr. er bætt nýjum lið varðandi verkefni Hafrannsóknastofnunarinnar, en það er fiskirækt og allt, sem að henni lýtur, áburður á sjó og fleira slíkt. Og enn fremur er bætt við 5. liðinn rannsóknum á hagkvæmustu gerð fiskiskipa og er þarna komið nokkuð til móts við sjónarmið hv. 3. þm. Reykv., sem hann raunar flytur í sérstakri tillögu.

Frá 9. brtt. til 13. brtt. er fjallað um Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og eru till. efnislega hinar sömu og ég hef lýst.

Frá 14. brtt. til 19. brtt. er fjallað um Rannsóknastofnun landbúnaðarins og eru brtt. þar einnig sama efnis og ég hef lýst. Þó er það til viðbótar, að Stéttarsamband bænda fær tvo menn samkv. till. menntmn. í tilraunaráð Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. N. þóttu sérfræðingar og tilraunastjórar vera þar of einráðir og rétt, að tveir starfandi bændur kæmu þar til að jafna metin.

20. brtt. er við 38. gr. og kemur þar að fjórðu stofnuninni, Rannsóknastofnun iðnaðarins. Till. um hana eru hinar sömu og ég hef þegar lýst.

Með 25. brtt. er komið að Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins, hinni fimmtu og síðustu, og enn eru skipulagtill. þær hinar sömu og ég hef áður lýst.

Kemur þá að lokakafla frv.,og má staðnæmast við 30. brtt., sem er við 54. gr. Þar er lagt til, að ráðh. skuli ákveða deildaskiptingu í rannsóknastofnunum og skipa deildarstjóra að fengnu áliti forstjóra og stjórnar viðkomandi stofnunar. Þykir rétt, að heimilt sé fyrir ráðh. að ákveða deildaskiptingu og þar með stöður deildarstjóra, eftir því sem verkefni og önnur málefni þessara stofnana þróast og ástæða er til vegna þeirra sérfræðinga, sem þær hafa.

Við 56. gr. er 32. brtt., sem ástæða er til að nefna. Þar er gert ráð fyrir, að húseign atvinnudeildar á lóð háskólans verði ráðstafað í þágu íslenzkrar vísindastarfsemi. Þetta hús er við hlið höfuðbyggingar Háskóla Íslands og menntmn. þykir eðlilegt, að það renni til háskólans eða vísindalegrar starfsemi á hans vegum eða kennslu, þegar ríkið sér rannsóknastofnunum atvinnuveganna fyrir öðru betra húsnæði, eins og þegar er byrjað á. Fyrr verður það að sjálfsögðu ekki.

Samkv. 57. gr., sem 33. brtt. fjallar um, eiga forstjórar rannsóknastofnananna að koma saman ársfjórðungslega til að ræða sameiginleg mál. Hér er gert ráð fyrir, að framkvæmdastjóri rannsóknaráðs kalli þá saman og sitji fundi þeirra og hefur þá hvort tveggja verið gert, aðstaða forstjóranna í rannsóknaráði er verulega styrkt og framkvæmdastjóri rannsóknaráðs fær aftur forsæti á þessum ársfjórðungsfundum, sem þeir halda um sín mál.

34. brtt., við 58. gr., er um yfirumsjón á óráðstöfuðu landssvæði eða sameiginlegum byggingum og tækjum, sem rannsóknastofnanirnar kunna að fá. Er gert ráð fyrir, að rannsóknaráðið hafi þau yfirráð, þar til ákveðnum svæðum eða byggingum er úthlutað til einstakra stofnana. Þá falla öll yfirráð yfir þeim til viðkomandi stofnana.

Loks er brtt. 35 við 63. gr. Þar er lagt til, að samkv. reglugerð megi heimila sérfræðingum rannsóknastofnananna að kenna við Háskóla Íslands. Þarna er látið að því liggja, að æskilegt gæti verið að hafa tengsl á milli háskólans og þessara stofnana til að nota krafta góðra vísindamanna. Þótti n. ekki rétt að gera þetta að skyldu og taldi heppilegast, að ráðh. hefði heimild til að setja um þetta ákvæði, enda verður það mjög að fara eftir einstökum mönnum og aðstæðum. Sumir vísindamenn, sem þessar stofnanir kunna að hafa í þjónustu sinni, leggja hug á að kenna eða þurfa að halda uppi kennslu í sambandi við starf sitt. Aðrir þurfa þess ekki og hafa ekki hug á kennslustörfum og verður að haga því nokkuð eftir aðstæðum.

Ég hef þá farið mjög fljótlega yfir brtt. Kemur þar fram, hvaða skipulagsbreytingar menntmn. hefur orðið sammála um að mæla með. Ég vil ítreka það, að ef íslenzkum rannsóknarmálum á að þoka fram á veg á næstu árum, má Alþ. ekki lengur sitja og velta vöngum yfir skipulagsmálum — silkihúfunum — á þessu sviði. Við skulum því á grundvelli þess samkomulags, sem náðst hefur á milli flokkanna í menntmn., afgreiða þetta mál og taka svo að hugsa um kjarna málsins, hvað við getum gert til þess að hagnýta okkur rannsóknarstörfin betur í framtíðinni.