29.04.1965
Neðri deild: 75. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. menntmn. hefur tekið fram, stendur öll menntmn. að þeim brtt., sem fluttar eru, og er öll n. sammála um að mæla með samþykkt frv., þó að smávegis ágreiningur sé um minni háttar atriði. Við hv. 4. þm. Sunnl., sem lögðum fram allmargar brtt. við frv. í n., höfum fengið tekið upp í brtt. meginefni þess, sem við fluttum og erum við því mjög ánægðir með það. En þó er eitt atriði í þessu frv., sem við getum ekki fallizt á og því höfum við skrifað undir nál. með fyrirvara. Skal ég gera grein fyrir, í hverju hann er fólginn.

Ákveðið er í 45. gr. frv., svo og 53. gr. þess, að lagðir skuli á nýir skattar til þess að bera kostnað af rannsóknarstarfseminni. Í 45. gr. segir, að leggja skuli á iðnfyrirtæki, verksmiðjur og verkstæði gjald, sem nemur 2 af þúsundi af kaupi starfsfólks hvers slíks fyrirtækis. Þetta er gjald, sem fyrirtækin eiga að greiða, sem nemur þessum hluta af kaupgjaldi, og á að renna til Rannsóknastofnunar iðnaðarins. Undanþegin þessu gjaldi eru hraðfrystihús, síldar- og fiskimjölsverksmiðjur, hvalstöðvar og annar iðnaður úr sjófangi, sláturhús, kjötiðnaður, mjólkurbú og annar slíkur iðnaður, sem vinnur úr landbúnaðarafurðum svo og sements- og áburðarframleiðsla. Þetta er sá skattur, sem á að renna til Rannsóknastofnunar iðnaðarins. En í 53. gr. segir, að af öllu innfluttu timbri, sementi og steypustyrktarjárni skuli greiða 1/2% aðflutningsgjald og 1/2% framleiðslugjald af sementi, sem framleitt er hér á landi og þetta á að renna til starfsemi Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins. Okkur er það fyllilega ljóst, að þessum stofnunum veitir ekki af þessum tekjum og þurfa auðvitað miklu meira en þetta. En við erum andvígir því að vera sífellt að leggja skatta á fyrirtæki og jafnvel einstaklinga, hvaða nýjung sem er á ferðinni og jafnvel þótt ekki sé um neina nýjung að ræða. Auk þess má benda á, að þarna á að skattleggja til tveggja þessara rannsóknastofnana af fimm. Nú sjá allir, að hinar þrjár rannsóknastofnanirnar þurfa sitt fé engu síður, en þessar og er þó ekki lagt til að skattleggja einn eða neinn til þeirra. Það er því ekki samræmi í þessu. En aðalatriðið er þó hitt, að við erum andvígir því að vera sífellt að fjölga þessum sköttum, það sé hreinlegra og eðlilegra, að ríkið leggi fé til þessara stofnana, eins og það verður reyndar að gera hvort sem er, en vera ekki að þessum sífelldu skattaálögum.

Eins og menn vita, hefur verið talsvert að þessu gert, þessum skattaálögum, að undanförnu. Ég hef alls ekki yfirlit yfir það, hvað þeir eru orðnir margir, skattarnir, á síðustu árum. Ég man þó eftir skatti, sem var lagður á iðnfyrirtæki til iðnlánasjóðs, ég man eftir skatti á ríkisábyrgðalán, og þá held ég, að menn muni eftir launaskattinum á bændur, sem gengur til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Annar launaskattur var lagður á á s.l. ári, sem gengur til húsnæðismálanna. Fyrir þessu þingi liggur frv. um að hækka eignarskatt enn til húsnæðismála, sem er í raun og veru ekkert annað en nýr fasteignaskattur, því að hann lendir á þeim, sem eiga fasteignir í bæjum. Og þá má nú ekki gleyma benzínskattinum, sem er kannske ríflegastur af þeim öllum. Tekin var út úr fjárl. mestöll fjárveiting til samgöngumála á landi, en á lagður skattur á farartæki. Þetta virðist okkur vera farið að ganga alveg úr hófi fram og viljum því ekki samþykkja enn tvo nýja skatta, sem hér er lagt til, að á verði lagðir. Ég óska því eftir því, að hæstv. forseti beri upp sérstaklega þessar tvær gr. frv., 45. gr. og 53. gr., því að við munum greiða atkv. gegn þeim. Að öðru leyti erum við samþykkir þessu frv. með þeim brtt., sem n. flytur, og munum fylgja því.