20.10.1964
Neðri deild: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

6. mál, þingsköp Alþingis

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir stjórnarfrv. um breyt. á þingsköpum. Efni þess er að fjölga mönnum í þingnefndum úr 5 í 7. Í athugasemdum kemur fram, að tilgangur með flutningi frv. er fyrst og fremst sá að tryggja, að Alþb. fái mann kjörinn í þingnefndirnar.

Í sambandi við þetta frv. rifjast upp fyrir mönnum, að einn af núv. ráðherrum, hæstv. menntmrh., ritaði grein í flokksblað sitt í fyrra, skömmu eftir alþingiskosningarnar, um það, að Alþýðubandalagsmenn mundu ekki fá kjörna fulltrúa á Alþingi í 5 manna nefndir eða ráð á þessu kjörtímabili. Og sá tónn var í grein hæstv. ráðherra, að lesendum mátti vera ljóst, að ráðherrann taldi þá, að sú breyt. væri til bóta, en ekki til hins verra. Grein ráðherrans birtist í Alþýðublaðinu 29. júní 1963, og ég vil leita leyfis hæstv. forseta til að lesa upp stuttar setningar úr þessari grein. Hún var á 4. síðu blaðsins þennan dag. Þar stóð efst á síðunni: „Gylfi Þ. Gíslason skrifar.“ Síðan kom tvípunktur þar fyrir aftan og til hliðar var mynd af höfundinum. Svo kom, stór fyrirsögn, sem hljóðaði þannig: „Aldan er hnigin.“ Upphaf greinarinnar var á þessa leið: „Einar af athyglisverðustu afleiðingum kosningaúrslitanna 9. júní virðast enn hafa farið fram hjá blöðum og almenningi, en þær eru, að áhrif kommúnista á íslenzk þjóðmál munu á næsta kjörtímabili verða miklu minni en þau hafa verið allar götur siðan þeir urðu verulegt afl í íslenzkum stjórnmálum, en það urðu þeir í kosningunum 1942.“ Framhald greinarinnar er að miklu leyti sögulegt yfirlit. Þar er í fyrstu nefnd stofnun Kommúnistaflokks Íslands 1930. Um þann atburð segir svo: „Stofnun Kommúnistaflokks Íslands 1930 var enginn stórviðburður í íslenzkri stjórnmálasögu.“ Síðan lýsir greinarhöfundur gengisleysi Kommúnistaflokksins næstu árin, allt þar til Héðinn Valdimarsson, Sigfús Sigurhjartarson og fleiri Alþýðuflokksmenn klufu Alþfl. og stofnuðu Sósíalistaflokkinn með kommúnistum. Hann segir, að það hafi verið verk þessara fyrrverandi Alþýðuflokksmanna, að Sósfl. óx Alþfl. yfir höfuð í kosningunum 1942, en í kosningunum 1946 hafi Alþfl. tekizt að vinna 2 þingsæti, og um það segir svo í greininni: „Nú, meira en 15 árum siðar, finnst ýmsum eflaust undarlegt að minnast þess, að nýju þm. 2 vorum við Hannibal Valdimarsson.“ Engin skýring er á því, hvers vegna greinarhöfundi finnst þetta undarlegt.

Ekki er ein báran stök. Ráðherrann lýsir því í grein sinni, að enn á 6. tug vorrar aldar tókst leiðtogum Sósfl. að valda nokkrum klofningi í Alþfl. Hannibal Valdimarsson, Alfreð Gíslason og fleiri gengu til samstarfa við Sósfl., og flokkurinn fékk nýtt nafn, Alþb., en í það skipti stóðst Þjóðvarnarfl. freistingarnar og hélt áfram starfsemi sinni. Sögu ráðherrans lýkur með frásögn af því, að fyrir síðustu kosningar hafi kommúnistum tekizt það, sem þeim misheppnaðist fyrir kosningarnar 1956, að innlima Þjóðvfl., en það hafi engan árangur borið. Um það segir ráðherrann á þessa leið: „Í þriðja skiptið, sem íslenzkir kommúnistar reyna að styrkja aðstöðu sína með því að leggja net sín inn í aðra flokka, en mistekst það með öllu. Þetta kalla ég sögulegan atburð.“

Eftir að hæstv. ráðherra hefur rakið þessa sögu í stórum dráttum í grein sinni, bendir hann á, að kommúnistar hafi undanfarið átt sæti í 5 manna stjórnum og ráðum kjörnum af Alþingi. Síðan segir í greininni, að nú sé svo komið eftir kosningarnar 9. júní 1963, að sá flokkur, sem íslenzkir kommúnistar stjórna, hafi ekki bolmagn til að fá fulltrúa kosinn í 5 manna stjórn eða ráð á Alþingi, þingstyrk þeirra hafi nú hrakað svo, að þeir missi öll þessi áhrif. Þetta telur ráðherrann tvímælalaust ein örlagaríkustu áhrif kosninganiðurstöðunnar. Grein ráðherrans í Alþýðublaðinu, sem hér hefur verið vitnað til og ber hina skáldlegu yfirskrift: „Aldan er hnigin“ — lýkur á þessum orðum: „Sú alda kommúnismans á Íslandi, sem stormur Héðins Valdimarssonar vakti á árunum 1938—1942, er nú hnigin í þeirri ládeyðu, sem fylgir Gils Guðmundssyni inn í Alþb.“

Svo er nú það. En hvað er nú að gerast? — Ný alda er að rísa. Og hver vekur þann storm, sem reisir þá öldu? Ekki Héðinn Valdimarsson. Nei, það er ríkisstj., sem storminn vekur í þetta sinn samkv. frv., sem hér liggur fyrir. Og hæstv. menntmrh., sem skrifaði öldugreinina í Alþýðublaðið 29. júní í fyrra, er í þeirri ríkisstj., sem nú vekur storminn og nýju ölduna. Ládeyðan, sem hann lýsti þar og fagnaði, er úr sögunni.

Á liðnum tíma hafa ýmsar aðferðir verið notaðar til þess að ákveða þátttöku þingflokkanna í vali manna í nefndir og ráð. Ég minnist þess, að á tímum þjóðstjórnarinnar, sem svo var nefnd og sat 1936—1942, voru menn stundum valdir í nefndir og stjórnir stofnana eftir tilnefningu 3ja stærstu þingflokkanna. Báðir núv. stjórnarflokkar áttu þá ráðherra í stjórn, og ég hygg, að þessi háttur hafi verið upp tekinn fyrir áhrif frá Alþfl. En þetta féll úr tízku skömmu síðar. Trúlega þykir núv. stjórn ekki ráðlegt að taka þessa aðferð upp aftur, að velja menn í nefndir og stjórnir stofnana eftir tilnefningu 3ja stærstu þingflokkanna. Enn má nefna, að oft er fámennum þingflokki veittur meiri réttur en honum ber eftir þingmannatölu með því að hnýta honum aftan í stærri flokk við kosningar í nefndir og ráð á Alþingi.

Hér er lagt til í þessu frv. að fjölga mönnum í þingnefndum um 2. Hvort það verður til þess, að nefndarstörf verði fljótar eða betur unnin, sýnist mér nokkurt vafamál.

Ég vil vekja athygli á því í sambandi við þetta mál, að æskilegt gæti verið að gera aðrar breyt. á þingsköpum Alþingis en þá, sem frv. fjallar um. í 33. gr. þingskapanna segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Skylt er þm. að sækja alla þingfundi, nema nauðsyn banni.“ Hvernig rækjum við þm. þessa skyldu? Þeirri reglu er fylgt, að þingfundur er ekki settur, fyrr en a.m.k. helmingur þeirra, sem þar eiga sæti, er mættur. En síðan er fundarstörfum haldið áfram, þó að miklu færri sitji á fundi. Haldið er áfram að taka mál fyrir og flytja ræður, þó að mjög fáir séu viðstaddir. Oft kemur fyrir, að á fundum sitji aðeins örfáir þm., og jafnvel dæmi þess, að í þingsalnum séu aðeins 2 menn á fundi, forsetinn og sá, sem er í ræðustólnum að flytja sitt mál. Þetta gefur þinghaldinu ákaflega leiðinlegan svip. Mér sýnist ástæða til fyrir þd. að taka til íhugunar, hvort ekki sé rétt að setja ný ákvæði í þingsköpin til tryggingar því, að þm. gæti betur þeirrar skyldu sinnar að sækja þingfundi. Ég vil beina þeim tilmælum til þeirrar háttvirtu þingnefndar, sem fær frv. til skoðunar, að hún taki þetta atriði sérstaklega til athugunar.