06.05.1965
Efri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég get í upphafi alveg tekið undir þau orð hv. 5. þm. Reykn., sem hann lét falla við 1. umr. málsins, að hann harmaði það, að d. gefst ekki meira tóm, en raun er á, til að fjalla um það mikilvæga og viðamikla mál, sem hér er um að ræða. Eins og nál. menntmn. á þskj. 628 ber með sér, leggur n. til, að frv. verði afgr. til 2. umr., en einstakir nm. hafa þó fyrirvara um einstakar gr. frv. og áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Ég hygg, að það hafi verið almenn skoðun nm., þegar málið var afgr., að þó að n. harmaði það að vísu, að henni hefði ekki gefizt meiri tími til að athuga málið, þá er hv. þdm. kunnugt um, að þetta er þriðja þingið í röð, sem þetta frv. liggur fyrir og þar sem nauðsyn er, að einhver löggjöf verði sett um þetta efni, kemur vart annað til greina en frv. verði afgreitt nú, þó að n. hafi lítill sem enginn tími gefizt til þess að athuga málið svo sem æskilegt er.

N. hafa borizt ýmis erindi og tilmæli um breytingar á einstökum gr. frv. og jafnvel allvíðtækar breytingar, en ekki verður unnt, hvað sem öðru liður, ef málið á að afgreiða á þessu þingi, að koma til móts við slíkt nema að litlu leyti. En n. mun þó á milli 2. og 3. umr. halda fund um þessi mál og athuga, hvaða breytingar kleift muni að gera á frv., þannig að það hindri ekki framgang málsins á þessu þingi.

Ég vil ljúka orðum mínum með því að endurtaka það, að ég harma það og hygg, að það sé skoðun okkar allra, sem í menntmn. eigum sæti, hve lítill tími okkur hefur gefizt til að athuga málið og málið hefur ekki fengið þá athugun í n., sem vert væri. En með tilliti til allra aðstæðna töldum við rétt að afgreiða málið á þeim grundvelli, sem ég nú hef gert grein fyrir.