08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Frsm. Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og ég hafði boðað í framsöguræðu minni við 2. umr. málsins, flytur menntmn. nokkrar brtt. við frv.

Í fyrsta lagi eru þá brtt., sem n. flytur sameiginlega á þskj. 693. 1. brtt. er um það, að fjölgað verði í ráðgjafarnefnd Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, þannig að tveimur aðilum verði þar bætt við, Stéttarsambandi fiskiðnaðarins og fiskimannadeild Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. N. þótti eðlilegt, að báðir þessir aðilar fengju þar fulltrúa. Stéttarsambandið mun ekki hafa verið stofnað fyrr, en eftir að gengið var frá lagafrv. þessu og var það því eðlilega ekki með í upptalningunni í 24. gr., en n. þótti sjálfsagt og eðlilegt, að þessi samtök fengju þarna aðild að og sömu skoðunar er n. hvað snertir fiskimannadeild Farmanna- og fiskimannasambandsins.

Önnur brtt., við 29. gr., er aðeins leiðrétting, því að n. sú, sem gegnir svipuðu hlutverki og ráðgjafarnefndin, sem hér er um að ræða, heitir hvað snertir Rannsóknastofnun landbúnaðarins tilraunaráð og þurfti því auðvitað að leiðrétta þetta.

Þá eru brtt. við 33. gr. um það, að fjölgað sé í tilraunaráði landbúnaðarins. Það er til þess að koma til móts við óskir þeirra aðila, sem hlut eiga þar að máli. Þar sem allar þessar stofnanir eða n. eru ólaunaðar, mundi það ekki hafa í för með sér nein aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, þó að í þeim sé fjölgað.

Þá hefur n. leyft sér að flytja skrifl. brtt. þess efnis, að aftan við 54. gr. bætist: „Deildarstjórar og sérfræðingar skulu hafa lokið meistaraprófi eða öðrum hliðstæðum háskólaprófum í fræðigrein sinni. Þó skal ráðh. heimilt að víkja frá þessu ákvæði, hafi umsækjandi sannað vísindalega hæfni sína á annan hátt.“ Þessa till. flytur n. sem skrifl. brtt. N. var sammála um, að eðlilegt væri að setja ákvæði um menntunarkröfur til þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli. Bæði er þetta trygging fyrir betri starfskröftum fyrir þessar stofnanir og í öðru lagi mundi það auðvelda þeim sérfræðingum og öðrum aðilum, sem hér eiga hlut að máli, að fá launakjör í samræmi við menntun sína, ef ákveðin fyrirmæli eru um það í l., að ákveðnar kröfur skuli gera í þessu efni. Á það var bent í n., þegar hún ræddi þessa brtt., sem hún hefur orðið sammála um að flytja, að eðlilegt væri að geta hér einnig um doktorspróf. Það varð þó ofan á að sleppa því, en rétt er að það komi fram, að auðvitað eru þessi ákvæði hugsuð sem lágmarkskröfur, þannig að þar sem doktorspróf er yfirleitt talið hærri háskólagráða en meistarapróf, kemur auðvitað ekki til mála annað, en að túlka þetta þannig, að þeir, sem doktorspróf hafa, fullnægi auðvitað umræddum skilyrðum. Ef ekki koma fram aths. við þessa skoðun, þá taldi ég, að það mundi taka allan vafa af í þessu efni, að þessa skilnings n. sé getið og það komi fram í Alþingistíðindum.

Ég vil þá leyfa mér að biðja hæstv. forseta um að leita afbrigða fyrir því, að þessi till. megi koma hér til umr. og atkvgr.

Eins og ég gat um í framsöguræðu minni við 2. umr., hefur n. haft mjög skamman tíma til að athuga það viðamikla mál, sem hér er um að ræða og er því ekki hægt að ræða það í einstökum atriðum. En það er þó eitt atriði, sem ég hef rekið mig á og tel svo mikilvægt, að ég get ekki látið hjá líða, að því sé hreyft hér og langar mig í því sambandi að beina ákveðinni fsp. til hæstv. menntmrh., sem hér er staddur. Í 2. tölul. 8. gr. segir svo, þar sem talin eru upp verkefni rannsóknaráðs ríkisins:

„Athugun á nýtingu náttúruauðæfa landsins til nýrra atvinnuvega og atvinnugreina, enda skulu allar till. um nýjungar á sviði atvinnuvega og atvinnugreina, sem berast ríkisvaldinu, sendar ráðinu og skal það beita sér fyrir því, að fram fari tæknileg og þjóðhagsleg athugun þeirra, ef það telur þess þörf.“

Þannig hljóðar þessi 2. tölul. Nú er að vísu talað hér um athuganir, en ekki rannsóknir, og í því, að hér er notað annað orð en rannsóknir, felst e.t.v., að það sé annað, sem haft er hér í huga. En ef athuganir eru túlkaðar sem rannsóknarstarfsemi, mundi í þessu felast það, að rannsóknaráði ríkisins sé ætlað að hafa með höndum sjálfstæða rannsóknarstarfsemi. Nú gerir frv. að öðru leyti ráð fyrir því, að rannsóknarstarfsemin sé falin öðrum einstökum stofnunum, sem undir ráðið heyra, svo sem nánar er tilgreint í þessum l. Spurningin er þá sú, hvort þetta beri að túlka þannig, að rannsóknaráði sé ætlað að hafa á höndum sjálfstæða rannsóknarstarfsemi. Ef svo væri, kynni það að rekast á við þá rannsóknarstarfsemi, sem aðrar stofnanir hafa með höndum, og grípa inn í þær á miður heppilegan hátt. Þetta teldi ég óheppilegt og vildi því gjarnan beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hver sé skoðun hans á því, hvernig þetta eigi að vera í framkvæmdinni.

Þá vil ég að lokum geta þess, að á þskj. 680 flytur hv. 5. þm. Reykn. sérstaka brtt. Um hana hafa aðrir nm, óbundnar hendur.