30.03.1965
Neðri deild: 60. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

167. mál, bann við okri

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Flutningur þessa frv. stendur í beinu sambandi við flutning þess frv., sem ég var að mæla fyrir í hv. d. áðan. Í 13. gr. gildandi l. um Seðlabankann frá 1961 er svo fyrir mælt, að bankastjórn Seðlabankans sé heimilt að ákveða hámarksvexti samkv. l. um bann við okri, dráttarvexti o.fl. Nokkur vafi þykir þó leika á, að þessi heimild Seðlabankans taki til ákvörðunar dráttarvaxta, sem öðrum en innlánsstofnunum væri heimilt að áskilja sér og gæti þetta haft það í för með sér, að einstakar innlánsstofnanir tækju ólíkar fjárhæðir í dráttarvexti og aðrir skuldareigendur gera. Þess vegna er lagt til í þessu frv., að tekin verði af öll tvímæli um það, að Seðlabankinn hafi þá heimild, sem ætlazt var til, að hann fengi ótvírætt, til þess að ákveða dráttarvexti í samræmi við gildandi lög um bann við okri, dráttarvexti o.fl.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.