30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

197. mál, bankavaxtabréf

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að á sinni tíð var veðdeild Landsbanka Íslands ein helzta lánastofnun þjóðarinnar, sem lánaði fé til húsbygginga. Hún gaf út flokka bankavaxtabréfa, sem hún síðan afhenti húsbyggjendum og þeir komu í verð og öfluðu sér þannig fjár til húsbygginga sinna. Nú hafa breyttar aðstæður í íslenzku efnahags- og fjármálalífi fyrir löngu dregið mjög úr starfsemi veðdeildar Landsbanka Íslands og önnur fjáröflunarform komið í staðinn fyrir starfsemi hennar. Gildandi lög um veðdeildina eru frá árinu 1945. Þó hefur svo farið, að veðdeildin hefur alltaf öðru hverju gefið út nokkur bankavaxtabréf, sem hafa reynzt ýmsum húsbyggjendum t.d. gagnleg við að leysa úr fjárhagsvandræðum sínum. En nú er svo komið, að þær heimildir, sem Landsbankinn hefur til að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa samkv. l. frá 1945, eru þrotnar og mundi því Landsbankinn ekki geta haldi áfram að gefa út nein bankavaxtabréf, ef þessi heimild yrði ekki endurnýjuð. Það hefur að vísu ekki kveðið mikið að því á undanförnum árum, að Landsbankinn hafi gefið út slík bankavaxtabréf veðdeildar sinnar, en alltaf hefur þó eitthvað að því kveðið og þykir rétt, að Landsbankinn hafi slíkar heimildir áfram. Þess vegna er í þessu frv. lagt til, að veðdeild Landsbankans sé heimilað að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa, allt að 100 millj. kr., og eru lagaákvæðin um þetta efni í öllum aðalatriðum alveg samhljóða þeim reglum, sem um langt skeið undanfarið hafa gilt um útgáfu bankavaxtabréfa veðdeildar Landsbankans. Einu frávikin frá eldri l. eru fólgin í því að nú er gert ráð fyrir því að viðskmrh. ákveði, að höfðu samráði við Seðlabankann, hvenær hverjum lánaflokki skuli lokið. Og enn fremur er gert ráð fyrir því, að ábyrgð ríkissjóðs á vaxtabyrði deildarinnar verði framvegis einföld ábyrgð í samræmi við nýrri lagaákvæði um ábyrgð ríkissjóðs. Enn fremur eru ákvæði um vexti að sjálfsögðu færð til samræmis við núgildandi löggjöf um vaxtaákvörðunarheimild Seðlabankans.

Með þessu vona ég, að efni þessa frv. sé að fullu skýrt og leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.