30.04.1965
Efri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég gerði ráð fyrir því, að hæstv. samgmrh. mundi leggja til, að þetta mál færi í samgmn., þar sem ég á ekki sæti og ætlaði þess vegna við þessar umr. að vekja athygli n. á örfáum atriðum. Nú hefur ráðh. lagt til, að þetta fari til fjhn., þar sem ég hef tækifæri til að fjalla um málið, og ég skal því ekki fara um það mörgum orðum á þessu stigi.

Það eru ekki nema fáeinar vikur síðan hv. Alþ. afgr, þál. um vegáætlun fyrir árin 1965 –1968. Í þeirri vegáætlun er kafli um þær framkvæmdir, hraðbrautir, landsbrautir og þjóðbrautir, sem verða ekki að öllu leyti greiddar af fé vegasjóðs á áætlunartímabilinu. Til þeirra er heimilað að verja ákveðnum upphæðum, sem þar eru tilteknar, enda verði fjár aflað með lántökum og það frv., sem hér liggur fyrir er, að því er mér skilst, borið fram af því tilefni. Ég vildi þess vegna vekja athygli á því, að mér virðist, að það sé ekki fullt samræmi milli þeirra talna, sem heimilaðar eru í vegáætluninni og þeirra talna, sem eru í þessu lánsheimildarfrv. Mér telst svo til, elns og hæstv. ráðh. gerði að nokkru leyti grein fyrir áðan, að þessi mismunur eigi sér tvenns konar rætur. Annars vegar þær, að það er gert ráð fyrir því, að lántökurnar verði nokkuð rúmar, vegna þess að nú þegar séu komnar til sögunnar hækkanir, síðan þessar áætlanir voru gerðar á síðasta hausti, eins og raunar er getið um í grg. og svo enn fremur hitt, að nú hafi verið ákveðið að steypa Reykjanesbrautina í staðinn fyrir að malbika.

Þegar þáltill. um vegáætlun var samþ. hér fyrir nokkrum vikum, voru þær tölur, sem inn í hana voru teknar, miðaðar við það, að Reykjanesbrautinni yrði lokið eða slitlaginu frá Kúagerði til Keflavíkur yrði lokið á þessu ári og það yrði malbikað. Framkvæmdaheimild vegáætlunarinnar nær því aðeins til tæpra 70 millj. kr., og sú framkvæmdaheimild, sem í vegáætluninni felst, að gera megi fyrir lánsfé í þessum vegi á árinu, er 62 millj. og það er það, sem það kostar að malbika þennan spotta, en nægir auðvitað engan veginn til þess að steypa hann. Mér mundi þykja æskilegt, að hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því nú, hvort hann telur, að sú upphæð, sem tiltekin er í vegáætlun, sé ekki takmarkandi fyrir það, sem hann getur látið gera í þessum vegi á árinu.

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir þeim sjónarmiðum, sem komu fram hjá hæstv. ráðh. í sambandi við gerð varanlegs slitlags á fjölförnustu vegina. Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að hann telur, að taka eigi upp sömu stefnu og hann telur Reykjavíkurbæ hafa tekið upp á síðkastið, að leggja meiri áherzlu á, að eitthvað sé hægt að komast yfir, heldur en að gera það með þeim allra vandaðasta hætti, sem steinsteypa er. Ég er á sömu skoðun og ráðh. um þetta efni. Ég tel, að ef við ætlum okkur að steypa þessar brautir yfirleitt, þá muni okkur verða of seint og lítið ágengt, enda mjög vafasamt, þó að ég skuli ekki á þessu stigi leggja dóm á það, að það sé tæknilega réttlætanlegt að fara þá dýru leið, þar sem hún muni ekki í framtíðinni jafnast af lækkuðum viðhaldskostnaði.

Nú upplýsir hæstv. ráðh., að það hafi verið ákveðið að steypa þennan hluta Reykjanesbrautar, sem gert var ráð fyrir að malbika, þegar vegáætlunin var afgreidd og færir þau rök fyrir því, að það sé réttlætanlegt, af því að þegar sé búið að steypa alllangan kafla af leiðinni annars vegar og hins vegar að taka eigi vegatoll, sem muni jafna þennan mismun. Ég ætla mér ekki hér að efna til neinna umr. um það, hvort þessi ákvörðun sé í sjálfu sér skynsamleg eða ekki, en mig langar til í þessu sambandi að fá það upplýst betur, en gert hefur verið, hvað kostnaðarmunurinn er mikill, hvað fljótt er gert ráð fyrir, að vegatollurinn jafni það, hvað gert er ráð fyrir, að hann geti orðið mikill á ári hverju og hvað hann eigi að vera hér.

Mér virðist, að af þessu, sem virðist hér koma fram, hljótum við að draga nokkurn lærdóm. Við höfum gert ráð fyrir því að framkvæma vegaframkvæmdir í landinu samkv. 4 ára áætlun. Sú 4 ára áætlun, sem nú er í gildi, er líklega ekki nema 4 vikna gömul, en hún virðist þegar orðin í ýmsum atriðum úrelt. Hæstv. ráðh. telur eðlilegt, að lántökurnar miðist við það, að vegáætlunin sé orðin úrelt vegna verðhækkana, enda eru lántökuheimildirnar 10% eða tæplega það hærri en gert er ráð fyrir í vegáætlun, Í öðru lagi er vegáætlun orðin úrelt sökum þess, að ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún muni skera niður 20% af ríkisframlaginu. Og í þriðja lagi virðist hún vera orðin breytt að því er lýtur að þeim veigamikla vegi, Reykjanesbrautinni, sem er mesta og dýrasta vegaframkvæmd, sem við fáumst nú við.

Mér hefði þótt vænt um það, ef hæstv. ráðh. hefði viljað láta í té svör við þeim spurningum, sem ég hef beint hér til hans, ef hann kynni að hafa þau handbær. Ef svo er ekki, þá kæmi að sama gagni að fá þau í n. En mér þætti fróðlegt að fá nánari grg. hæstv. ráðh. fyrir því, hvernig hann telur framkvæmdaheimildum vera háttað í sambandi við Reykjanesbrautina og þá breytingu, sem orðið hefur á þeim áætlunum, síðan vegáætlunin var samþykkt.