23.11.1964
Neðri deild: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

6. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur komið saman til fundar, síðan frv. þetta var til 2. umr. hér í þessari hv. d., og hefur meiri hl. n. eða allir þeir 5 nm., sem á fundinum mættu, ákveðið að flytja þá brtt. við frv. varðandi kosningu kjörbréfanefndar, að 7 menn skuli eiga sæti í n. í stað 5, eins og ákveðið er í 4. gr. gildandi l. um þingsköp Alþingis. Er brtt. meiri hl. n. prentuð á þskj. 100. Ég vil taka fram í þessu sambandi, þótt það komi ekki þessu máli raunverulega beinlínis við, að fjölda þm. í þingfararkaupsnefnd, sem sameinað Alþingi kýs, verður ekki breytt í sambandi við afgreiðslu þessa frv., þar eð þingfararkaupsnefnd er kosin samkv. sérstökum lögum, en ekki samkv. 1. um þingsköp Alþingis.