30.04.1965
Efri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að hann ætlar að láta n. í té þær upplýsingar, sem ég var að biðja um og það er því ástæðulaust af mér að halda hér áfram umr. um þetta atriði. En mig langar aðeins til að koma á framfæri einni eða tveimur aths. við það, sem hæstv. ráðh. var nú að segja.

Hæstv. ráðh. segir réttilega, að vegáætluninni sé hægt að breyta með lögum og það er þá e.t.v. athugandi, hvort það þarf ekki að gera einmitt það. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, breytir ekki vegáætluninni í neinu. Það heimilar aðeins lántökur. Vegáætlunin segir til um, hve miklar framkvæmdirnar skuli vera, og ef lántökurnar verða meiri, en framkvæmdirnar, þá gengur bara af til síðari tíma, svo að í sambandi við þetta kemur til athugunar, hvort ekki þarf að taka um leið fram í lögunum, að það breytist þá líka framkvæmdaheimildin.

Í öðru lagi upplýsti hæstv. ráðh., að upplýsingarnar um 20% niðurskurðinn hafi legið fyrir hv. fjvn., þegar hún afgreiddi vegáætlunina. Þetta þykja mér vera merkilegar upplýsingar, sem komu mér alveg á óvart, vegna þess að ég skil ekki, hvers vegna fjvn. þá afgreiðir til þingsins till. um vegáætlun, sem hún veit að er í rauninni með röngum tölum. Þetta finnst mér vera mjög einkennilegt og þessar upplýsingar komu mér á óvart. Mér þykir það mjög miður, að fjvn. skuli hafa gert þá hluti þannig og skapað með því erfiðleika, sem, eins og hæstv. ráðh. gat um, eru nokkrir við að skera þetta niður aftur.