11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Ásgeir Pétursson:

Herra forseti. Mig langar til þess að gera aðeins stutta aths. í sambandi við þessar umr. og leyfi mér að vitna til ræðu hæstv. ráðh. um það, hvort það væri æskilegra að steypa vegi eða malbika þá. Sannleikurinn er sá, að þetta mál er búið að vera mikið til umr. víða, bæði í blöðum og hér á Alþ. og meðal verkfræðilega menntaðra manna. En ég held, að það hafi ekki verið nægilega oft og ekki kannske nægilega öfluglega bent á þá staðreynd, að það á ekki og má ekki vera neitt hjartans mál eins eða neins, hvort jafn þýðingar miklar framkvæmdir í landinu og varanleg vegagerð eiga að vera gerðar með einhverjum tilteknum hætti. Það er aðeins ein raunhæf og skynsamleg aðgerð til þess að skera úr um það, hvort betra sé að malbika vegi eða steypa þá. Hún er sú, að það fari fram verkfræðileg og fjárhagsleg rannsókn á því, hvort betra sé. Að henni lokinni geta hv. alþm. eða hæstv. ríkisstj. eða aðrir þeir aðilar, sem um þetta fjalla, tekið sínar ákvarðanir. Það væri ákaflega dýrt spaug að hefja vegagerð á Íslandi, varanlega vegagerð, og láta það vera einhverjum tilviljunum háð, hvaða aðferð verður við það notuð. Ég vil aðeins í þessu sambandi benda á það, að stjórn Sementsverksmiðju ríkisins hefur boðizt til þess við aðra opinbera aðila að taka þátt í þeim kostnaði, sem af því mundi leiða, að slík fræðileg rannsókn færi fram. Og það er vonandi, að menn muni sameinast um að láta þá rannsókn fara fram hið fyrsta, vegna þess, eins og ég sagði áðan, að einungis í kjölfar slíkrar rannsóknar er hægt að taka skynsamlegar ákvarðanir.

Það hefur sýnt sig á erlendum vettvangi, þar sem hafa verið gerðar rannsóknir á því, hvort betra sé að steypa vegi eða malbika þá, að þegar til lengdar lætur, eftir kannske aðeins nokkur ár, 2–3 ár, er ódýrara að hafa steypt vegi heldur en að hafa malbikað þá, og það er þá aðeins spursmál um fjármagn og vexti af því. Er þess að vænta, að það muni koma í ljós eftir rannsókn á Íslandi, að það muni ekki líða langur tími, þangað til það hafi beinlínis borgað sig að hafa þá aðferð, sem ég drap á fyrst.

Ég vek athygli á þessu hérna, ekki vegna þess í sjálfu sér, að það skipti meginmáli í sambandi við umr. um þetta mál, heldur vegna hins, að þetta hefur borið á góma og ég tel þetta vera mjög mikilvægt atriði upp á framtíð vegagerðar á Íslandi, e.t.v. eitt þýðingarmesta atriði allra þeirra, sem til álíta koma.