11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Frsm. minni hl (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. segir, að nokkuð af lánunum til Reykjanesbrautar hafi verið bráðabirgðalán. Þetta kemur ekki heim við fyrri upplýsingar stjórnarinnar. í till. til vegáætlunar, sem lögð var fram fyrr á þessu þingi, er á bls. 32 gerð grein fyrir framkvæmdum við hraðbrautir og þar er rætt um kostnað við lagningu Reykjanesbrautar, hver hann verði orðinn um áramótin 1964–1965, og síðan segir: „Fjár til þessara framkvæmda hefur verið aflað svo sem hér segir: Föst umsamin lán 130.9 millj.“ Þarna segir, að þetta séu föst umsamin lán, en ekki bráðabirgðalán. Enda fékk ég þær upplýsingar hjá ráðuneytisstjóra samgmrn., að það væru fastir samningar um þessi lán frá Íslenzkum aðalverktökum.

Hæstv. ráðh. segir út af því, sem ég hélt fram, að það vantaði þarna rúmar 20 millj. í lántökuheimild vegna Reykjanesbrautar, til þess að þeir gætu tekið það lán, sem talið er, að þurfi til að ljúka henni á þessu ári, að það kæmi ekki að sök. En ég vil benda hæstv. ráðh. á það, sem hann á þó að vita og hlýtur að vita, að ríkisstj. er ekki heimilt að taka lán nema samkv. heimildum frá Alþ. Það kemur einnig fram í okkar nál., minni hl., að ríkisstj. hafi ekki enn farið fram á neina heimild til lántöku til vega á Vestfjörðum, sem hún skýrði þó frá fyrir ekki löngu á Alþ., að ætti að taka og meðal annars sé gert ráð fyrir í vegáætluninni, að það verði unnið að nokkru af þeim framkvæmdum 1965. Stjórnin hefur bara ekki fengið neina heimild til þessarar lántöku, sem hún ætlar að framkvæma einhvers staðar erlendis, að því er okkur skildist.

Hæstv. ráðh. viðurkennir, að 4. tölul. 1. gr. frv. ætti ekki þar að vera, það sé búið að taka þetta lán. En hann telur samt enga ástæðu til að leiðrétta skekkjur í stjórnarfrv., þær megi gjarnan vera. Það er trúlega ekkert einsdæmi, að það komi þar inn villur, menn eru ekkert að kippa sér upp við það. Hann telur hins vegar ekki eðlilegt að samþykkja brtt. hv. 3. þm. Vestf. um veginn í Árneshrepp. Það telur hann ekki eðlilegt, þó að hitt megi standa, heimild til lántöku í veg, sem búið er að veita áður og búið er að taka lán til. Hann virtist undrast það, að Strandamenn skyldu ekki vera búnir að fá akfæran veg eftir endilangri sýslunni, þegar núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda. Það var mikið átak að gera vegi um Strandasýslu. Hún er löng og vogskorin og það fór mikið fjármagn til vegabóta í Strandasýslu fyrir daga núv. ríkisstj. En það var vitanlega í þeirri sýslu eins og öðrum á landinu, að það var ekki að fullu lokið vegaframkvæmdum þar og það þarf enginn að undrast það og það er vitanlega til þess ætlazt, bæði af Strandamönnum og öðrum, að það verði eitthvað haldið áfram með vegagerðir þar, þó að ný ríkisstj. kæmi hér á landi seint á árinu 1959.