05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

203. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki tala langt mál um þetta litla mál, sem hér liggur fyrir, en efni þess er, eins og hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir, að framlengja fresti þá, sem greinir í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, fresti til samningagerðar, sáttaumleitunar og kjaradómsmeðferðar. Í lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna er svo mælt, að uppsögn skuli gerð í siðasta lagi sjö mánuðum fyrir gildistöku nýs kjarasamnings og skuli þá samningur hefjast, þ.e.a.s. að samningar eiga í síðasta lagi að hefjast 1. júní. Síðan er gert ráð fyrir því skv. lögunum, að sáttasemjari taki deiluna til meðferðar innan mánaðar, þ.e.a.s. 1. júli, ef ekki næst samkomulag og sú sáttameðferð fyrir sáttasemjara getur tekið allt að einum mánuði, en siðan fer málið til kjaradóms og hann hefur svo einn mánuð til meðferðar málsins, en hann á að hafa ef til kemur, kveðið upp sinn úrskurð 1. sept.

Það má að vísu segja, að þessir frestir og þessi tímamörk, sem þarna eru sett, séu í skemmsta lagi, a.m.k. sá frestur, sem kjaradómi er settur til þess að kveða upp sinn úrskurð. En ég vil minna á, að þessi ákvæði eru ekki sett út í bláinn, því að það var tekið fram, ef ég man rétt, í grg., sem fylgdi frv. að kjarasamningum opinberra starfsmanna, að þessi tímamörk varðandi samningagerðina, sáttasemjarameðferðina og kjaradómsmeðferðina, væru sett með það fyrir augum, að niðurstöður gætu legið fyrir svo snemma, að það væri hægt að taka tillit til þeirra við undirbúning fjárl. og meðferð fjárlfrv. og þess vegna gert ráð fyrir því í l., að ákvörðun um launakjör starfsmanna liggi fyrir í síðasta lagi 1. sept., en þá er hægt að taka tillit til þeirrar breytingar, sem þar af kann að verða, við samningu fjárl. Eftir því frv., sem hér liggur fyrir, er hins vegar gert ráð fyrir því að framlengja þessa fresti þannig, að úrskurður kjaradóms sé ekki upp kveðinn fyrr en 1. des.

Mér er ekki ljóst, hvað hefur breytzt, frá því að þessi ákvæði voru sett í kjarasamningalögin. Þá var talið nauðsynlegt, að það lægi fyrir ákvörðun um launakjörin svo snemma, að það væri hægt að taka tillit til þeirra við samningu fjárl. Nú er það alveg auðsætt, þegar ákvörðun á ekki að liggja fyrir fyrr en 1. des., að þá er ærið lítið svigrúm til þess að taka tillit til þess við fjárlagameðferð, því að ef vel ætti að vera, þá ætti vissulega fjárlagameðferð að vera langt komið 1. des.

Mér sýnist þess vegna hér vera stigið spor aftur á bak, þar sé hringlandaháttur á og þetta vera óheppilegt skipulag, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv. Að vísu virðist gert ráð fyrir því, að það standi aðeins til bráðabirgða og eigi aðeins við í þetta skipti.

Það væri þess vegna í rauninni fróðlegt að heyra, hverjar skýringar eru á því, að nú er gerð þessi undantekning frá þessum almennu reglum. Nú hygg ég, að það sé flestra manna mál, að það megi búast við því, að það verði allveruleg hækkun á launakjörum opinberra starfsmanna, hvort sem sú hækkun verður með samningum eða það sem líklegra má nú telja kannske, að samningar náist ekki og málið þurfi að fara til kjaradóms og þá er það næsta óheppilegt, að það liggi ekki fyrir, fyrr en 1. des., hver sú hækkun verður. En það hygg ég, að flestir séu sammála um, að það hljóti að verða mjög veruleg hækkun einmitt á launum opinberra starfsmanna, eins og allt er í pottinn búið og eins og þeirra aðstaða hefur breytzt á þeim tíma, sem kjarasamningar þeirra hafa verið í gildi og m.a. vegna þess líka, að það hefur við meðferð þeirra skattalaga, sem hér eru til meðferðar, ekki verið tekið neitt sérstaklega tillit til þeirra. Það hefði sjálfsagt vel verið hægt að hugsa sér það, að með lagfæringum á skattalögunum hefði verið hægt að ganga eitthvað til móts við opinbera starfsmenn, þannig að þeir hefðu getað komizt af með minni hækkun en ella, en út í það skal ég ekki fara lengra.

Þetta frv. er sagt flutt skv. beiðni og með samkomulagi stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og samninganefndar ríkisstj. og þar sem svo er, þá sé ég ekki ástæðu til að vera á móti þessu. Það má segja, að stjórn bandalagsins sé dómbærust um það, hvað hentar í þessu efni og ég læt það þá kyrrt liggja og mun fylgja þessu frv., því að ég hef ekki ástæðu til að rengja, að það sé rétt, sem þar um er sagt, að stjórn bandalagsins sé þessu samþykk. Hitt er annað mál, að ég skil ekki þær hvatir, sem liggja til þess, að hún leggur þessar breytingar til, því að ég get ekki skilið, að ekki hafi verið og ekki muni vera nægur tími til samninga, því að samninga má vitaskuld byrja þegar í stað, þar sem vitað er og fyrir liggur, að samningum hefur verið sagt upp.

Ég verð að segja það, að mér finnst sá frestur, sem hér er gert ráð fyrir í sambandi við þessa ákvörðun, heldur óheppilegur á ýmsa lund. Það er verið að bollaleggja um það í aths. við þetta frv., að n. sé að endurskoða lögin um kjarasamninga og frv. um það efni verði lagt fyrir næsta Alþingi. Þar af gæti leitt, að það yrði lagt fram frv. um þetta efni og kannske afgreidd ný lög um þetta efni, áður en nokkur ný ákvörðun um laun væri tekin. Ég hefði talið hitt heppilegra, að það hefði legið fyrir ákvörðun um launakjörin, áður en það væri stofnað til nýrrar lagasetningar um þetta.

En sem sagt, sjálfsagt hefur stjórn bandalagsins eitthvað fyrir sér í þessu efni, þó að ég fái ekki komið auga á það, hver rök mega liggja til þess, að þessi háttur er nú hafður á, og ég verð að segja það eins og er, að mér finnst hálfgert undansláttarbragð að þessu frv. Ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess, að opinberir starfsmenn þurfi að bíða þess kannske til 1. des. að vita, hvers þeir mega vænta um sín launakjör á næstu tveim árum, í stað þess að núgildandi lög gera ráð fyrir því, að þeir viti það þó í síðasta lagi 1. sept. Hvað á þessi frestur að þýða? Það fæ ég ekki skilið. En eins og ég áðan sagði, þá vil ég ekki fyrir mitt leyti fara að beita mér á móti þessu, úr því að það er samkomulag um þetta við stjórn bandalagsins, en ég vildi ekki samt láta þetta mál fara hér alveg þegjandi fram hjá mér.