06.05.1965
Efri deild: 83. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

203. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Í tilefni af ummælum hv. 3. þm. Norðurl. v. vil ég gefa hér nokkrar skýringar á þessu, þar sem ég á sæti í samninganefnd ríkisins og á einnig sæti í þeirri n., sem er að endurskoða lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Reynslan frá 1963, þegar heildarsamningar voru fyrst gerðir, sýndi þá, að þessir samningar eru mjög flóknir og tímafrekir og það var þess vegna mat beggja aðilanna nú, að þessir frestir, sem voru í lögunum eins og þau eru í dag, og hér er verið að breyta með þessu frv., væru of skammir og það var einnig skoðun kjaradóms, að fresturinn, sem honum er ætlaður til þess að fjalla um málið, ef málið skyldi þurfa þangað að fara, væri líka of skammur. Þar við bættist svo, að það var líka álit beggja aðila, að sumarmánuðirnir yrðu ódrjúgir til samningagerðar. Ég get reyndar bætt því við, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja á að skila kröfum sínum fyrir 1. júní n. k. og ég vissi, að bandalagið hafði ætlað sér að skila kröfunum í marz eða apríl, þannig að þá þegar væri hægt að byrja samningaviðræður. En þetta hefur reynzt miklu umfangsmeira og erfiðara fyrir bandalagið, að koma þessum kröfum sama, og eftir því sem ég bezt veit, þá munu þær ekki koma fram fyrr en síðustu dagana í maí og hafa þeir þó haft sig alla við að reyna að pressa þetta af fyrir réttan tíma.

Þegar l. voru sett, var, eins og réttilega kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., þessi dagsetning miðuð við það, að launakjörin lægju fyrir, áður en fjárlög kæmu til kasta Alþ. Nú er það að vísu svo, að það geta orðið skv. lögum breytingar á kjörum opinberra starfsmanna, skv. 7. gr. kjarasamningalaganna, að mig minnir, þegar almennar launabreytingar verða hjá öðrum stéttum þjóðfélagsins og þær breytingar geta átt sér stað út af fyrir sig hvenær sem er á árinu, eins og átti sér stað um áramótin, er samið var um 6.6% hækkun, sem átti að gilda aftur fyrir sig frá 1. okt. Jafnvel þó að hægt væri, sem er út af fyrir sig æskilegt, að hafa þessa kjaraákvörðun tilbúna, áður en fjárlög verða lögð fram, þá felst ekki nein trygging í því fyrir þingið eða fjvn., að þetta séu þau laun, sem komi til með að gilda allt árið 1966, því að þar geta orðið breytingar á samkv. 7. gr. og auk þess er auðvitað alltaf sá möguleiki fyrir hendi, sem maður verður að vænta, að málið fari ekki fyrir kjaradóm. Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi og þá ætti þetta að vera nokkuð tímanlegt. En sem sagt, það var mat aðilanna, að það væri nauðsynlegt að lengja þessa fresti, m.a. til þess að geta þá gert ýtarlega tilraun til þess að ná samkomulagi og forða því, að málið fari í kjaradóm, það væri þýðingarmeira atriði en hitt, hvort þessi kjaraákvörðun yrði tilbúin 2–3 mánuðum fyrr eða síðar. — Þetta held ég, að séu ástæðurnar fyrir því, að þeir voru sammála um þessar breytingar, að þeir treystu sér ekki til að semja á þessum tíma, sem ætlaður var.