03.05.1965
Efri deild: 78. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

201. mál, Landsvirkjun

Helgi Bergs:

Herra forseti. Þetta frv., sem hérna liggur fyrir, felur í sér tvennt: Í fyrsta lagi felur það í sér heimild til nýrrar virkjunar, og í öðru lagi felur það í sér ákvæði um að koma á fót nýrri stofnun, nýju skipulagi á virkjunarmálum og ýmis ákvæði í því sambandi. Ég skal fyrst fara nokkrum orðum um fyrra atriðið og drepa að lokum á þá stofnun, sem hér er lagt til, að sett sé á laggirnar.

Það er sannarlega ekki vonum fyrr, að hæstv. ríkisstj. leggur fram frv. um nýja virkjun. Það hefur engin meiri háttar virkjun verið ákveðin í landinu, síðan ráðizt var í Efrafallsvirkjunina í Sogi fyrir einum 7–8 árum. Sú virkjun, Efrafallsvirkjunin, kom í gagnið á árinu 1960 og hún var og er 27 þús. kw að aflstærð. Það afl svarar til aukningar raforkunotkunarinnar, sem hér verður á markaðinum á um það bil 3 árum. Sú bót, sem við fengum á okkar raforkumálum af þeirri virkjun, náði því ekki lengra en til ársins 1963 eða svo. En svo var fyrir að þakka, að eftir var að fullnýta Írafoss og raunar Ljósafoss líka og Írafosshlutinn hefur nú verið tekinn í gagnið. Þar eru 16 þús. kw. En nú á miðju ári 1965 er þetta eðlilega vegna þess, hvernig aukningunni á markaðinum er hagað, uppurið og samt eru a.m.k. 3 eða 31/2 ár, þangað til þess er að vænta, að sú virkjun, sem er lagt til að ráðast í, verði komin í notkun. Það er, eins og hæstv. ráðh. raunar nefndi í ræðu sinni hér áðan, þegar skortur á raforku. Áburðarverksmiðjan fær ekki þá orku, sem hún þarf á að halda, sem leiðir til þess, að hún hefur nú tekið upp á því að flytja ammoníak inn. En neytendur verða að vísu ekki þessa orkuskorts varir sökum þess, að það eru auknar toppstöðvarnar til þess að mæta aflþörfinni, og nú er um það bil verið að taka í notkun stóra viðbót í Elliðaártoppstöðina og önnur í undirbúningi. Þannig er reynt að breiða yfir rafmagnsskortinn og leysa úr honum með þessum hætti, sem í okkar vatnsorkuríka landi getur ekki talizt okkur hagkvæmur og þó á hann að sjálfsögðu eftir að verða meiri, áður en úr rætist með þeim nýju virkjunum, sem nú eru fyrirhugaðar.

Þess vegna er það ekki seinna vænna, að frv. af þessu tagi kemur fram. Það hefði raunar þurft að gerast miklu fyrr. Mér telst svo til, að í árslokin 1968, þegar 70 þús. kw stöð við Búrfell ætti að komast í gagnið, verði raunverulegur orkuskortur, sem verður leyst úr með toppstöðvum og með skömmtun á orku til Áburðarverksmiðjunnar, orðinn svo mikill, að hann svari til allt að 50 þús. kw afls.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að dráttur á rannsóknum hefði verið algerlega eðlilegur og það hefði þess vegna ekki verið hægt að leggja fram þetta frv. fyrr. En þá vaknar að sjálfsögðu sú spurning, hvort ekki hefði þá verið jafneðlilegt að gera aðrar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir orkuskort. Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að þeir erfiðleikar, sem við mundum eiga við að fást í sambandi við 70 þús. kw stöð við Búrfell, mundu vera þeir, að það vantaði notendur í upphafi. Ég gæti vel trúað því og hef ástæðu til þess að segja það, þó að ég skuli ekki eyða tíma í að færa rök fyrir því núna, að sá skortur á notendum verði minni en hæstv. ráðh. heldur nú. Sannleikurinn er sá, að 70 þús. kw virkjun fyrir okkur Íslendinga nú á síðari hluta 7. tugs 20. aldarinnar er í sjálfu sér engin ósköp. Það er ljóst, að með tilliti til þess, hvernig orkumálum okkar er komið, þarf nú að ráðast í allstóra virkjun. Smáar virkjanir af stærðinni 20 þús. kw eða 30 þús. kw leysa ekki þann vanda, sem við stöndum nú frammi fyrir. Sogið er nú fullvirkjað. Það var á sínum tíma ákaflega hentugt fyrir okkur, eins og okkar raforkumarkaði var háttað á undanförnum áratugum. Þar fengum við góð skilyrði til þess að virkja í áföngum, sem hentuðu okkur sæmilega. Nú er það búið, nú er Sogið fullnotað, og ég geri ráð fyrir því, að flestum, sem undanfarin ár hafa hugsað um þessi mál, hafi þótt sem nú væri fram undan að ráðast í annað fljót, aðra á og Þjórsá hefur í mínum huga jafnan verið eðlilegt framhald af Soginu. Hins vegar hafa verið um það skiptar skoðanir til skamms tíma, með hverjum hætti ætti að taka á Þjórsá hvar ætti að byrja og hvaða heildaráætlun ætti að fylgja um virkjun Þjórsár. Niðurstöðurnar af þessum athugunum eru nú þær, að raforkumálastjórnin og sérfræðingar hennar hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að Búrfell sé eðlilegasta byrjunin á virkjun Þjórsár.

Það eru ýmsir svartsýnismenn, sem hafa miklað fyrir sér þessa framkvæmd. Maður hefur séð því haldið fram, að okkur mundi vera ofvaxið að ráðast í virkjun Búrfells eða virkjun Þjórsár eða aðrar virkjanir af þeirri stærð, sem þarna er um að ræða, nema stórauka orkumarkaðinn í landinu með því að taka inn í landið orkufrekan iðnað. Ég álít, að þessi skoðun, sem ekki sízt hefur komið fram hjá ýmsum fylgismönnum hæstv. ríkisstj. og sem betur fer — ég segi honum það til hróss — kom ekki fram hjá hæstv. ráðh. hér áðan, þessi skoðun er hættuleg og alvarleg. Við eigum að gera okkur það ljóst, Íslendingar, að okkar verkefni í raforkumálum og öðrum málum fara vaxandi, eftir því sem okkur vex fiskur um hrygg. Raforkumarkaðurinn í landinu tvöfaldast á 10 ára bili og það er því síður en svo óeðlilegt, að virkjanirnar, sem við ráðumst í, geri það a.m.k. líka. Markaðurinn tvöfaldast á 10 ára bili, eins og ég sagði, sem þýðir, að hann rétt tæplega þrefaldast á 15 ára bili. Fyrir 15 árum var ráðizt í virkjun í Soginu, Írafossvirkjun. Hún var niðursett afl 31 þús. kw, en virkjunin að öllu leyti öðru en niðursetningu seinustu vélasamstæðunnar miðuð við 46 þús. kw. Þetta mundi ég segja, að hafi verið á þeim tíma ákaflega hliðstætt átak og við erum að tala um núna. Fyrir 30 árum, þegar fyrst var ráðizt í að virkja Sogið, voru virkjuð þar 15 þús. kw. Síðan eru liðin 30 ár og samkv. reglunni hefur raforkumarkaðurinn áttfaldazt, en þá er að því að gá, að á þessum tíma var enginn raforkumarkaður fyrir. Það ætti þess vegna ekki að dyljast neinum, að þar var virkilega um mikið átak að ræða í okkar raforkumálum.

Sama kemur í ljós, ef litið er á peningahliðina í sambandi við þessar virkjanir, sem hér er verið að nefna. Ég hafði ekki tök á að fá upplýst um byggingarkostnað virkjananna, en ég hef tekið upp úr l. þær lánsheimildir, sem veittar voru í sambandi við þessar virkjanir. Í sambandi við byrjun Sogsins var heimilað að taka 7 millj. kr. lán. Það var þá réttur helmingur fjárlagaupphæðarinnar. Þegar ráðizt var í Írafoss um 1950, var heimilað að taka 153 millj. kr. lán og þá voru fjárl. rétt um 300 millj. kr. Nú er gert ráð fyrir því í sambandi við þetta að taka 1.200 millj, kr. lán, sem ekki nær því að verða þriðjungur af þeim fjárl., sem nú eru í gildi.

Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeirri framkvæmd, sem hér er gert ráð fyrir að ráðast í. En ég vil vekja athygli manna á því, að það er ekki rétt að láta að því liggja, að hér sé eitthvert það verkefni á ferðinni, sem við höfum ekki, Íslendingar, skilyrði til þess að ráða við einir í okkar þágu. Þetta er eðlileg framkvæmd til þess að tryggja raforku hér suðvestanlands, án alls tillits til þess, hvort einhvern tíma kynni að koma að því, að raforkumarkaðurinn yrði stækkaður með orkufrekum iðnaði. Orkufrekur iðnaður mundi nefnilega í sjálfu sér ekki breyta öðru um þessa framkvæmd en því, að áfangarnir mundu komast örar í framkvæmd, það mundi fyrr verða lokið við þessa framkvæmd, en þá væntanlega um leið skapaður fjárhagslegur grundvöllur fyrir annarri. Ég geri ráð fyrir því, að það gæti vel verið hagkvæmt fyrir þróun raforkumálanna í landinu, að raforkumarkaðurinn væri stórlega aukinn, en ég sé ekki, að það ráði neinum úrslitum um viðhorfið til þess máls, sem hér liggur fyrir.

Um hagkvæmni þeirrar virkjunar, sem hér er lagt til að fara í, virðist eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja, ljóst, að hún komi bezt fram, þegar á líður virkjunina í seinni áföngum hennar. Með því að orkufrekum iðnaði yrði komið á fót, kæmi fyrr að því, að menn næðu þessu hagkvæma raforkuverði, en á hinn bóginn yrðu líka þeir möguleikar, sem í Búrfelli eru, fyrr tæmdir. Þess vegna lít ég svo á, að þetta frv. beri að metast út frá því sjónarmiði einu, hvernig það mætir orkuvandamálum veitusvæðisins. Alþ. hefur ekkert ákveðið um orkufrekan iðnað, eins og hér hefur komið fram hjá hæstv. ráðh. og gerir það ekki með því að samþ. þetta frv. Það hefur ekki heldur, hv. Alþ., á þessu stigi neinn grundvöll til þess að taka endanlega ákvörðun í því máli. Hún verður væntanlega tekin í réttu sambandi og þá á öðrum forsendum, nefnilega þeim, hvort menn nota það þannig, að í slíkum iðnaði sé fólgin hagkvæm viðbót við atvinnulíf landsmanna og viðunandi samningur að öðru leyti við þá aðila, sem þar eiga hlut að máli. En að tengja þessi mál saman á þeim grundvelli, að við ráðum ekki við sæmilega myndarlega virkjun að öðrum kosti, eins og fram hefur komið í umr. um þetta mál hvað eftir annað á opinberum vettvangi, álít ég vera skammarlegar úrtölur, sem ekkert mark sé á takandi.

Mér hefur fundizt, að þetta þyrfti að segja, vegna þess að það skín víða í gegnum grg. þessa frv. og jafnvel gegnum einstakar greinar þess, að menn gera eins og ráð fyrir því, að slíkum orkufrekum iðnaði yrði komið hér á fót. En ég tel ekki tímabært í sambandi við þetta frv. að ræða það mál, enda engin þörf á því. Það liggur ekki fyrir.

Það er eðlilegt, að sú spurning vakni í sambandi við þessa virkjunarheimild, hvort ekki séu aðrar virkjanir hagkvæmari en Búrfellsvirkjun. Hæstv. ráðh, hefur gert grein fyrir því í sambandi við þær skýrslur, sem liggja fyrir í grg. þessa frv. og annars staðar, að hann telji Búrfellsvirkjun 70 þús. kw hagkvæmari, en hinar svokölluðu smávirkjanir og um það er ekkert að villast eftir þeim plöggum, sem liggja fyrir. En þær svokölluðu smærri virkjanir, sem til greina koma, að því er upplýst er, eru þrjár. Það er Hveragerði, Efstadalsvirkjun og Kláffoss. Þessar virkjanir til samans eru ekki meira en það, sem við þurfum bara á allra næstu árum. Mér virðist þess vegna, að það sé alveg ljóst, að með þeim geti ekki eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja, verið hagkvæmt að leysa raforkumál Suðvesturlands. Þær skýrslur, sem fyrir liggja frá hæstv. raforkumálaráðh. og raforkumálastjóra, virðast mér taka af öll tvímæli um þetta og það er ekki auðvelt fyrir okkur hér, fyrir hv. alþm., að véfengja tæknilegar niðurstöður þeirra sérfræðinga, sem um þetta hafa fjallað. Til þess höfum við að sjálfsögðu ekki skilyrði. A.m.k. hef ég enga tilhneigingu til þess. En það er hins vegar sjálfsagt og rétt að hlusta á gagnrýni, sem fram kemur á þeim frá öðrum mönnum, sem ástæða er til að hlusta á í slíku sambandi.

Það hefur verið mikið rætt um ísvandamálið í Búrfellsvirkjun og ég ætla ekki að eyða löngu máli í að spjalla um það hér. En því nefni ég það aðeins, að mönnum hefur verið það ljóst, að gera þyrfti ráðstafanir ofan við virkjunina til þess að koma í veg fyrir, að ísvandamálið yrði óviðráðanlegt eða illviðráðanlegt. Það hefur verið gagnrýnt, að ekki hafi verið tekið tillit til nægilega mikilla framkvæmda af slíku tagi í 1. áfanga virkjunaráætlunarinnar. Þess vegna tek ég eftir því, þegar frv. kemur nú fram, að þá hafa verið færðar til allmiklar fjárhæðir í áætluninni frá seinni áföngum til hinna fyrri áfanga verksins, sem þýðir þá væntanlega það, að sérfræðingarnir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að ástæða væri til þess að gera ráð fyrir meiri framkvæmdum í þessu skyni á fyrsta stigi, en upprunalega var áætlað að þyrfti og upprunalega var gert ráð fyrir að nægði að gera á síðara stigi. Þetta er út af fyrir sig gott. Að vísu er það fjárhagslega óhagkvæmt að þurfa að eyða meiri peningum í upphafi. En ef menn hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri nauðsynlegt til þess að tryggja virkjunina, er að sjálfsögðu gott, að það sé gert. Sá sérfræðingur, sem gagnrýnt hefur þessa virkjun og sérstök ástæða er til að hlusta á, er Sigurður Thoroddsen verkfræðingur, sem enginn vefengir, að er meðal okkar færustu sérfræðinga á þessu sviði. Hann hefur látið í ljós þá skoðun, að ráðstafanir til að fyrirbyggja ísvandamálin væru nauðsynlegar, meiri og á fyrra stigi, en upprunalega var gert ráð fyrir. Með þeim breytingum, sem nú hafa verið gerðar á virjkjunaráætlununum, virðist mér, að hafi verið komið til móts við gagnrýni hans og er það vel. En það eru ástæður til þess að vekja athygli á því, að þessi gagnrýnandi, Sigurður Thoroddsen, hefur upplýst það, eins og fram kom, að vísu með dálítið ónákvæmu orðalagi hjá hæstv. ráðh., að hann telji, að þrátt fyrir það, þótt þessar ráðstafanir séu teknar inn í áætlunina, verði Búrfellsvirkjun samt meðal hagstæðustu virkjana, sem við eigum kost á. Þannig held ég, að orðalagið hafi verið hjá þessum sérfræðingi, og á þetta finnst mér sérstök ástæða til þess að hlusta, vegna þess að þarna er um að ræða mann, sem veit, hvað hann er að tala um, og í mínum huga vegur yfirlýsing hans mjög þungt í þessu máli. Ég vil þess vegna lýsa því yfir, að ég er samþykkur þeirri stefnu í virkjunarmálum suðvestanlands, sem fram kemur í þessu frv., þó að einstök atriði frv. þurfi að sjálfsögðu að athuga.

Ég kem þá að því að ræða hitt meginatriði þessa frv., sem er stofnun Landsvirkjunarinnar. Ég skal ekki verða mjög langorður á þessu stigi um einstök atriði í einstökum gr. frv., sem mér finnst ástæða til þess að nefna á þessu stigi. Þessi hluti málsins olli mér sannast að segja dálitlum vonbrigðum. Það var einn málglöggur maður, sem vakti athygli mína á því í gær, þegar við vorum að skoða þetta frv., að Landsvirkjun væri skrifuð með stórum staf, og dró af því þá réttu ályktun, að þetta væri eiginnafn, svona svipað eins og Landssmiðjan, en það segði í sjálfu sér ekkert um það, hvort þetta væri landsvirkjun, hún bara hét það. Landsvirkjunin á vonandi eftir að verða landsvirkjun, þ.e.a.s. eftir að verða það fyrirtæki, sem veitir öllum landsmönnum rafmagn, en eins og þetta frv. liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir öðru í meginatriðum, en að þessi Landsvirkjun taki við hlutverki Sogsvirkjunarinnar, og síðar er gert ráð fyrir því, að Laxárvirkjunin geti einnig komið inn í þetta.

En það eru fleiri aðilar, sem reka virkjanir hér á þessu svæði og á því svæði, sem hlýtur að verða svæði Landsvirkjunarinnar í náinni framtíð, það er t.d. Andakílsárvirkjunin. Ég veit ekki, hvernig á því stendur, að mönnum hefur ekki þótt það henta, að hún væri líka hluti af þessu.

Ég sé, að það er ekki gert ráð fyrir í þessu frv., að það fari í rauninni fram nú á þessu stigi, nein endurskoðun á yfirstjórn okkar raforkumála og virkjunarmála og rafveitumála, sem mér virðist þó vera fullkomin ástæða til þess að skoða í sambandi við svona aðgerðir eins og hér er um að ræða. Raforkulögin eru 20 ára gömul og slíkan lagabálk þarf auðvitað að endurskoða öðru hverju í ljósi þeirra aðstæðna, sem á hverjum tíma skapast.

Það er gert ráð fyrir því, að Landsvirkjunin geti selt raforku í heildsölu til héraðsrafveitna, til rafmagnsveitna ríkisins og til iðjufyrirtækja, að svo miklu leyti sem héraðsrafveiturnar og rafmagnsveitur ríkisins hafa ekki milligöngu um slíka orkusölu. Ég skil þetta þannig, að Landsvirkjunin eigi ekki bara að vera framleiðandi, heldur líka heildsali. En þeir eru fleiri heildsalarnir í raforku. Rafmagnsveitur ríkisins, sem þá kaupa af Landsvirkjuninni, eru ekki smásali, þær eru líka heildsali. Svo koma smásalar þar undir. Þessir smásalar eru svo einstakar rafveitur í kauptúnunum. Mér virðist, að með þessum hætti sé málið kannske gert flóknara ,en þörf væri á og æskilegt væri. Mér virðist, að í þessu sambandi væri æskilegt, að þessi mál öll væru skoðuð. Ég geri mér ljóst, að það er æskilegt að afgreiða þetta frv., áður en þessu þingi lýkur. Það er nauðsynlegt að afgreiða heimild til aukinnar raforkuframleiðslu, áður en þessu þingi lýkur, að sjálfsögðu, og það er kannske enginn tími til þess að fást við þessa hluti, en það þyrfti eigi að síður að gera það fljótlega.

Mér virðist, að ýmsum hafi verið gert ákaflega mishátt undir höfði með þessum hætti, sem hér er gert ráð fyrir og hefur raunar einnig verið þannig, meðan Sogsvirkjunin var við lýði. Reykjavíkurbær kaupir sína raforku af Landsvirkjuninni, er gert ráð fyrir, en Keflavík og Selfoss, Vestmannaeyjar og Hafnarfjörður, stærri bæir, sumir geta kannske keypt hjá Landsvirkjun, aðrir hjá rafmagnsveitum ríkisins, af því að hún þarf í sínum háspennulínum að flytja til þeirra orku. Er þetta ekki óþarflega flókið?

Í þessu frv. er ekki heldur að finna nein ákvæði um stefnuna í verðdreifingarmálum. Það eru ekki ákvæði um það t.d., að það skuli vera verðjöfnun á rafmagni, eins og oft hefur þó verið látið í ljós af ýmsum aðilum og ég held meira að segja, að ég fari rétt með það, að þar á meðal raforkumálastjóri hafi látið í ljós þá skoðun, að það væri eðlilegt. Slík ákvæði er ekki að finna og ekki einu sinni jöfnun á heildsöluverðinu. Mér virðist þó, að það væri full ástæða til í sambandi við mál eins og þetta, að menn gerðu sér a.m.k. grein fyrir þeim þáttum málanna.

Í 6. gr. þessa frv. felst sú virkjunarheimild, sem um er að ræða í frv., en á eftir henni kemur 7. gr. og hún virðist mér þurfa dálítillar athugunar við. Þar segir: „Til byggingar nýrra aflstöðva og aðalorkuveitna þarf Landsvirkjun leyfi ráðherra þess, sem fer með raforkumál.“ Til byggingar nýrra aflstöðva. Hvað er þá átt við með þessu? Í 6. gr. er heimiluð bygging þeirrar aflstöðvar, sem hér er um fjallað og 7. gr. er ákaflega óljós og almenn, því að ekki getur það verið meiningin að fella með þessu úr gildi raforkulögin að því er lýtur að því, sem segir í 1. gr., að ríkinu einu er heimilt að reisa og reka raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl. Réttur sá, sem ríkinu er þannig áskilinn, verður ekki framseldur, nema samþykki Alþingis komi til, enda mun nú líklega meiningin með þessari gr. vera önnur. Það mun vera átt við það, eða ég vona, að það sé átt við það, að til einstakra framkvæmda innan þess ramma, sem 6. gr. heimilar, þurfi leyfi ráðh. En þá virðist mér, að æskilegt væri, að þessi ákvæði væru skýrari og e.t.v. í þessari gr. tekið nánar fram um það, hvernig þessari framkvæmdaáætlun skuli háttað.

Ég vil aðeins benda á það, þó að það skipti ekki miklu máli, að mér virðist 8. gr. rekast algerlega á við 17. gr. Það mun vera gert ráð fyrir því, að 8. gr. falli úr gildi, þegar 17. gr. kemur til framkvæmda, en það væri þó viðkunnanlegra, að það væri einhvers staðar vísað til þess og ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um það.

En í 11. gr. eru nokkur atriði, sem mér virðist ástæða til þess að fara um örfáum orðum. Þar segir, að stjórn Landsvirkjunar ákveði að fengnum tillögum Efnahagsstofnunarinnar heildsöluverð Landsvirkjunarinnar á raforku.

Ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga, að stjórn Landsvirkjunar leiti tillagna Efnahagsstofnunarinnar. Hæstv. ráðh. lét að því liggja hér rétt áðan, að þetta mundi vera gert sérstaklega til þess að halda verði á raforku niðri og er sjálfsagt að taka þá yfirlýsingu til greina. Þar segir svo, að raforkuverðið skuli miðað við það, að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni, sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins og einnig skal að því stefnt, að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgangi, svo að það geti með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum tryggt notendum sínum nægilega raforku. Í þessu er, eins og hæstv. ráðh. tók fram, fólgin nokkur stefnubreyting í verðlagningu raforku í landinu og ég er þeirrar skoðunar, að það sé rétt að fara inn á þá braut, að raforkukerfið geti safnað þannig fé, að það geti endurnýjað sig með eðlilegum hætti með þeim lántökumöguleikum, sem á hverjum tíma eru.

Svo segir í greininni: „Landsvirkjunin gerir orkusölusamninga við rafmagnsveitur ríkisins, héraðsrafmagnsveitur og iðjuver innan þeirra marka, sem segir í 2. gr. Til orkusölusamninga til langs tíma við iðjufyrirtæki, sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, þarf Landsvirkjun leyfi ráðherra þess, sem fer með raforkumál.“

Nú er það þannig, að eins og málum er háttað, er hér aðeins eitt iðjufyrirtæki, sem notar yfir 100 millj. kwst. á ári, en það er áburðarverksmiðjan, sem notar í kringum 140 milljónir kwst., ef hún getur fengið þær, sem því miður er nú ekki alltaf. En við hana ætti þá þetta ákvæði. En auk þess finnst mörgum, að hér skjóti upp kollinum hugmyndin, sem ég drap á áðan, að hér hafi menn það í huga að gera innan skamms stóran raforkusölusamning til stórs notanda. Nú er málum þannig háttað, að til þess að það geti orðið, þarf svo margvíslegar heimildir frá Alþingi, að af þeirri ástæðu þarf sjálfsagt ekki að gera aths. við þetta fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir. Það þarf svo margvíslegar aðrar heimildir frá Alþingi. En eigi að síður mundi mér finnast eðlilegt, að það yrði skoðað og athugað, hvort ekki væri eðlilegt, að raforkusölusamningar af því tagi, þar sem í hlut ættu stórir erlendir aðilar, ættu að fá staðfestingu á því eins og aðrir samningar um önnur efni, sem hugsanlega yrðu gerðir við slíka aðila.

Síðasta setning þessarar gr. hljóðar svo þannig: „Slíkir samningar mega ekki að dómi ráðh. valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið.“ Hér er ákvæði, sem augljóslega er sett í þeim tilgangi að vera okkur áminning þess, að þó að einhvern tíma yrði farið út í það að selja útlendingum mikla raforku, mætti það ekki kosta það, að við hér heima þyrftum að kaupa dýrari orku í staðinn. Af þessari ástæðu tel ég það fyllilega réttmætt að hafa þetta ákvæði þarna, því að þótt Alþ. fái slíka samninga til meðferðar, þá er setning eins og þessi tímabær og góð áminning að hafa þarna. En þó er nú svolitill galli á gjöf Njarðar og hann er sá, að með þessu ákvæði í lögum efast ég um, að áburðarverksmiðjan hefði getað fengið þá orkusölusamninga, sem hún hefur haft undanfarin ár. Menn geta náttúrlega haft sínar skoðanir á því, hvort æskilegt sé að greiða fyrir landbúnaðinum með því, að þjóðfélagið leggi til óhemju ódýrt rafmagn til áburðarframleiðslu og ég skal ekki fara frekar út í það að sinni, en ég vildi, vekja athygli á því, að ég er ekki frá því, að við ættum að hafa þetta atriði í huga, þegar við skoðum þessa síðustu setningu 11. gr., þó að ég sé ekki með því að segja, að gr. eigi ekki fullan rétt á sér, a.m.k. gagnvart öðrum.

Í 13. gr. er ákveðið að fella niður tolla af innfluttum vörum til virkjananna. Ég er samþykkur því, að þetta sé gert. En hér kemur enn einu sinni nýtt undantekningarákvæði í þessum efnum. Af hverju eigum við sífellt að vera með undantekningarákvæði í þessum efnum, þegar við rekum okkur á það hverju sinni, sem gera á eitthvert myndarlegt átak í framkvæmdum, annaðhvort til þess að framleiða vörur til að keppa á útlendum mörkuðum eða til þess að framleiða raforku fyrir okkur sjálfa eins og í þessu tilfelli, — þegar við rekum okkur alltaf á það, að það er ekki hægt að halda því áfram að leggja háa tolla á innfluttar vörur til nauðsynlegustu framkvæmda af þessu tagi? Ég hef svo oft gert þetta að umræðuefni í ýmsu sambandi og ekki sízt í sambandi við umr. um tollamál, sem hér hafa orðið, að ég vil ekki sitja mig úr færi að vekja athygli á þessu líka núna í þessu sambandi, þegar enn einu sinni kemur svona berlega í ljós, að þetta er ekki hægt. Það verður að endurskoða ákvæði tollskrárinnar um tolla á vélum og tækjum og fjárfestingarvörum hlíðstæðum vörum þessum. En þar sem þetta er ákveðið núna í 13. gr. sem enn eitt og nýtt undantekningarákvæði, — við munum eftir kísilgúrverksmiðjunni í fyrra, — þá geri ég ráð fyrir því, að menn geri sér það ljóst, að ef þetta er nauðsynlegt í sambandi við virkjunina, er það nákvæmlega sama nauðsynlegt í sambandi við línulagnir og annað það, sem áhrif hefur á raforkuverðið í landinu. Það er ekki virkjunarkostnaðurinn einn.

Ég skal ekki orðlengja þetta meira að sinni. Þetta frv. fer nú til n. og það þarf þar að fá ýtarlega athugun. Hér er um stórt mál að ræða. Ég vil fagna því, að það er loksins komið fram frv. um nýja virkjun. Það hefði stefnt í hreint öngþveiti, ef það hefði dregizt lengur. Það er þegar orðinn vandi á höndum, eins og hæstv. ráðh. hefur sjálfur upplýst hér og ég líka, að það er orðinn orkuskortur og á eftir að verða meiri, áður en þetta kemst í gagnið. Og það er að sjálfsögðu margt að athuga í sambandi við þetta frv. og það er gott og ánægjulegt, sérstaklega eftir þá frammistöðu sem hæstv. ríkisstj. hefur sýnt í raforkumálum á sínum ferli hingað til, að hún skuli nú,leggja til virkjun og tillögur hennar, þegar þar loksins koma fram, skuli vera með sæmilega mynd arlegum og viðunandi hætti að meginvirkjunarstefnu til.