08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

201. mál, Landsvirkjun

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjhn, þessarar hv. d. hefur haft til meðferðar frv. um Landsvirkjun. Svo sem öllum er kunnugt, hefur tími til athugunar þess verið harla naumur, en fjhn. fékk til viðtals aðaltrúnaðarmenn ríkisins í sambandi við raforkumál, þá raforkumálastjóra og rafmagnsveitustjóra og ræddi við þá ýmis atriði málsins. Hæstv. landbrh. gerði grein fyrir því við 1. umr., hvað í þessu frv. fælist í einstökum atriðum, og frv. fylgir auk þess mjög ýtarleg grg., þar sem einstök atriði þess eru skýrð.

Meginkjarni málsins er það, að lagt verði nú í að gera stærra átak í raforkumálum þjóðarinnar, en nokkru sinni áður hefur verið gert og stefnt að því að virkja í mjög stórum stíl. Hvaða leið nákvæmlega verði valin, er ekki á þessu stigi auðvelt að segja, vegna þess að það er háð ýmsum öðrum atriðum varðandi orkunotkun, en um það atriði er ekkert sérstaklega fjallað í þessu frv., heldur aðeins miðað við, að virkjunin verði það stór, að það rúmi þann möguleika, ef síðar þykir henta af Alþ. að ákveða svo, að sérstakri stóriðju verði komið á laggir til þess að hagnýta orku frá þessari virkjun og með því leggja grundvöll að því, að hægt sé að virkja í stærri stíl og á hagkvæmari hátt, en ella hefði verið.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, nema tilefni gefist til, að rekja málið nánar í einstökum atriðum, aðeins gera grein fyrir því, að n. varð ekki sammála um afstöðu til málsins, þar eð samkomulag náðist ekki um ýmsar brtt., sem fram komu í n. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem fluttar eru á sérstöku þskj. Þær breyt. eru ekki veigamiklar og í rauninni engar efnisbreyt., heldur aðeins til þess að skýra nánar viss atriði frv., sem ýmsum þótti orka tvímælis, þannig að það yrði ljóst, að ekki væri gert ráð fyrir því, án þess að sjálfsögðu að undangengnum samningum, eins og raunar frv. gerir ráð fyrir, að frekari orkuver verði tengd við Landsvirkjun, án þess að sérstakar ákvarðanir verði teknar um það efni. Þetta þótti ýmsum aðilum nauðsynlegt, að væri skýrt betur, sérstaklega þeim aðilum, sem sumir vildu halda, að þetta gæfi Landsvirkjuninni víðtækari heimildir, en í rauninni felst í frv., en breyt. miða allar að því, að það verði ljóst, að það sé ekki um neitt slíkt að ræða og þykir því meinlaust að taka þessa breyt. hér inn.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að ræða um þau grundvallaratriði, sem menn skildi á um að öðru leyti í n. Svo sem hv. þdm. er ljóst, miða brtt. 2. minni hl. að því, að það verði útilokað, að hægt verði að hagnýta þessa landsvirkjun til stóriðju, heldur að hún verði eingöngu miðuð við almenna notkun hér innanlands og án þess að neitt nýtt komi til og er það að sjálfsögðu grundvallarmismunur á sjónarmiðum. Íþ hinu tilfellinu eru ýmsar breyt., sem eru þess eðlis, að það eru ekki talin tök á því með neinu móti að taka þau inn í þetta mál. Það skal hins vegar skýrt tekið fram, að þó að það felist ekki beint í þessu frv., þá felur nafn þess það í sér, að það er stefnan, að áfram verði unnið í þá átt, að hér verði um raunverulega landsvirkjun að ræða. Það er gert ráð fyrir því í frv. um Laxárvirkjun, að heimild sé til tengingar hennar við Landsvirkjun og jafnframt er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að með tímanum, þegar orkuver landsins verða tengd saman, verði að því stefnt að gera þetta að heilsteyptu og samræmdu fyrirtæki með aðild þeirra, sem þá kynnu að koma til greina. Þetta er ekki auðið að gera nú í þessu frv. Eins og það er upp byggt með sérstöku samkomulagi milli ríkisstj. og borgarstjórnar Reykjavíkur, þá þyrftu að koma til miklu viðtækari breyt. varðandi stjórn og skipulag þessara mála, enda er það ljóst, að þetta verður að vinnast í áföngum og enn er ekki fyrir hendi sá skilningur hjá ýmsum orkuveitum, að þessi stefna sé æskileg, sem m.a. kemur fram í því, sem ég áðan sagði, að þær leggja sumar hverjar sérstaka áherzlu á, að það verði ótvírætt, að inn á þeirra verksvið verði ekki farið með þessu frv.

Það er till. meiri hl. fjhn., herra forseti, að frv. verði samþ. með þessum breyt., sem fluttar eru af meiri hl. n. á þskj. 701.