08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

201. mál, Landsvirkjun

Frsm. 2. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Við 1. umr. ræddi ég þetta mál allýtarlega og get því að mestu látið mér nægja að gera grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e. Það er líka þannig, að í meðferð hv. fjhn. á þessu máli hafa ekki komið fram það miklar viðbótarupplýsingar, að tilefni gefist til þess að ræða málið í neinu nýju ljósi og það er bezt að segja það eins og er, að meðferð fjhn. á stórmáli eins og þessu hefur verið þannig, að það er til lítils sóma. Um það er þó ekki fyrst og fremst að sakast við n., heldur er það ríkisstj. og hæstv. raforkumálaráðh., sem ber ábyrgð á þeim vinnubrögðum, sem um hönd eru höfð, þar sem mál eins og þetta er lagt fyrir þingið, þegar vika lifir þingtímans og þó að það sé þá búið að vera á ferðalagi milli ýmissa annarra stofnana og aðila, en eins og kunnugt er, hefur frv. t.d. legið fyrir bæjarráði Reykjavíkur alllengi, áður en hv. alþm, fá að sjá það. Að ætla báðum deildum þings eina viku rúma til þess að afgreiða mál af þessu tagi, er alveg fráleit meðferð á svona stórmáli. En þessi seinagangur á flutningi málsins er raunar í fullu samræmi við frammistöðu hæstv. ríkisstj. í raforkumálum á undanförnum árum.

Ég gerði grein fyrir því við 1. umr. málsins, að ég er samþykkur þeirri stefnu í virkjunarmálum Suðvesturlandssvæðisins, sem lýsir sér í þessu frv. með till. um það, að virkja skuli Þjórsá við Búrfell og það erum við í 2. minni hl. fjhn. Ég ræddi þessa hlið málsins sérstaklega ýtarlega við 1. umr. og sé ekki ástæðu til þess að fara mjög út í það nú.

Hins vegar eru einnig í þessu frv. fólgin ákvæði um skipun raforkumálanna, stofnun svonefndrar Landsvirkjunar og fjölmörg ákvæði í sambandi við það og að þeim atriðum hafði ég gert mér vonir um, að athuganir fjhn. mundu fyrst og fremst beinast. En starf fjhn. í þessu máli var, eins og vonlegt er við þau skilyrði, sem ég áðan var að lýsa, vonbrigði. Eigi að síður er það ljóst, að á frv, eru ýmsir verulegir ágallar. Og við höfum, hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég, flutt á þskj. 709 ýmsar brtt., sem miða að því að lagfæra nokkra af þessum ágöllum.

Okkur virðist, að meginágalli frv. sé sá, að hér er um að ræða landsvirkjun í orði meira en á borði. Ég geri ráð fyrir því eftir ummælum hæstv. raforkumálaráðh. og ýmsu, sem fram hefur komið í sambandi við þetta mál, að menn vilji gjarnan stefna að því, að hér geti orðið um að ræða landsvirkjun í raun og sannleika, en það skortir mikið á, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, leggi grundvöll að því. Við í 2. minni hl. álítum, að það sé nauðsynlegt nú þegar að styrkja frv. að þessu leyti, þannig að það komi greinilegar fram, að það sé stefna þess, að Landsvirkjun nái sem fyrst til allrar þjóðarinnar og það verði til þess að jafna aðstöðu manna í raforkumálum um land allt.

Að svo mæltu skal ég snúa mér að því að gera grein fyrir þeim einstöku brtt., sem við flytjum og mun þá rekja þær í þeirri röð, sem þær koma fyrir í frv. og má ekki skilja það þannig, að í þeirri röð, sem atriðin eru nefnd, fellst neitt mat á þeirri þýðingu, sem við leggjum í þau.

Í 2. gr. frv. er gerð grein fyrir tilgangi Landsvirkjunarinnar. Sá tilgangur er þar skilgreindur í 4 liðum. Nú liggur fyrir brtt frá meiri hl.

fjhn., sem ég geri ráð fyrir, að flutt sé í samráði við hæstv. raforkumálaráðh., um að fella niður einn af þessum liðum og taka hann upp á öðrum stað í frv. lítið breyttan og liggur einnig fyrir till. um það frá þessum sama meiri hl., að í 3. tölulið þessarar gr. komi orðin „rafmagnsveitur sveitarfélaga“ í staðinn fyrir héraðsrafmagnsveitur. Mér er ekki fyllilega ljóst, — fyrir því hefur ekki verið gerð grein, — hvort hér er um að ræða orðalagsmun aðeins eða hvort hér er raunverulega um meiningarmun að ræða. Þar sem stendur héraðsrafveitna hafði ég skilið, að það merkti rafveitur sveitarfélaga, eins og þarna á að setja í staðinn, en ekki héraðsrafveitna ríkisins t.d. Felur þessi breyting í sér það, að þær séu á einhvern hátt undanskildar? Um þetta vildi ég gjarnan fá skýringu hæstv. ráðh.

En okkar brtt. við þessa grein lýtur ekki að þessum atriðum, þótt ég nefni þau svona í framhjáhlaupi, heldur lýtur hún að 4. tölul. þessarar gr., en þar stendur, að það sé tilgangur Landsvirkjunarinnar að annast áætlanagerð um nýjar aflstöðvar og aðalorkuveitur á orkuveitusvæði Landsvirkjunar. Fram að þessu hefur það í samræmi við raforkul. verið hlutverk raforkumálaskrifstofunnar að annast verkefni af þessu tagi. Hér er gert ráð fyrir því, að þessi verkefni séu tekin undan þeirri stofnun og lögð undir þessa nýju Landsvirkjun og þar sem hér er um að ræða áætlanagerð um nýjar aflstöðvar og aðalorkuveitur á langþéttbýlasta svæði landsins, þar sem gera má ráð fyrir, að raforkunotkun og raforkuuppbyggingin verði um langan aldur langmest, sýnist mér, að í þessu sé fólgin mjög veruleg breyting. Ég hafði hins vegar talið það ákaflega nauðsynlegt, að þær áætlunargerðir, sem framkvæmdar kunna að verða á vegum Landsvirkjunarinnar, séu ekki algerlega slitnar úr samhengi við aðra þá áætlunargerð, sem fram fer á vegum þeirrar stofnunar, sem þetta hlutverk hefur haft fyrir landið allt og á hér eftir væntanlega að hafa það fyrir það svæði, sem utan landsvirkjunarsvæðisins liggur. Og við höfum þess vegna talið nauðsynlegt að flytja brtt. um þennan lið, sem tryggi það, að það haldist þó a.m.k. tengsl og samvinna um þessi efni milli Landsvirkjunarinnar og raforkumálastjórnarinnar, og brtt. okkar er sú, að 4. liður verði orðaður þannig: „að annast í samvinnu við raforkumálastjóra áætlunargerð um nýjar aflstöðvar og aðalorkuveitur á orkuveitusvæði Landsvirkjunarinnar.“

Þá flytjum við einnig brtt. við 3. gr. Í 3. gr. kemur á mjög greinilegan hátt fram sá andi þessa frv., sem okkur finnst einna ógeðfelldastur. Í 2. málsl. þessarar gr. segir: „Sýni áætlanir fyrirtækisins“ (fyrirtækið er að vísu ekki með stórum staf, en það er átt við Landsvirkjunina), „að fjárhagslega sé hagkvæmt að leggja aðalorkuveitur frá orkuveitum Landsvirkjunar til annarra orkuveitusvæða, skal einnig heimilt að tengja þau orkuverum fyrirtækisins.“ Í þessum setningum birtist sá skilningur, að það séu áætlanir Landsvirkjunarinnar um það, hvort það sé henni fjárhagslega hagkvæmt að tengja við sig önnur svæði, sem ráða skuli úrslitum um það, hvort svo verði. Auðvitað liggur það í hlutarins eðli, að það tengir enginn nýja notendur inn á kerfi Landsvirkjunarinnar, nema um það séu gerðir samningar og um það sé samið, að orkusala skuli fara fram, enda stendur í framhaldi af þessu, sem ég hef lesið: „Áður en til framkvæmda kemur, skal hafa náðst samkomulag milli hlutaðeigandi aðila um raforkuverð og sölusamningar gerðir.“ Þetta ákvæði er í sjálfu sér eðlilegt og nauðsynlegt, en sá andi, sem fram kemur í þeim málslið, sem ég fyrr las, er á þann veg, að mér virðist ekki, að Alþ. geti með neinu móti á það fallizt.

Það hlýtur að eiga að vera verkefni Landsvirkjunarinnar að verða smátt og smátt landsvirkjun og það sem fyrst, sem útvegi rafmagn handa þjóðinni, fullnægi raforkuþörf landsmanna allra. Og jafnframt álítum við fulltrúar Framsfl. í fjhn., að það sé tímabært að koma á einu raforkuverði um allt land, enda kom sá skilningur fram hjá fjhn.- mönnum öllum, að söluverð Landsvirkjunarinnar á raforku ætti að verða það sama um allt land, þótt ekki væri ákvæði um það í frv. Við teljum hins vegar, að eðlilegt sé, að um það séu ákvæði í þessum l. og við leggjum þess vegna til, að 3. gr. orðist svo, 1. málsl. er óbreyttur þannig: „Starfsemi Landsvirkjunarinnar skal í upphafi beinast að öflun raforku fyrir þau orkuveitusvæði, sem nú eru tengd Sogsvirkjun,“ en síðan komi: „Það er einnig verkefni Landsvirkjunar að fullnægja raforkuþörf allra landsmanna og reisa í því skyni aflstöðvar og aðalorkuveitur eftir nánari ákvörðun Alþ. Sama gjaldskrá fyrir rafmagn frá Landsvirkjun skal gilda um allt land.“

Þannig leggjum við til, að 3. gr. hljóði í samræmi við þær meginreglur, sem ég hef verið að gera tilraun til þess að gera grein fyrir. En við teljum, að það beri að stefna lengra í því að greiða fyrir dreifbýlinu í sambandi við raforku og verðlag hennar og við leggjum því til, að á eftir 3. gr. komi ný gr., sem fjallar um verðlagsmál þeirra, sem taka við orkunni af Landsvirkjuninni, og leggjum við til, að sú grein verði svo hljóðandi:

„Söluverð rafmagns frá rafmagnsveitum ríkisins til héraðsrafmagnsveitna skal vera jafnhátt því verði, sem Rafmagnsveita Reykjavíkur greiðir Landsvirkjun fyrir rafmagn, og verð á rafmagni frá héraðsrafmagnsveitum ríkisins skal vera það sama og rafmagnsverð hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Ríkissjóður greiðir þann halla, sem verða kann á rekstri rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins vegna fyrirmæla þessarar gr.

Hér er ekki um að ræða verðjöfnun, eins og menn sjá, heldur það, að ríkissjóður leggi fram fé til þess að útvega þeim, sem verr eru settir í þessu efni, raforkuna á sambærilegu verði við aðra.

Samkv. upplýsingum, sem fram komu í fjhn., hefur það verið reiknað út, að kostnaður af þessu fyrir ríkissjóð muni ekki verða nein ósköp, þegar litið er á þær tölur, sem nú velta gegnum þann kassa, en sjálfsagt mun þetta þó skipta nokkrum tugum millj.

Næsta brtt., sem við flytjum, er við 7. gr. frv. 1. málsl. í 7. gr. frv. segir, að til byggingar nýrra aflstöðva og raforkuveitna þarf Landsvirkjun leyfi ráðh. þess, sem fer með raforkumál. Síðan segir:

„Áður en byrjað er á nýjum mannvirkjum, hvort heldur eru aflstöðvar eða aðalorkuveitur, skal Landsvirkjun senda ráðh. þeim, sem fer með raforkumál, uppdrætti að hinum fyrirhuguðu mannvirkjum ásamt lýsingu af þeim. Getur ráðh. krafizt þeirra breytinga á fyrirhugaðri tilhögun mannvirkjanna, sem nauðsynlegar kunna að þykja vegna almenningshagsmuna.“

Þessi gr. að undanskildum 1. málsl. er samhljóða ákvæðum í raforkul. og þess vegna er sá hluti gr. í rauninni óþarfur. En 1. málsl. felur í sér töluvert mikla nýjung. Eftir þeim skýringum, sem fengust í fjhn., ber að skilja þennan málsl. þannig, að úr gildi séu felld þau ákvæði raforkul., að til byggingar nýrra aflstöðva og meiri háttar orkuveitna þurfi samþykki Alþ. Fram að þessu hefur það verið mál Alþ. að taka slíkar ákvarðanir, en með þessum ákvæðum, sem hér er um að ræða, ef samþykkt yrðu, afsalaði Alþ. sér því verkefni í framtíðinni í hendur ráðh. Við teljum ekki eðlilegt, að með samþykkt þessa frv. séu gerðar verulegar grundvallarbreytingar á raforkul., þó að ég á hinn bóginn skuli taka það fram, eins og ég gerði við 1. umr. málsins, að ég get vel trúað því, að það sé tímabært að taka þann lagabálk, raforkul., til endurskoðunar. Þau eru orðin nær 20 ára gömul. Það hefur margt skeð á því tímabili og mikilsverð reynsla fengizt í raforkumálum og væri full ástæða til þess að taka þau til skoðunar. En meðan sú athugun fer ekki fram, getum við ekki fallizt á, að einstökum þýðingarmiklum atriðum raforkul. sé breytt með löggjöf eins og þessari, án nokkurs samhengis við önnur ákvæði raforkulaganna og skipan þeirra mála í heild. Þess vegna leggjum við til, að þessi 1. málsl. 2. gr. falli niður. Við leggjum ekki til, að gr. öll falli niður, þó að það hefði hins vegar haft sömu þýðingu, vegna þess að síðari hl. hennar er í raforkul., en þau ákvæði mega þá gjarnan vera í tvennum lögum. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli.

Ég kem þá að brtt. þeim, sem við flytjum við 11. gr. 11. gr. frv. er mjög þýðingarmikil gr., sem verður að gefa góðan gaum að. í þeirri gr. er lögð ný grundvallarstefna í verðlagsmálum raforkukerfisins í landinu. Fram að þessu hafa verið í gildi ákvæði um það, að raforkuverð skuli miðað við raunverulegan framleiðslukostnað að viðbættri tiltölulega lágri prósentu, sem að mínum dómi og auðvitað margra annarra, þar með sjálfsagt þeirra, sem samið hafa þetta frv., hefur verið of lág til þess, að í raforkukerfinu gætu myndazt þeir sjóðir, sem þörf er á að verði til.

Hitt er auðvitað jafnnauðsynlegt, að þegar skipt er um stefnu í þessum málum, þannig að sjóðsmyndun geti átt sér stað, sé farið í það svo hóflega, að ekki verði snögg breyting á og allt í einu sé tekið að hlaða upp sjóðum, sem gera það að verkum, að raforkuverðið verði óeðlilega hátt á næstu árum. Þetta þarf auðvitað að framkvæmast með hófsemi og fullkomnu tilliti til hagsmuna hinna almennu raforkunotenda líka. En ég get vel fellt mig við þessa stefnubreytingu og er henni samþykkur með þeim fyrirvara, að framkvæmdin verði með skynsamlegum hætti. En hjá hverjum liggur þá það vald að framkvæma þetta með skynsamlegum hætti? Í þessari 11. gr. segir: „Stjórn Landsvirkjunarinnar ákveður að fengnum till. Efnahagsstofnunarinnar heildsöluverð Landsvirkjunar á raforku“ Það er sem sagt gert ráð fyrir því að leggja það algerlega í vald stjórnar þessa fyrirtækis, sem ríkið einu sinni hefur alls ekki meiri hluta í, hvert verð skuli vera á raforku í landinu eða á orkuveitusvæði Landsvirkjunarinnar, sem er langstærsta raforkusvæði landsins. Við verðum að gera okkur það ljóst, að stjórn þessa fyrirtækis, sem hefur það hlutverk að sjá hagsmunum þess borgið, tekur sínar ákvarðanir út frá öðrum sjónarmiðum en þeim, sem ég tel nauðsynlegt, að hér komi einnig til greina. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að hér er um einokunarfyrirtæki að ræða, sem eðli málsins samkvæmt hefur ekki og getur ekki haft samkeppni. Og þegar um fyrirtæki er að ræða af því tagi, virðist mér nauðsynlegt, að ríkisvaldið hafi einhverja möguleika á því að stemma stigu við, að verðið sé spennt upp úr öllu valdi. Ég treysti t.d. hæstv. raforkumálaráðh. mjög vel til þess að sjá um, að svo verði gert, en samkv. þessu frv., ef að l. verður, hefur hann ekki heimild til þess. Það er ekki einu sinni gert ráð fyrir því í þessu frv., að ráðh. skuli staðfesta gjaldskrá fyrirtækisins. Þó getur ekki ein einasta héraðsrafveita úti um land gefið út gjaldskrá, nema ráðh. staðfesti hana og hún sé birt í Stjórnartíðindum með undirskrift hans. Þetta virðist mér, að nái ekki neinni átt. Við flytjum þess vegna brtt. um það, að á eftir 1. mgr. þessarar gr. bætist þessi setning: „Ráðh. sá, sem fer með raforkumál, staðfestir gjaldskrár Landsvirkjunar.“ En áður en að þessu kemur, er ein smávægileg, en kannske ekki alveg þýðingarlaus breyting, sem við gerum líka till. um, og hún er í upphafi þessarar gr.

Þannig var, að við 1. umr. þessa máls gerði hæstv, raforkumálaráðh. grein fyrir því, að ástæðan til þess, að Landsvirkjunin skyldi fá till. Efnahagsstofnunarinnar, áður en hún ákvæði heildsöluverð á raforku, væri sú, að Efnahagsstofnuninni væri ætlað að koma á framfæri við þessa stjórn skoðunum um það, hvaða áhrif breyting á rafmagnsverðinu hefði á verðlagið í landinu, vísitölu o.s.frv., þannig að þau sjónarmið, sem er nauðsynlegt, að þarna komi einnig til greina, — hagsmunir raforkunotendanna, — fengju þá a.m.k. að komast á framfæri. Þegar þessi sjónarmið, sem þarna komu fram frá hæstv. ráðh., eru höfð í huga, virðist okkur, hv. 1. þm. Norðurl. e. og mér, að það væri eðlilegra, að sú stofnun, sem fjallar um verðlagsútreikninga, vísitölureikninga og annað slíkt, kæmi þarna við sögu, nefnilega hagstofan, en ekki Efnahagsstofnunin, sem er í rauninni ekkert annað en afgreiðsluskrifstofa hjá hæstv. ríkisstj., en er ekki sjálfstæð stofnun með lögum eins og hagstofan er. En að sjálfsögðu væri þá ekki óeðlilegt, einmitt af því að svona er háttað, að hæstv. ráðh. hefði samband við Efnahagsstofnunina um þessi mál, þegar hann þarf að staðfesta gjaldskrá virkjunarinnar, eins og við leggjum til.

Síðasta brtt. okkar er við síðari mgr. þessarar gr. Í þessari mgr. segir, að Landsvirkjunin geri orkusölusamninga við rafmagnsveitur ríkisins, héraðsrafmagnsveitur og iðjuver innan þeirra marka, sem segir í 2. gr. Í sjálfu sér sjáum við ekki neinn sérstakan tilgang með þessari setningu. Síðan er haldið áfram: „Til orkusölusamninga til langs tíma við iðjufyrirtæki, sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, þarf Landsvirkjunin leyfi ráðh. þess, sem fer með raforkumál. Slíkir samningar mega ekki að dómi ráðh. valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna, en ella hefði orðið.“ Þessi mgr. virðist okkur afar ófullkomin og væri mikil þörf á að bæta hana. Okkur virðist 1. málsl. hennar alveg óþarfur og við leggjum til, að gr. orðist svona:

„Til orkusölusamninga til langs tíma við iðjufyrirtæki, sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, þarf Landsvirkjun samþykki Alþ.“

Þegar inn er komið ákvæðið um það, að samþykki Alþ. komi til, virðist okkur, að síðasti málsl. gr. sé ekki nauðsynlegur og legg ég því til, að gr. orðist svona eins og ég hef lesið. Þegar við tölum um iðjufyrirtæki, sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, kemur tvennt upp í hugann. Annars vegar það eina fyrirtæki, sem nú er hér í landinu, sem notar svona mikla raforku, nefnilega Áburðarverksmiðjan. Verðlagning á rafmagni til Áburðarverksmiðjunnar er í rauninni stórpólitískt mál. Sú verðlagning hefur áhrif á landbúnaðarvöruverð, þ.e. á verðlagið, eins og við allir þekkjum. Okkur virðist þess vegna ekki óeðlilegt, að Alþ. fjalli um það, hvernig orka er verðlögð til Áburðarverksmiðjunnar. Hitt, sem kemur upp í hugann í þessu sambandi, er það umtal, sem nú er um orkufrekan iðnað, en í sambandi við það — a.m.k. það tilfelli, sem nú er rætt um — virðist ekki sérstök ástæða til að fara út í efni þessarar gr., þar sem fyrir liggur þegar frá hæstv. ríkisstj. yfirlýsing um það, að hugsanlegir orkusölusamningar við slíkt fyrirtæki mundu verða lagðir fyrir Alþ. hvort eð er. En að sjálfsögðu veit maður ekki, hvað kynni að ske siðar í þeim efnum og alla vega virðist mér það eðlilegt, ekki sízt með tilliti til þess, sem ég sagði um Áburðarverksmiðjuna, að endanlegt ákvörðunarvald í þessu efni, þegar um svona mikla orkusölu er að ræða, sé í höndum Alþingis.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim brtt., sem við í 2. minni hl. n. flytjum á þskj. 709, skal ekki lengja ræðu mína meira. Ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi, að meðferð málsins er við þau skilyrði, sem hæstv. ríkisstj. hefur búið Alþ., ekki fullnægjandi og raunar tæplega viðunandi. Við höfum allir hv. þm., sem um þetta mál höfum fjallað, t.d. í fjhn., reynt að gera okkar bezta á þessum stutta tíma til þess að finna einhvern botn í því spurningaflóði, sem kemur upp í hugann í þessu sambandi, en það er takmarkað, hvað hægt er að gera. Þessu frv. var, eins og menn muna, útbýtt hér á mánudaginn, tekið fyrir til 1. umr. á þriðjudag og er nú, að því er mér skilst, meiningin hjá hv. meiri hl. að reyna að afgreiða frv. frá þessari d. í dag. Þó að frv. sé ófullkomið, og því þurfi að breyt, og þó að undir hælinn sé lagt, hvað af þeim leiðréttingum, sem við í minni hl. höfum lagt til, nái fram að ganga, vil ég þó enda þessi orð mín með því að láta í ljós þá von mína, að sú Landsvirkjun, sem hér er stofnað til og óneitanlega er merkilegt skref í sögu raforkumála okkar, megi verða okkur landsmönnum öllum til hagsbóta og megi verða til þess að flýta fyrir því, að landsmenn njóti allir raforku á hagkvæmum kjörum og að atvinnulíf og lifnaðarhættir manna megi batna, eins og þeir hafa gert, við sívaxandi orkuframleiðslu og orkunotkun, en eins og kunnugt er, þá leiða bættir lifnaðarhættir af sér stóraukna orkunotkun. Það er reynsla allra þjóða og okkar líka og ég vona, að þetta skref, sem hér er stigið, þótt ófullkomið sé, verði þjóðinni til farsældar.