08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

201. mál, Landsvirkjun

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil nú þakka hv. fjhn. fyrir það, að hún hefur unnið af alúð við það að afgreiða þetta frv. Það hefur verið kvartað undan því, að það sé ófullkomið. Það hefur verið kvartað undan því, að tíminn væri naumur til þess að gera sér grein fyrir svo viðamiklu máli. Vitanlega er þetta frv. á einhvern hátt ófullkomið, eins og öll mannaverk og líklega flest frv., sem lögð eru fyrir hv. Alþ. og eins og flest lög, sem eru afgreidd frá Alþ. Ekkert er talið svo úr garði gert, að það megi ekki betrumbæta og þess vegna er öðru hverju verið að breyta l., vegna þess að reynslan sýnir, að það má betur fara en í upphafi var gert. Og ég efast ekkert um, að þannig verður það með þetta frv., að þegar til reynslunnar kemur, þykir að sjálfsögðu nauðsynlegt að breyta einhverjum ákvæðum þessara l. En aðalatriðið er það, að hv. Alþ. hefur nú notað tímann til þess að kynna sér þetta mál og að baki þessa frv. liggur mikil vinna. Það hefur verið mikið unnið að virkjunarrannsóknum í landinu á undanförnum árum og ég held, að það megi ásaka ríkisstj. frekar fyrir eitthvað annað en það, að hún hafi sýnt tómlæti í því. Það hefur verið varið miklum fjármunum til þess að gera sér grein fyrir því, hvað er hagkvæmast og hvað er bezt til virkjunar í landinu. Og að þeim niðurstöðum fengnum hefur það verið valið, sem nú er um að ræða, að virkja við Búrfell og lengi voru sérfræðingar ekki á einu máli um það, hvar hentugast væri að virkja. Einn af okkar ágætu verkfræðingum, sem er vanur og sjálfsagt er að hlusta á, Sigurður Thoroddsen, var í fyrstu vonlítill um, að það væri heppilegt að ráðast í Þjórsárvirkjun vegna ísvandamálsins. En við enn nánari athugun hefur Sigurður látið í ljós, að þrátt fyrir ísvandamálið verði virkjun við Búrfell það hagstæðasta, sem við nú höfum völ á. Og þegar sérfræðingar okkar líta þannig á, höfum við ekki á öðru að byggja og mér leiddist að hlusta á það hér áðan hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., hvernig hann hagaði orðum sínum um þessa sérfræðinga okkar. Sennilega hefði hann viljað undanskilja og hefur kannske undanskilið Sigurð Thoroddsen. En við verðum að treysta því, að það, sem sérfræðingar okkar og aðrir leggja til í þessu efni, sé það hagstæðasta. Og skýrslur, sem eru prentaðar hér með frv., virðast vera alveg ótvíræðar í þessu efni. Ég ætla ekki að fjölyrða um það eða fara nánar út í þau efni, en ef við eigum að ganga fram hjá sérfræðingunum og bera það á borð, að þeir fari með blekkingar, jafnvel vísvitandi, neiti upplýsingum og staðreyndum fyrir hv. Alþ., eins og jafnvel gefið hefur verið í skyn, þá finnst mér, að umr. sé komin á það stig, sem ekki ætti að vera. En ekki meira um það, það hefur verið lagt til að gera nokkrar breytingar á frv., og það er eðlilegt að ræða þær nokkuð.

Hv. 6. þm. Sunnl. gerði grein fyrir brtt., sem hv. 2. minni hl. ber fram á þskj. 709 og það getur vitanlega orkað tvímælis, hvort sumar þessara brtt. eru til bóta eða ekki, — ég segi: orkað tvímælis. Mér virðist ekki, að þær séu til bóta og má vera, að það sé vegna þess, að ég hef ekki gert mér nægilega grein fyrir því. En í sambandi við þá brtt., sem hv. minni hl. flytur við 2. gr., þar sem er spurt að því, hvort það eigi að taka undan raforkumálaskrifstofunni og slíta algerlega úr tengslum rannsóknir og áætlanagerðir á milli Landsvirkjunar og raforkumálaskrifstofunnar, þá vil ég aðeins segja það, að það er alls ekkí meiningin og landsvirkjunarstjórn annast ekki áætlanagerð á öðrum virkjunum en þeim, sem hún ætlar sér að ráðast í og örugglega verður það í sambandi við raforkumálastjórnina, enda ekki hjá því komizt, þar sem raforkumálastjórnin liggur með margs konar fróðleik og gögn vegna þeirra rannsókna, sem þegar er búið að vinna og það má þess vegna segja, að það er alls ekki ætlazt til, að þetta samband sé slitið.

Við 3. gr. er gerð einnig brtt. og þar er gerð till. um, að það verði eitt og sama raforkuverð. Ég er sannfærður um að, að því kemur, að það verði verðjöfnun á rafmagni, með hvaða hætti sem það verður. Það er vitanlega hægt að gera á tvennan hátt. Það er hægt að framkvæma það með því að borga úr ríkissjóði með þeim rafveitum, sem bera sig verst. Það er hægt að gera það með því að hækka orkugjaldið hjá þeim rafveitum, sem standa bezt að vígi. En ég hygg, að jafnvel þótt hv. alþm. væru á einu máli um, að það ætti að koma á verðjöfnun, eigi það ekki heima í þessu frv. Um það þyrftu að koma önnur lög og ég held, að við ættum að athuguðu máli að geta orðið sammála um, að það eigi betur heima í sérstökum l. en þessum l., jafnvel þótt menn teldu það tímabært og væru sammála um, að þetta ætti að koma.

Við 7. gr. er einnig gerð brtt., þar sem talað er um, að til byggingar nýrra aflstöðva og aðalorkuveitna þurfi leyfi ráðh., en áður hafi þetta verið í höndum Alþ. Þetta hlýtur að halda áfram að koma til Alþ., því að venjulega eru slíkar framkvæmdir gerðar fyrir lánsfé og það þarf lánsheimildir. Þess vegna hlýtur þetta að koma áfram í einu eða öðru formi til Alþ.

Og síðan er brtt. við 11. gr.,og er það verðlagningin á raforkunni. Það er rétt, að þarna er brugðið út frá því, sem verið hefur. Eins og allir vita, hefur verið ákveðið, að raforkan skyldi seld með kostnaðarverði frá Sogsvirkjun að viðbættum 5%. Flestir eru nú á þeirri skoðun, að þarna hafi verið of þröngur stakkur sniðinn og ekki hægt að byggja upp fyrirtækið eins og nauðsyn bar til. En það er ekki meiningin með 11. gr., þótt hún sé orðuð eins og hér, að raforkuverðið verði látið rjúka upp úr öllum skorðum, því að raforkuverðið heldur áfram að hafa áhrif á efnahagsmálin og efnahagskerfið. Raforkuverðíð verkar það þungt í vísitölunni, að því hlýtur að verða stillt í hóf. Það er sagt: Hvernig á þessi bremsa að verka, þar sem þetta er sett í hendur landsvirkjunarstjórnar? Hún á að setja verð á raforkuna eftir að hafa fengið till. frá Efnahagsstofnuninni, en ekki samkv, till. Efnahagsstofnunarinnar. — Þá er því til að svara, að fulltrúar ríkisstj. í landsvirkjunarstjórn eru nú fyrir hendi og Efnahagsstofnunin og fulltrúar ríkisstj. og formaður stjórnarinnar, sem að einhverju leyti ætti að vilja þjóna hagsmunum efnahagskerfisins, þótt borgarstjórnarfulltrúarnir gerðu það ekki, sem er nú ekki ástæða til að ætla að þeir vilji ekki, þá held ég, að það sé óþarft að gera því skóna, að þessar bremsur haldi ekki sæmilega. Það er vitanlega hreint matsatriði, hvort það ætti að vera hagstofan eða Efnahagsstofnunin, sem reiknar þetta út. Því er vitanlega alveg eins vel borgið hjá hagstofunni eins og Efnahagsstofnuninni. En það hefur verið sett Efnahagsstofnunin inn í frv. Hv. 6. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að hún væri sjálfstæð stofnun. Það er rétt, hagstofan er ekki sjálfstæðari stofnun, en Efnahagsstofnunin annast útreikninga fyrir ríkisstj. og er nokkurs konar deild í stjórnarráðinu og þess vegna er nú ekkert óeðlilegt, þótt hún annist þetta.

Um verð á raforku til iðjufyrirtækja, þá hefur verið minnzt hér á Áburðarverksmiðjuna. Þegar orkusölusamningurinn til Áburðarverksmiðjunnar var gerður á sínum tíma, var hann ekki lagður fyrir Alþ., en tókst vel á milli Sogsstjórnar og stjórnar Áburðarverksmiðjunnar og Áburðarverksmiðjan fékk lágt orkuverð, vegna þess að það var gert ráð fyrir, að hún notaði mest umframorkuna og hefur þetta gefizt vel. Og vitanlega eru það ekkert síður hagsmunir neytenda í þjóðfélaginu, en bænda, að áburðarverðinu verði stillt í hóf og er þess vegna nauðsynlegt, að Áburðarverksmiðjan geti fengið ódýra orku áfram, eins og áður:

Alúminíumverksmiðjan er ekki á dagskrá í dag, hún var það í gær, en það hefur kannske af eðlilegum ástæðum blandazt hér dálítið inn í málið, en eins og hv. 6. þm. Sunnl. sagði hér áðan, er það vitað mál, að verði gerður orkusölusamningur við hugsanlega alúminíumverksmiðju, verður sá samningur lagður fyrir Alþ., þannig að það þarf ekkert að óttast um það, ef til slíkra samninga kemur.

Hv. meiri hl. hefur gert hér smávægilegar breytingar og hv. 6. þm. Sunnl. gerði fsp. um það, hvort hér væri aðeins um orðabreytingar að ræða eða hvort það væru efnisbreytingar. Ég held, að það séu nú í rauninni ekki efnisbreytingar, en ástæðan til þess, að þessar orðalagsbreytingar voru gerðar, eru óskir nokkurra rafveitustjóra. Þeir telja sig öruggari um það að hafa orðalagið rafveitna sveitarfélaga en héraðsrafmagnsveitna, en þetta þýðir það sama og hvort orðið sem hefði verið notað gaf það heimild til þess, að sveitarafveiturnar gætu fengið milliliðalaust keypta raforku í heildsölu frá Landsvirkjuninni og það er það, sem fyrir þeim vakir. En ég hef rætt við þessa rafveitustjóra og þeir eru ánægðari með þetta orðalag og telja sinn rétt betur tryggðan, með því en eins og var og þess vegna er þessi breyting gerð.

Eins var það, að það fór í taugarnar á þeim, þegar talað var um í 2. gr. frv., eins og það var upphaflega orðað, að yfirtaka með samningum orkuver, það væri beinlínis tilgangur: Þess vegna var 2. liður 2. gr. felldur niður og þessu orðalagi breytt og bætt við 3. gr., þannig að Landsvirkjun er heimilt í samningum að kaupa orkuver. En ég tel, að þarna sé ekki heldur um neina efnislega breytingu að ræða, því að þegar sagt er: að yfirtaka með samningum, þá verður það ekki gert nema semjist um það. En þessar breytingar eru gerðar eftir óskum rafveitustjóra.

Hv. 1. minni hl. hefur einnig flutt brtt., sem hv. 4. þm. Norðurl. e. lýsti og ég verð að segja það, að mér finnst ekki hægt að fallast á þær. Þegar hv. þm. leggur til, að heimild um virkjun sé aðeins bundin við 70 þús. kw, þá veit ég ekki, hverju hann er að fullnægja, nema þá að tryggja það, að það sé engin orka aflögu til annarra, en landsmanna sjálfa. En jafnvel þótt ekki semjist við Swiss Aluminium, kemur að því, að við þurfum að virkja upp í 210 þús. kw við Búrfell. Ef ekki verður samið um alúminíumverksmiðju, byrjum við að virkja 70 þús. kw. og það verður hagstæðara að prjóna þar við, t.d. 35 þús. kw í einum áfanga, ef þetta er aðeins fyrir landsmenn sjálfa, heldur, en fara að virkja smávirkjun, hvort sem það er Kláffoss, Hveragerði eða Brúará. Þess vegna er það, að þegar það er viðurkennt af sérfræðingum okkar, að virkjun við Búrfell sé það hagstæðasta, verður heppilegast fyrir okkur að halda okkur að því að virkja þar 210 þús. kw., en þegar því er lokið, kemur vitanlega til athugunar, hvort það á að fara í smávirkjanir, þær beztu, sem fyrir hendi eru eða hvort það reynist hagstæðara að virkja t.d. við Hrauneyjafoss eða Tungnaárkrók, en þar má gera stórvirkjanir, en rannsókn um það er ekki það langt á veg komið, að hægt sé að segja til um, hvað þessar virkjanir mundu kosta eða hvort Laxárvirkjunarstjórnin gengur inn í Landsvirkjunina og verður lagður strengur norður og þá kannske virkjað fyrir norðan næst, eftir að búið er að virkja 210 þús. kw í Þjórsá. En aflið í Þjórsá einni er nokkuð á aðra millj. kw og virkjunarstaðirnir alls ekki kannaðir allir eins og vera skyldi til þess að fullyrða í dag um það, hvað næst verður hagstæðast. En eitt ættu menn að vera sammála um, að það verður hagstæðast fyrir okkur, eftir að við erum búnir að virkja 70 þús. kw, þótt það verði þannig farið að, að halda áfram þangað til fullvirkjað er við Búrfell. Þess vegna þurfum við ekki í dag heimildir til smávirkjana, um leið og við ætlum okkur að fara að virkja við Búrfell og hvað sem um ísvandamálið er að segja, liggur það fyrir frá sérfræðingum okkar, að virkjun við Búrfell sé það hagstæðasta.

Það hefur verið talað um, að hv. alþm. hafi ekki fengið nægilegar upplýsingar í hv. fjhn., og eru mér það mikil vonbrigði, þar sem sérfræðingar voru þar kallaðir til, til þess að gefa upplýsingar, sem fyrir hendi eru. Og ég efast ekki um, að þeir hafi svarað því, sem máli skipti og ég efast ekki um, að þessir ágætu alþm., sem hér hafa talað og kvartað um að hafa ekki fengið svör við spurningunum, ég held, að þeir hafi nú, þessir ágætu nm. og aðrir hv. alþm. gert sér gleggri grein fyrir hlutunum, en þeir jafnvel vilja vera láta og fengið svör.

Það hefur verið kvartað undan því, að það liggi ekki fyrir rekstraráætlanir, að því sé neitað að gefa alþm. upplýsingar um það, sem fulltrúar í borgarstjórn hafi og í tilefni af þessu ræddi ég við Eirik Briem í dag og spurði hann að því, hvar sú áætlun væri, sem fulltrúar í borgarstjórn hefðu fengið. Það vissi hann ekki um, hann vissi ekki um, hvaða áætlun það væri. Ég hringdi þá í borgarstjórann í Reykjavík, Geir Hallgrímsson og hann sagði, að Hjörleifur Hjörleifsson, sem er framkvstj. Rafmagnsveitu Reykjavíkur, hefði gert lauslega rekstraráætlun og það var sú áætlun, sem fulltrúar í borgarstjórn fengu. Sú áætlun var ekki gerð á vegum raforkumálastjórnarinnar og sú áætlun var vitanlega mjög lausleg, því að hvernig á að gera nákvæma rekstraráætlun, meðan ekki er vitað, með hvaða raforkuverði á að reikna? Það er vitanlega vel hægt að búa til dæmi og búa til forsendur og gera upp dæmið út frá því og hugsa sem svo: Ef rafmagnið kostar þetta, ef við seljum rafmagn t.d. á sama verði eftir að búið er að virkja og það kostar nú frá Sogsvirkjun, er útkoman þessi.

Ef við t.d. hækkuðum það um 5%, 10% eða 15%, er útkoman þessi. Það er hægt að setja svona dæmi upp og Eiríkur Briem setti upp hérna dæmi, sem vitanlega er mjög lauslegt og ekki hægt að byggja á því nema að takmörkuðu leyti, en hann segir hér: Séu virkjuð 70 þúsund kw og án alúminíumverksmiðju, þá væri hægt að leggja í sjóð eins og Sogsvirkjunin gerir núna, þ.e. 18.5 millj. 1966, 22.5 millj. 1967, 26 millj. 1968, 27 millj. 1969, þá er virkjunin komin í gagnið, 15.5 millj. 1970, 12.5 1971, 0.5 1972, 12.5 1973, 25.5 1974 og 24 millj. 1975, þannig að með 70 þús. kw virkjun er hægt að leggja í sjóð árlega nokkuð svipað og gert hefur verið hjá Sogsvirkjun án þess að hækka rafmagnið. En hagur þessarar virkjunar batnar svo, þegar frá liður, þannig að 1976 kæmu 33.5 millj., 1977 57.5 millj. og 1978 74.5 millj., 1979 77 millj. og 1980 90 millj., þannig að eins og sagt hefur verið er Búrfellsvirkjun, 70 þús. kw. mjög hagstæð, ef litið er á 15–16 ár, þannig að það eru 360 millj., sem það gefur meira á 15–16 ára tímabili, heldur en smávirkjanirnar. Og þess vegna er það, að Búrfellsvirkjun án alúminíumverksmiðju er betri en smávirkjanirnar og það þurfum við ekki að deila um, af því að tölurnar tala alveg um það. En það, sem mestu máli skiptir, er það, að þrátt fyrir þessa lauslegu áætlun, sem ég er hér með og er áreiðanlega ekki lauslegri eða lakar unnin af Eiríki Briem, en af Hjörleifi Hjörleifssyni, er það, að við höfum hér í frv., fskj., sem fylgja frv., áætluð rekstrarútgjöld og við höfum hér í fskj., sem eru prentuð með frv., alveg ákveðið, hvað kwst. kostar á hverju virkjunarstigi og hvað virkjað kw kostar og það eru vitanlega fastir punktar, sem hægt er að byggja á. Úr því að við vitum, hvað kostar að virkja hvert kw og hvað hver kwst. kostar, eigum við að geta gert okkur grein fyrir því, hvað er hagkvæmast. Ég held, að það sé hægt með einni óþekktri frekar en tveimur að fá nokkuð rétta útkomu úr dæminu, einmitt að byggja á þessum föstu punktum og þess vegna er það, að ég vænti þess, þegar hv. alþm. athuga málið alveg ofan í kjölinn, að þeir sannfærist um, að ríkisstj. eða raforkumálastjórnin hefur ekki viljað leyna upplýsingum, hefur engu að leyna, heldur óskar eftir því að leggja spilin á borðið. Og þess vegna er það heldur leiðinlegt, þegar hv. 4. þm. Norðurl, er að gefa það í skyn, að ríkisstj. hafi löngun til þess að blekkja í þessu máli og halda leyndum upplýsingum. Ég vænti þess, að hv. þm. meini ekki það og ósjálfrátt hafi þetta komið í sambandi við alúminíummálið, sem var honum svo ríkt í huga.

En í sambandi við þessa virkjun og þetta frv. finnst mér alls ekki ástæða til þess að ræða alúminíummálið. Þetta frv., ef að lögum verður, gerir það að vísu mögulegt að selja raforku til annarra, en landsmanna sjálfra, ef það er virkjað fljótt svo stórt. En það er alveg öruggt, að það verður ekki gerður orkusölusamningur við alúminíumverksmiðju nema að leggja hann fyrir Alþ. og gefa hv. Alþ. tækifæri til að segja sitt um það og það er alveg öruggt, að ríkisstj. hefur ekki ákveðið að gera samning við Swiss Aluminium. Ríkisstj. hefur leitað eftir samningum og ríkisstj. hugsar sér að leita eftir því, hvort hugsanlegt væri að fá hagstæða samninga og afstaða manna, hvort sem þeir eru í ríkisstj. eða ekki, til þessa máls hlýtur að mótast af því, hvort við eigum kost á samningum, sem eru okkur samboðnir, sem geta verið þjóðinni til hagnaðar. Það er það, sem hlýtur að ráða afstöðu Íslendinga í þessu máli. Þess vegna finnst mér það undarlegt, ef einhver vill segja í dag: Ég er með því að semja við Svisslendinga, — eða: ég er á móti því að semja við Svisslendinga. — Ég held, að það hljóti að vera eðlilegast að segja: Afstaða mín fer eftir því, hvernig samninga við getum fengið. — Og ég hafði eiginlega vænzt þess, að þannig væri einnig með hv. 4. þm. Norðurl. e., að hann væri ekki fyrir fram ákveðinn, heldur vildi bíða og sjá, hvers konar samninga menn eiga kost á að fá. Ég held, að það sé alveg skakkt ályktað hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., að aðstaða okkar til samningaumleitana sé verri við það, að við höfum heimild til þess að virkja stærra, heldur en smærra. Það er alveg öfugt, það breytir engu í þessu máli.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira. Ég veit, að hv. alþm. hafa kynnt sér þetta mál og ísvandamálið er viðurkennt, að það sé fyrir hendi. En það, sem mestu máli skiptir, er það, að sérfræðingar okkar allir, sem við höfum talað við, telja, að þrátt fyrir ísvandamálið sé þetta hagstæðasti virkjunarstaðurinn og norsku sérfræðingarnir, sem hér hafa verið, og oft hefur verið vitnað í, hafa sagt í mín eyru, að þrátt fyrir ísvandamálið sé engin ástæða til annars, en að hefjast handa, því að það sé leysanlegt og þá vitanlega með hætti, sem gerir ekki þessa virkjun óhagstæðari en svo, að það sé þrátt fyrir þetta það bezta, sem völ er á.