08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

201. mál, Landsvirkjun

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki vera langorður. Ég hef áhuga á því eins og fleiri, að þessi fundur þurfi ekki að dragast úr hömlu, en það eru aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. ráðh., sem þó verða því færri, sem hann hafði raunverulega minna að segja um mína ræðu og í raun og veru ekkert, sem hnekkti nokkru, sem máli skipti í því, sem ég sagði.

Hann var að tala um, hæstv. ráðh., að ég hefði verið með leiðinlegar getsakir í garð okkar ágætu sérfræðinga, sem við verðum allir að treysta og trúa, því að annað væri ekki sómasamlegt af okkar hálfu. Ég neita því alveg, að ég hafi verið með nokkrar getsakir í þeirra garð. Ég taldi upp 5 eða 6 atriði, sem sýndu greinilega, vægast sagt, afskaplega mikla ónákvæmni, hvernig áætlanirnar hefðu verið að breytast frá mánuði til mánaðar, jafnvel svo stórfelldir hlutir eins og samanburðarviðmiðanir breyttust úr 800 millj. í 400 millj. frá því í október þangað til í maí og fleira taldi ég upp af svipuðu tagi, sem ég ætla ekki að endurtaka. Við þessu hafði ráðh. engin önnur svör heldur en þau, að við yrðum að trúa sérfræðingunum. En ég vil bara spyrja hann: Hvaða fullyrðingum þeirra eigum við að trúa, þeim sem þeir fluttu í gær eða þeim sem þeir flytja í dag? En mig undrar það í sjálfu sér ekki, þó að hæstv. ráðh. gæti ekki gert miklar aths. við þetta, því að ég held, að það hafi ekki verið beint þægilegt.

Þá reyndi hæstv. ráðh. að skýla sér á bak við Sigurð Thoroddsen um það, að Búrfell væri tvímælalaust með hagstæðustu virkjunum þrátt fyrir allt ísvandamálið. Ég hef nú ekki heyrt Sigurð Thoroddsen segja þetta og hef ég þó rætt þetta mál við hann og ég get upplýst það, sem ég fór með hér áðan, að samkv. þessum tölum, sem hér eru bornar fyrir okkur, mætti ísvandamálið ekki kosta meira en 165 millj, til þess að fara að hallast á þá hliðina, að smávirkjanaleiðin væri betri. Þessa tölu hef ég frá Sigurði Thoroddsen og ég kalla það í hæsta máta lítilmannlegt, ef farið er að skýla sér á bak við Sigurð Thoroddsen í þessu máli eftir allt, sem á undan er gengið. Hitt veit ég, að er skoðun Sigurðar og er raunar skoðun allra, sem um málið hafa fjallað, að Búrfellsvirkjun er hagstæð virkjun. En hvort hún er hagstæðari, en aðrar leiðir, sem koma nú til greina, getur enginn fullyrt fyr,r en þeim rannsóknum er lokið á ísvandamálinu, sem nú standa yfir.

Ég efast ekkert um, að ísvandamálið er leysanlegt, en hvað það kostar, liggur bara ekki fyrir núna. Ég hef heldur aldrei fullyrt það, að svokölluð smávirkjanaleið, þó að þar sé minnst á munum greinilega eftir öllum samanburði, sé hagstæðari. Till. mín gengur ekki heldur út á það, að hún sé farin undir öllum kringumstæðum, heldur aðeins ef frekari rannsóknir sýna, að hún sé hagkvæmari. Þess vegna geri ég þá brtt., að einnig sé heimilað að fara í smávirkjanir, þegar nauðsynlegum undirbúningi og athugun er lokið, ef sýnt er, að það sé hagkvæmara að gera það fyrst. Síðar yrði svo auðvitað farið í Búrfellsvirkjunina, þegar þeim væri lokið.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með það, að við hefðum ekki fengið allar upplýsingar frá sérfræðingunum, og vildi raunar vefengja það, að svo hefði verið. Þær upplýsingar, sem var þarna sérstaklega um að ræða og við báðum um, voru varðandi ísvandamálið, voru um það, hvert væri nákvæmlega álít norsku sérfræðinganna á þeirri virkjunartilhögun, sem lægi fyrir og hverjar breytingar þeir teldu nauðsynlegar. Við fengum engin bein svör við þessu. Við spurðum einnig um rekstraráætlunina. Það er í fyrsta skipti nú, sem gerð er tilraun til þess að svara þessari spurningu. Og samkv. upplýsingum hæstv. ráðh., hefur aðeins annar aðilinn af þeim, sem ætla sér að byggja upp þetta fyrirtæki, haft þá fyrirhyggju að gera slíka áætlun, þ.e.a.s. borgarráð Reykjavíkur. Ég hef aldrei fullyrt neitt um það, hver hafi verið látinn gera þessa áætlun og mér er alveg sama, hvort sá sérfræðingur heitir Pétur eða Páll. En ég veit það, að sú áætlun, sem fjallað var um í borgarráði Reykjavíkur, er sú áætlun, sem allar þessar hugleiðingar byggjast á og þaðan hef ég það, að það sé meining þeirra aðila, sem eiga að standa að þessu fyrirtæki, borgarstjórnarinnar í Reykjavik og þá væntanlega hæstv. ríkisstj., að það eigi að selja raforkuna frá stöðvarvegg, miðað við kostnaðarverð 8.6, miðað við lægstu áætlun, sem hugsanlega getur komið út úr þessu, á 27 aura eða meira en þrefalt kostnaðarverð, á sama tíma og á að selja alúminíumhringnum, ef úr samningum við hann verður, á í hæsta lagi tæpa 11 aura. Þessu til viðbótar höfum við svo yfirlýsingu rafmagnsveitustjóra, sem er einn helzti ráðunautur ríkisstj. í þessum málum, að það sé a.m.k. hans skoðun, — ég hygg, að það sé af meiri varfærni, að hann sagði sína skoðun, en ekki skoðun ríkisstj., — að það ættu að vera a.m.k. til í handraðanum 30% næst, þegar við þurfum að virkja okkar vatnsföll og tvöfalda það raforkukerfi, sem fyrir er. Og það væri fróðlegt að fá þær tölur frá hæstv. ráðh., hvað það kostar, t.d. 70 eða 210 megawatta virkjun frá Búrfelli, hvað verðið þurfi þá að vera. Ég hef ekki haft tíma til að reikna það dæmi, en ég hygg, að út úr því mundu koma aðrar tölur en þær, sem hann hefur látið Eirík Briem matreiða fyrir sig til þess að koma hér með fyrir okkur á síðustu stundu.

Ég vil svo aðeins lýsa ánægju minni yfir því, sem hæstv. ráðh. sagði um það, að ríkisstj. hefði raunverulega ekki gert neinn samning við alúminíumhringinn enn þá. Ég vil fagna því, ef það er rétt. En vill þá ekki hæstv. ráðh. í sambandi við þessar umr. gefa yfirlýsingu um, að það verði hvorki fyrr né síðar notað sem röksemd um það, að Alþingi hafi gefið nokkra viljayfirlýsingu varðandi alúminíummálið, þó að ákveðið sé nú að virkja 210 megawött? Ég veit ekki, hvort hann vill gera það. Ég mundi a.m.k. meta það nokkurs, ef hann vildi gefa slíka ótvíræða yfirlýsingu. En óneitanlega fannst mér vera ofurlítið ósamræmi í þessu og aftur því, sem hann sagði, að auðvitað væri eina ástæðan fyrir því, að heimildina yrði að binda við fullvirkjun, en ekki 70 megawött, að þá yrði ekkert afgangs handa öðrum en Íslendingum. Ef þetta er ekki yfirlýsing um það, að það eigi að virkja 210 megawött með tilliti til alúminíumhringsins, veit ég ekki, hvað það er.