10.05.1965
Neðri deild: 87. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

201. mál, Landsvirkjun

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og hér hefur verið bent á, er mjög vafasamt, að rétt sé að kalla þá virkjun, sem fyrirhuguð er samkv. þessu frv., landsvirkjun, þ.e.a.s. virkjun, sem er fyrirhuguð fyrir allt landið. Mér sýnist, að hvort tveggja frv. og eins þær upplýsingar, sem fengizt hafa frá þeim, sem unnið hafa að undirbúningi þessa máls, bendi til þess, að hér sé beinlínis fyrirhugað að ráðast í virkjun fyrir Suðvesturland, efna til nýs fyrirtækis hér syðra, sem sé ætlað það verkefni að framleiða og selja raforku á þessu svæði, en teygja sig ekki til annarra landshluta nema eftir því sem þessu fyrirtæki þykir hagkvæmt fyrir sig. Í 3. gr. frv. er á það minnzt, eins og þar stendur, að sýni áætlanir fyrirtækisins, að fjárhagslega sé hagkvæmt að leggja aðalorkuveitur frá orkuverum Landsvirkjunar til annarra orkuveitusvæða, skal einnig heimilt að tengja þau orkuverum fyrirtækisins. Þetta ákvæði ber það með sér, að það á að leggja til grundvallar áætlanir og hagsmuni þessa fyrirtækis, sem hér á að efna til, þegar ákvörðun verður tekin um það, hvort rétt sé, að þessi virkjun verði tengd á einn eða annan hátt til annarra orkuveitusvæða, en svæðisins hér suðvestanlands.

Á sameiginlegum fundi í fjhn. þessarar d. og Ed. var nokkuð rætt um þessi atriði og m.a. við raforkumálastjóra. Og þar voru lagðar fram fsp. um það, hvernig menn litu á það atriði, ef málin bæri þannig að, að raforkumálastjóri landsins og raforkumálaráðh. teldu hagstæðast frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð að leysa raforkuþarfir orkuveitusvæðis fyrir utan þetta svæði eða einhvers annars landshluta á þann hátt, að það orkuveitusvæði eða sá landshluti yrði tengdur Landsvirkjuninni, hvort þeir litu þá svo á, að samkv. þessum l. gætu raforkumálaráðh. og raforkumálastjóri fengið því ráðið, að þessi leið, sem að þeirra dómi væri þjóðhagslega hagstæðust, yrði valin. Raforkumálastjóri svaraði á þá lund, að hann hefði alltaf hugsað sér það, að slík leið yrði farin. En það kom skýrt fram í þessum umr., að þetta er þó ekki hægt að gera samkv. ástæðum þessa frv., nema báðir eignaraðilar að þessu fyrirtæki, sem hér er gert ráð fyrir að mynda, þ.e.a.s. Reykjavíkurborg annars vegar og ríkið hins vegar, fallist báðir á það, að þetta verði gert. Og þá er beinlínis gert ráð fyrir því, að það verði hagsmunir þessa fyrirtækis, sem eiga að ráða um það, hvort þessi leið yrði farin eða önnur. Af þessum ástæðum höfum við Alþb.-menn bent á það, að það sé rétt í þessu tilfelli að breyta ákvæðum þessarar lagagr. á þá lund, að það yrði alveg ótvírætt tekið fram, að ef raforkumálaráðh. og raforkuráð ríkisins teldu, að hagstæðast væri að leysa raforkuþarfir annarra orkuveitusvæða eða annarra landshluta með því að tengja þau við þessa virkjun, þá ætti slíkt að vera heimilt, en ekki að miða þetta eingöngu við ákvörðunarvald eigenda þessarar svonefndu Landsvirkjunar. En það gefur vitanlega auga leið, að það er mjög hætt við því, að þeir, sem eiga þetta fyrirtæki, þ.e.a.s. Reykjavíkurborg og ríkið að jöfnum hluta, kunni að segja frá sínu sérstaka hagsmunasjónarmiði séð, að þeir óski ekki eftir því, að raforkuþarfir annarra landshluta verði leystar með tengingu við þetta orkuveitusvæði, ef það yrði til þess, að þá gengi fyrr upp sú ódýra orka, sem þeir eiga þarna sérstakan rétt til. En einmitt þetta sjónarmið sker í rauninni alveg úr um það, hvort hægt er að kalla þá virkjun, sem hér stendur nú til að efna til, landsvirkjun, sem eiginlega landsvirkjun, skrifað með litlum staf, eða hvort hér á aðeins að flagga tilteknu nafni, sem heitir Landsvirkjun, þó að það sé aðeins virkjun fyrir tiltekinn landshluta.

Það er svo málefni út af fyrir sig, hvort það þykir rétt, eins og raforkumálum okkar er nú komið, að fara þá leið, að ríkið og Reykjavíkurborg efni til nýs fyrirtækis hér suðvestanlands, sem sé fyrst og fremst hugsað fyrir þetta svæði. Ég tel, að sé þetta meiningin, eins og mér sýnist skína alveg greinilega út úr orðalagi á frv., eigi réttir aðilar að láta þetta koma ótvírætt fram, að þetta sé fyrst og fremst virkjun hér fyrir tiltekinn landshluta, það sé verið að leysa hagsmunamál þess landshluta, en aðrir landshlutar eigi hér ekki hlut að máli nema eftir því, sem eigendur þessa fyrirtækis telja hagkvæmt fyrir sig að skipta sér af málefnum þeirra.

Þetta frv. markar að verulegu leyti að mínum dómi breytta stefnu í raforkumálum landsins. Með raforkul., sem sett voru á Alþ. 1946, var í rauninni ákveðin sú stefna, að ríkið skyldi yfirtaka framkvæmdir í okkar raforkumálum á komandi árum. Raforkul. frá 1946 marka þessa stefnu strax í 1. gr., sem ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv, forseta, að lesa hér upp. En 1. gr. raforkul. er svo hljóðandi:

„Ríkinu einu er heimilt að reisa og reka raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl. Réttur sá, sem ríkinu er áskilinn samkv. 1. mgr., verður ekki framseldur, nema samþykki Alþ. komi til. Við gildistöku þessara l. er þó þeim, sem eiga og reka eða eiga í smíðum raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl, heimilt að reka þau áfram og ráðh. er heimilt að leyfa aukningu á þessum raforkuverum allt að fullri fyrirhugaðri virkjun, enda sendi eigendur þeirra uppdrætti og greinargerðir um framkvæmdir innan 6 mánaða frá gildistöku l. og setur ráðh. þau skilyrði fyrir slíkum leyfum, sem hann telur nauðsynleg, að fenginni umsögn raforkumálastjóra.“

Þessi ákvæði og önnur fleiri í raforkul. frá 1946 eru alveg ótvíræð um það, að þá var tekin upp sú stefna, enda allmikið rædd hér á Alþ., að nú ættu Íslendingar að fara inn á þá braut að láta ríkið sjálft hafa með höndum framkvæmdir í okkar raforkumálum eða þá halda áfram að því leyti til, sem um væri að ræða framhaldsframkvæmdir við fullvirkjanir á þeim fallvötnum, sem byrjað var að virkja af einstaka sveitarfélögum, eins og m.a. Reykjavíkurborg, þá héldi ríkið áfram hlutdeild sinni í þessum orkuverum, en upp frá setningu l. yrði það fyrst og fremst ríkið. Það væri því í rauninni ekki óeðlilegt nú, þegar fyrirhugaðar eru stórframkvæmdir í raforkumálum þjóðarinnar og gert er ráð fyrir því að ráðast í stærri og meiri lántökur í sambandi við þessi mál, að nú yrði gert ráð fyrir því, að það yrði ríkið sjálft, sem stæði að þessum framkvæmdum. En nú bregður svo einkennilega við, að skrefið er stigið til baka frá því, sem stefnan var mörkuð 1946 og nú er að vísu nafnið notað, talað um landsvirkjun, en þá er hér um að ræða sérstakt fyrirtæki Reykjavíkurborgar og ríkisins. Gert er að vísu ráð fyrir miklum framkvæmdum og dýrum, en hér er um fyrirtæki þessara aðila að ræða og það er gert á svo jöfnum grundvelli, að þar er ekki gerður neinn munur á valdi eða aðstöðu íslenzka ríkisins og Reykjavíkurborgar. Svo nákvæmlega er þetta allt upp sett í frv., að þar sem gert er ráð fyrir 7 manna stjórn, hefur íslenzka ríkið rétt á þrem fulltrúum og Reykjavíkurborg öðrum þrem, og ef þessir jafnréttháu aðilar geta ekki komið sér saman um oddamanninn, skal hæstiréttur skera úr um, hver þessi maður á að vera, því að ekki má viðurkenna það, að íslenzka ríkið sé gráðunni hærra í þessum tilfellum heldur en Reykjavíkurborg. Og síðan er það geirneglt í þessu frv., að það má ekki ráðast í eina eða neina breytingu, sem teljandi er á þessari Landsvirkjun, eftir að beinum stofnkostnaði er lokið, án þess að til komi ekki aðeins samþykki stjórnarinnar, heldur tveggja eigenda þessa fyrirtækis, þ.e.a.s. Reykjavíkurborg verður að samþykkja það fyrir sitt leyti. Þetta álít ég út af fyrir sig ranga stefnu í okkar raforkumálum. Ég held, að það hefði einmitt átt að halda áfram á þeirri braut, sem mörkuð var 1946 og í rauninni er það mín skoðun, að þörfin einmitt fyrir að velja þá leið, sem þá var ákveðin, sé miklum mun meiri nú en hún var 1946.

En það er í miklu fleiri greinum, sem gert er ráð fyrir því með þessu frv. um Landsvirkjun að umturna okkar gildandi raforkul. Samkv. raforkul. hefur það verið ákveðið sérstakt verkefni raforkumálastjóra ríkisins og með honum að nokkru leyti raforkuráðs að gera áætlanir um nýjar raforkuframkvæmdir fyrir landsmenn, fylgjast rækilega með öllum aðstæðum í þeim málum. En nú er hins vegar samkv. þessu frv. gert ráð fyrir því að taka þetta úr höndum raforkumálastjóra og hans stofnunar og það jafnframt ákveðið, að það verði stjórn þessa nýja fyrirtækis, sem á að hafa með höndum áætlunargerðir um nýjar aflstöðvar og aðalorkuveitur á þessu orkuveitusvæði. Og þegar á það hefur verið minnzt, hvort menn gætu þó a.m.k. ekki fallizt á það, að þessar áætlanir og tillögugerð í þessum efnum skuli gerð í nánu samráði og samstarfi við raforkumálastjórn ríkisins, þykir það ekki heldur fært. Fyrirtækið áskilur sér þennan rétt, eða þannig hef ég skilið það. — Nei, það ber að leiðrétta þetta. Ég sé, að Ed. hefur breytt þessu, en á þeim fundi, sem ég mætti á sameiginlegum nefndarfundum fjhn. beggja d., fékkst þetta ekki afgreitt. En ég sé, að það hefur orðið ofan á í Ed. að fallast á það, að þessar áætlunargerðir skuli þó gerðar í samvinnu við raforkumálastjóra og er það til bóta, þó að það sé mín skoðun, að þetta eigi að vera verk hans og hans stofnunar, en ekki slíks fyrirtækis sem þessa, sem hér er gert ráð fyrir að setja á fót.

Þá er einnig gert ráð fyrir því í þessu frv. að taka upp breytta stefnu varðandi verðlagningu á raforku til almenningsnota. Skýr lagafyrirmæli hafa gilt um verðlagningu á raforku, þar sem gert hefur verið ráð fyrir því, að raforkan skuli vera seld frá orkuverunum með framleiðslukostnaðarverði að viðbættum 5%. En nú er hins vegar gert ráð fyrir því, að stjórn þessa nýja fyrirtækis, sem nefnt er Landsvirkjun, skuli hafa rétt til þess að ákveða raforkuverðið eftir því, sem hún telur vera hagkvæmast og bezt fyrir sig. Að vísu er um það rætt, að áður en stjórn Landsvirkjunar ákveður raforkuverðið, skuli hún hafa fengið till. Efnahagsstofnunarinnar. Það breytir auðvitað engu um hennar vald. Valdið er hennar alveg tvímælalaust samkv. orðalagi 11. gr. frv. Efnahagsstofnunin hefur þarna aðeins tillögurétt, sem ég út af fyrir sig met ekki ýkjamikils í þessu tilfelli, enda er það yfirlýst, að ætlunin sé að breyta hér um verðlagningarreglur frá því, sem áður hefur verið, og það á þann hátt, að fyrirtækið taki til sín mun meiri álagningu, en hingað til hefur verið leyfð samkv. l og það er afsakað með því, að ætlunin sé að safna sjóðum, sem síðan eiga að duga til þess að ráðast í nýjar virkjunarframkvæmdir. Af þessu hlýtur auðvitað það að leiða, að rafmagnsverð hlýtur að hækka til almennings í landinu frá því, sem þurft hefði að vera.

Þetta voru nokkur almenn atriði varðandi ákvæði frv. og það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir að taka upp í sambandi við þessa svonefndu Landsvirkjun. En meginefni frv. snýst um það að veita þessu fyrirtæki heimild til þess að reisa nýtt raforkuver í Þjórsá við Búrfell, sem næmi allt að 210 þús. kw í afli. Og það fer ekki dult, að það er ætlunin með því að ráðast í þessa stórvirkjun, að fyrirhugað er að selja mikinn hluta þessarar orku til útlendinga, sem hér tækju þá upp atvinnurekstur í okkar landi. Hins vegar hefur það komið hér fram, að verði aðeins virkjað fyrir íslendinga sjálfa á þessum stað, mundi fyrsti áfangi virkjunarinnar ekki verða nema sem næmi 70 þús. kw, en síðan haldið áfram þrep af þrepi, eftir því sem hagstætt væri frá sjónarmiði landsmanna. Ýmsar töflur fylgja grg. þessa frv., sem ætlað er að sanna, að þessi stærð af virkjun við Búrfell sé hagstæðasta virkjunin, sem hægt sé að ráðast í á Íslandi, og einnig það, að einmitt af því að hún sé svona hagstæð, skapi hún möguleika til þess að gera orkusölusamning við alúminíumverksmiðju, sem hér yrði reist. Það má vel vera, að hagstæðast sé fyrir Íslendinga að ráðast í næstu virkjun fyrir sinn innanlandsraforkumarkað í Þjórsá við Búrfell. Það er mjög líklegt, að svo sé, jafnvel þó að fyrsti áfanginn yrði aðeins 70 þús. kw. Hins vegar sýnist mér, að þær upplýsingar, sem fram hafa komið um framkvæmdakostnað við þessa virkjun, séu enn þá svo ónákvæmar, að það sé mjög erfitt að segja um það, hvort þetta væri í raun og veru hagstæðasta leiðin.

Upplýsingar, sem gefnar hafa verið um áætlaðan virkjunarkostnað, eru mjög ósamhljóða. Fyrir nokkrum mánuðum fengum við alþm. skýrslu um þessi mál og þar var gerð grein fyrir því, að orkuver af stærðinni 105 þús. kw í Þjórsá við Búrfell mundi kosta 1.050 millj. kr. Og ýmsir útreikningar og áætlanir voru síðan gerð út frá þessari tölu. Nú nokkrum mánuðum síðar fáum við aðra áætlun, sem segir, að slík aflstöð á þessum stað mundi ekki kosta 1.050 millj. kr., heldur mundi hún kosta 1.300 millj. kr. Og í sömu upplýsingum var okkur gefið upp, að öruggt afl úr þessari virkjun, sem hægt væri að selja til alúminíumverksmiðju, heildaraflið, sem væri örugglega hægt að fá úr þessari virkjun, væri 850 kwst. á ári. Nú fáum við hins vegar skýrslu, sem segir, að úr þessari sömu eða sams konar virkjun á þessum sama stað sé öruggt afl upp á 910 kwst. Þannig hrökkva þessar upplýsingar fram og til baka og virðist oft skakka tugum milljóna. Ég verð því að segja það, að mér finnst erfitt að treysta til fullnustu þeim talnalegum upplýsingum, sem liggja nú fyrir í grg. þessa frv. Nú er okkur sagt, að við það sé miðað, verði fullvirkjað við Búrfell afl, sem nemur 210 þús. kw, þá sé ráðgert að selja um 60% þessarar orku til alúminíumverksmiðju á verði, sem nemur 103/4 úr eyri hverja kwst. Í skýrslu þeirri, sem ríkisstj. hefur lagt hér fram á Alþ. varðandi stóriðjumálin og þá sérstaklega alúminíummálið, segir á bls. 24, að fulltrúar Alþjóðabankans hafi látið uppi þá skoðun, að þetta raforkuverð, 103/4 aurar fyrir kwst., mætti telja viðunandi af Íslands hálfu, eins og það er orðað þar, en mjög hagstætt fyrir alúminíumfyrirtækið. Þetta voru orð, sem fulltrúar Alþjóðabankans höfðu, þegar fyrir lágu útreikningar um það, að 105 þús. kw raforkuver kostaði 1.050 millj. Þá var það dómur bankans, að það mætti kannske segja, að orkuverðið, 103/4 úr eyri fyrir kwst., væri viðunandi fyrir Íslendinga, en mjög hagstætt fyrir alúminíumverksmiðju. Auðvitað hafa fulltrúar bankans sagt þetta miðað við þá tölu, sem þá lá fyrir í grg. um stofnkostnað virkjunarinnar. En nú liggja fyrir tölur, sem lagðar eru fram hér í þessu frv. og eru mun hærri. Á öðrum stað í þessari skýrslu segir einmitt varðandi viðræðurnar við fulltrúa Alþjóðabankans, þar sem var verið að falast eftir lánum til þess að ráðast í þessa framkvæmd, á bls. 25 í skýrslu ríkisstj., orðrétt á þessa leið: „Ef raforkuverð frá Búrfellsvirkjun ætti að nálgast 2.5 mills, þ.e.a.s. 10.75 aura kwst., mættu árlegir vextir og afborganir varla fara yfir 8% á ári.“ Allt miðað við þann stofnkostnað, sem þá var reiknað með. Nú segir hins vegar í grg. þessa frv., að ekki þyki fært að reikna með minni útgjöldum í sambandi við stofnkostnað vatnsvirkjana eins og í þessu tilfelli en 9.2%. Ég ætla, að þetta ásamt svo með því, þegar okkar kunnustu sérfræðingar í virkjunarmálum láta það fara frá sér, að þeir telji engan vafa vera á því, að þetta fyrirhugaða raforkuverð, 103/4 úr eyri fyrir kwst., sé raunverulega undir framleiðslukostnaðarverði, einnig miðað við þær áætlanir, sem liggja fyrir, þá sýnist mér, að þessar fullyrðingar þeirra raunverulega staðfesti það, sem kemur fram í skýrslu ríkisstj. og hefur komið fram frá fulltrúum þess banka, sem ætlað var að lána til fyrirtækisins. Ég held því, að það sé óhætt að slá því föstu, að salan á raforkunni frá þessu fyrirtæki, þar sem gert er ráð fyrir því að selja sem nemur 60% af framleiðslu orkuversins raunverulega á undirverði miðað við þann áætlaða byggingarkostnað, sem nú liggur fyrir, sé út af fyrir sig ekki mjög girnileg. En svo er annað, sem kemur hér enn til og gerir þetta þó enn verra, en það er það, að það getur ekki leikið vafi á, að þessi áætlaði byggingarkostnaður hlýtur að falla í reynslunni. Byggingarkostnaðurinn mun fara fram úr áætlun. Þessi byggingarkostnaður hefur verið miðaður við verðlag á árinu 1964, en síðan hafa orðið umtalsverðar hækkanir á verðlagi, bæði kaupi og öðru verðlagi og gert er ráð fyrir því, að þessar byggingarframkvæmdir standi yfir um þriggja ára tímabil, — og dettur nokkrum manni í hug, að verðlag hækki ekki eitthvað talsvert á næstu þremur árum? Og er það nokkur goðgá að reikna með því, að þegar áætlanir eru gerðar upp á fullar 1.700 millj. kr., eins og hér er gert í sambandi við fullvirkjun við Búrfell, muni þær áætlanir kannske vera eitthvað undir raunverulegum byggingarkostnaði miðað við margfalda reynslu okkar af slíkum áætlunum? Ég fyrir mitt leyti efast ekkert um það, að byggingarkostnaður þessa mannvirkis hlýtur að verða miklum mun meiri en áætlanir eru nú gerðar um.

Ég held, að þeir, sem gert hafa þessar áætlanir, hafi augljóslega flaskað á því, sem skýrsla ríkisstj. ber greinilega vott um, að því er slegið föstu í upphafi málsins, að til þess að grundvöllur eigi að fást til raforkuviðskipta við alúminíumverksmiðjuna, megi framleiðslukostnaður okkar á raforku ekki vera hærri, en 8.6 aurar á kwst. við stöðvarvegg. Þessu er beinlínis slegið fram í upphafi þeirrar skýrslu, sem ríkisstj, sendi frá sér um þetta mál. Þetta var grundvöllurinn, enda er hvað eftir annað að því vikið, að ef eigi að ráðast í vissar öryggisráðstafanir við virkjunina, sem mundu kosta viðbótarfé, útiloki það möguleikann til þess að selja raforku til alúminíumverksmiðjunnar. En það er líka greinilegt, að aðstaða okkar manna gagnvart fulltrúum alúminíumverksmiðjunnar hefur verið afskaplega veik frá byrjun. Lengi vel halda fulltrúar alúminíumverksmiðjunnar sér við það, að þeir geti ekki borgað meira fyrir raforkuna en 8.6 aura eða 2 millj. Síðan fallast þeir á það, að þeir skuli borga 21/2 mills eða 10.75 aura. En ríkisstj. hefur gert sér grein fyrir því, að það þarf að afsaka þessa upphæð einnig, vegna þess að hún er greinilega lægri en Norðmenn fá fyrir sína raforku, sem þeir selja þessu sama fyrirtæki nú á þessum tíma, því að þeir selja raforkuna fyrir 3 mills eða um 13 aura kwst. En þá eru strax afsakanir á reiðum höndum og á það er bent, að ástæðurnar til þess, að Íslendingar verði að sætta sig við lægra raforkuverð til fyrirtækisins, en Norðmenn og reyndar einnig lægri skattgreiðslu, eins og fram kemur í skýrslunni, séu þær, að gert sé ráð fyrir því, að hér verði aðeins byggð verksmiðja, sem á að afkasta 30 þús. tonnum á ári, en í Noregi sé hins vegar um 60 þús. tonna verksmiðju að ræða. En nú, þegar alúminíumhringurinn fór upp í 10.75 aura fyrir kwst., er hann kominn upp í 60 þús. tonna verksmiðju og þessar afsakanir eru þar með fallnar. Ég tel því, að það bendi allt til þess, að raforkusala með þessum hætti, sem hér er ráðgerð frá þessu nýja fyrirtæki, sé vægast sagt lítið ábatasöm.

Á sameiginlegum fundi fjhn. þessarar d. og Ed., þar sem þetta mál var rætt, voru raforkumálastjóri og rafmagnsveitustjóri ríkisins spurðir um það, hvað mundi kosta mannvirki ofan við virkjunina, sem gætu gert virkjunina sæmilega örugga í rekstri. Og þar var það svar gefið, að ef ætti að ganga frá þessum mannvirkjum á þann hátt, sem almennt væri talið nokkuð tryggilegt, mundu slíkar framkvæmdir kosta 700 millj. kr., svo að augljóst er, að það getur skollið á okkur viðbótarstofnkostnaður og hann ekki svo lítill, bæði vegna vissra öryggisráðstafana, sem við teldum að þyrfti að gera til þess að gera virkjunina öruggari, en hún er annars og eins vegna umframkostnaðar við bygginguna. En hins vegar er alveg ljóst, eins og ég hef vikið að, að raforkan yrði seld samkv. þessari áætlun á svo lágu verði, að þar er ekki upp á neitt aukaverð að hlaupa fyrir slíkum ófyrirséðum kostnaði. Þá hefur einnig verið á það bent, að það er vitanlega óhjákvæmilegt að reikna með því, að talsvert þurfi að grípa til varaaflstöðva, ef tryggja á þann orkusölusamning, sem gert er ráð fyrir að gerður verði við alúminíumverksmiðjuna, og rekstur varaaflstöðvanna yrði á kostnað Íslendinga, en þá kostar miklum mun meira að framleiða hverja kwst. af rafmagni og ef notkun þessara varaaflsstöðva yrði talsvert mikil, eins og okkar fróðustu menn í þessum efnum búast við, mundi aukakostnaðurinn af því einnig falla á okkur íslendinga og gera virkjunina þeim mun óhagstæðari.

Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. sagði, að í þeim áætlunartölum, sem upp væru gefnar um stofnkostnað þessarar virkjunar, væri gert ráð fyrir kostnaði vegna ísvandamálsins. Um þetta var rafmagnsveitustjóri ríkisins spurður á hinum sameiginlega fundi fjhn. Nd. og Ed., og hann svaraði því til, að það væru fyrirhugaðar ákveðnar, mjög smávægilegar ráðstafanir í þessum efnum, sem til framkvæmda mætti telja og þegar hann var spurður um það, hvað þær mundu kosta, sagði hann, að kostnaður við þær mundi nema 3–4 millj. kr., eða sem sagt sem engu nemur í þessu tilfelli, af því að það er ekki gert ráð fyrir því í þessum kostnaðartölum, að gerðar verði neinar þær ráðstafanir til að forðast ísvandamálið, sem teljandi eru. Ég heyrði einnig að hæstv. ráðh. vildi láta orð að því liggja, að þær módeltilraunir, sem nú væru gerðar í Noregi einmitt til þess að kanna sérstaklega ísvandamálið, það mætti telja alveg víst, að þær heppnuðust og þannig mundi finnast lausn á þessu vandamáli.

Það kom einnig fram á þessum sameiginlega fundi fjhn. Ed. og Nd., að rafmagnsveitustjóri ríkisins upplýsti það, að hann væri alveg nýlega búinn að eiga símtal við Noreg, þar sem fyrstu tilraunir hefðu átt sér stað með þetta módel og hann flutti n. þau skilaboð að, að vísu hefði tekizt að koma ísnum fram hjá, en það hefði bara farið allt of mikið vatn, svo að það væri með öllu útilokað að hafa það fyrirkomulag, sem þarna hefði verið ráðgert, og þyrfti nú að byggja upp á nýtt. Sem sagt fyrstu tilraunir við vandann hafa mistekizt, því að vitanlega þekkja það allir, að það er hægt að koma ísnum fram hjá með því að veita burt svo að segja öllu vatninu, en þá verður líka lítið eftir til þess að framleiða orku og í því liggur vandinn í þessu tilfelli eins og öðrum hliðstæðum. Það má vitanlega ekki eyða allt of miklu af rennsli árinnar, ef ekki á að verða skortur á afli.

Nei, það er síður en svo, að það liggi fyrir, að ísvandamálið sé leyst. Það hefur þvert á móti komið fram við allar athuganir, sem fram hafa farið fram til þessa varðandi þetta sérstaka vandamál, að vandamálið liggur fyrir og það er ekki enn búið að finna lausn á því, og við vitum ekkert, hvað það kemur til með að kosta að leysa vandann. En með kostnaði af að leysa þann vanda er ekki reiknað í þeim áætlunum, sem hér liggja fyrir, og það verður ekki hægt að koma kostnaðinum af slíkum viðbótarframkvæmdum yfir á orkusöluna til hins stóra kaupanda, sem ætlar að kaupa fyrir fram 60% af orkunni. Það er hinn aðilinn, Íslendingar sjálfir, sem eiga að fá 40%, sem verða að standa undir öllum þessum óvissu útgjöldum, útgjöldunum, sem stafa af umframkostnaði, umframáætlun, kostnaðinum, sem stafar af rekstri varaaflstöðva vegna truflana og kostnaðinum við það að leysa ísvandamálið.

Það getur því vitanlega hæglega farið svo, sýnist mér, að það orkuverð, sem Íslendingar sjálfir verða við að búa a.m.k. fyrstu 15–20 árin, meðan fastur orkusölusamningur er við alúminíumverksmiðjuna, komi hún hér til, geti það raforkuverð orðið mun hærra en Íslendingar hefðu getað aflað sér eftir öðrum leiðum. Vitanlega er hægt að segja eins og hæstv. ráðh. sagði hér, að ísvandamálið er yfirstíganlegt. Það efast ég ekki heldur um. Ísvandamálið er yfirstíganlegt. Við slík ísvandamál hafa Íslendingar glímt við marga aðra virkjunarstaði, og ísvandamálin hafa verið leyst. En það bara kostar peninga að leysa þau og af því hefði gjarnan átt að gera sér grein fyrir þessu áður, en ákveðið var að selja meginhlutann af orkunni með fyrirframsamningi til langs tíma.

Þessum atriðum, sem ég hef nú minnzt á, er í rauninni ómögulegt annað, en að gera sér grein fyrir, þegar er ráðgert að ráðast í fyrirtæki, sem er stærra en nokkurt annað fyrirtæki, sem Íslendingar hafa ráðizt í, dýrara í stofnkostnaði og á margan hátt áhættusamara. Íslenzka ríkið á að standa fyrir lántöku eða ábyrgjast lán fyrir tiltekið fyrirtæki og það er vitanlega ekki forsvaranlegt fyrir alþm. annað en að gera sér fulla grein fyrir því, hvað er líklegast að verði um rekstur þessa fyrirtækis. Er það áhættusamt fyrir ríkisheildina? Leysir það mikinn vanda landsmanna sjálfra? Tryggir þessi framkvæmd okkur ódýrari orku, en við mundum geta tryggt okkur eftir öðrum leiðum? Í þessum efnum er það, sem við í minni hl. í stjórnarandstöðunni segjum eðlilega fyrst af öllu: Hvað er að segja um rekstraráætlun fyrir þetta mikla fyrirtæki? Það hlýtur þó að hafa verið gerð rekstraráætlun. Menn ráðast ekki í fyrirtæki upp á 1.700 millj. án þess að hafa gert sér einhverja grein fyrir því, hvaða tekjur fyrirtækið ætti að hafa. Ég veit, að það liggur nokkurn veginn fyrir samkv. því, sem upp hefur verið gefið, hversu miklar tekjur geta komið til þessa fyrirtækis frá alúminíumverksmiðjunni. En við verðum líka að áætla, hvað komi inn miklar tekjur til fyrirtækisins fyrir hinn hluta raforkunnar, sem við ætlum að selja landsmönnum. Við vitum það af fenginni reynslu, að ekki seljum við strax á fyrstu árunum alla orkuna, eitthvað talsvert verður þar eftir umfram. En þegar við alþm. biðjum um þessa rekstraráætlun, getum við ekki fengið hana. Við sjáum hins vegar í öðrum skýrslum, sem hér hafa komið fram á Alþ. frá ríkisstj., að fulltrúar Alþjóðabankans segja á vissu stigi umr., að þeir telji, að þessi greiðsla frá hinum stóra orkukaupanda, alúminíumverksmiðjunni, sé svo lítil, a.m.k. fyrstu árin, að það sé mjög óþægilegt fyrir bankann að lána þessu fyrirtæki, meðan greiðslurnar séu ekki meiri. Og þá er reynt að fara þá millíleið að láta alúminíumverksmiðjuna borga aðeins hærra verð fyrstu árin, en þeim mun lægra verð, en 10.75 aura síðari árin, því að meðaltalsverðið fyrir hverja kwst. á að vera fast, 10.75 aurar.

Hvernig stendur á því, að það er verið að fela fyrir okkur þessa rekstrar- og greiðsluáætlun, sem hlýtur að liggja fyrir, því að það þýðir ekkert fyrir hæstv. ríkisstj. að koma þannig hér fram fyrir okkur alþm., að hún láti í það skína, að hún hafi staðið svo að þessu máli, að hún hafi ekki einu sinni gert greiðsluyfirlit í sambandi við slíkt fyrirtæki sem þetta, að hún hafi ekki gert sér fulla grein fyrir því, hvað má búast við miklum tekjum til fyrirtækisins á 1. rekstrarári, á 2. rekstrarári o.s.frv. Auðvitað hafa þessar áætlanir verið gerðar og við eigum rétt á því að fá þær, og við förum fram á það að fá að sjá þessar áætlanir.

Ég veit, að sá tími, sem Alþ. hefur hér til þess að afgreiða þetta stórmál, er orðinn mjög skammur. Það eru í rauninni aðeins eftir 2 starfsdagar hjá Alþ. að þessu sinni, þar sem fyrirhugað er, að þingslit verði á miðvikudaginn. Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur að leggja slíkt stórmál sem þetta fyrir Alþ. á þann hátt, sem gert er, að hvorki n. né einstökum þm. geti gefizt kostur til eðlilegrar athugunar og fullnægjandi athugunar á slíku máli sem þessu. Ég veit, að það vilja ýmsir fleiri ræða hér þetta mál og skal því stytta mál mitt að þessu sinni. Málið fer til n., sem ég á sæti í og gefst mér því kostur á að fjalla þar um málið og ræða um málið aftur hér við 2. umr.

Ég vil aðeins segja það, að það er hin almenna afstaða okkar Alþb.-manna til þessa máls, eins og það liggur hér fyrir, að við álítum, að þær heimildir, sem ætlað er að veita til virkjunarframkvæmda skv. þessu frv., eigi að miðast við þarfir íslendinga sjálfra og það eigi því ekki á þessu stigi málsins að hafa heimildina til virkjunar við Búrfell í Þjórsá nema sem nemur 70 þús. kw. en það er það, sem ætlað er, að yrði fyrsti áfanginn, ef virkjað væri fyrir Íslendinga sjálfa. Auðvitað yrði ráðizt í þennan áfanga með það í huga, að síðar yrði haldið áfram og fullvirkjað yrði á þessum stað fyrir Íslendinga sjálfa. Við álítum einnig rétt að veita heimild til þess að velja aðra virkjunarstaði, sem miðaðir eru við þarfir Íslendinga sjálfra, ef nánari athugun á málinu leiddi til þess, að þeir staðir væru hagkvæmari sem fyrsta leið.

Við erum á móti því að veita að þessu sinni heimild til virkjunarframkvæmda í Þjórsá, sem nema 210 þús. kw, vegna þess að við álítum, að það bendi allt til þess, að ætlunin sé að nota þá heimild til þess að ráðast í framkvæmdir, sem eru miðaðar við hagsmuni allt annarra, en Íslendinga sjálfra og eru mjög miklar líkur til að mundu leiða af sér ókjör fyrir okkur Íslendinga. Við munum væntanlega flytja hér svipaðar till. um þetta mál og við fluttum í Ed., en ég sé ekki ástæðu til þess að vera að fara nánar út í þau einstöku atriði að þessu sinni.