05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

202. mál, Laxárvirkjun

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta frv. um Laxárvirkjun kemur með sömu skyndingu fyrir Alþ. og ýmis önnur frv. frá hæstv. ríkisstj. á þessum síðustu starfsdögum þingsins. Sum þessara frv. virðast þannig að útliti, að þau séu tæplega fullburða, þótt síðborin séu. Þau þyrftu því nákvæma hjúkrun í nefndum, sem kalla mætti í þessu sambandi vöggustofur eða hjúkrunardeildir þingsins. En þær eru þannig settar, þessar hjúkrunardeildir, að þær hafa ekki ráðrúm til að veita nauðsynlega hjúkrun, enda fréttir maður það nú, að einstök frv., jafnvel þótt þau hafi komið fram fyrir nokkru, séu að gefa upp öndina á þessu þingi. Og það var þess vegna, sem við nm. úr fjhn. greiddum atkv. á móti því að taka á móti einu þessu blessaða barni í okkar n. Og þó mundi ég sízt hafa á móti því, að það frv. næði fram að ganga.

Mér skilst, að þetta frv. um Laxárvirkjun hafi þó þrátt fyrir nauman undirbúning verið borið undir stjórn Laxárvirkjunarinnar og hún hafi ekkert verulegt við frv. að athuga. Það tel ég mikilsvert. Frv. er í meginatriðum byggt á l. frá 1949 um Laxárvirkjun, eins og hæstv. ráðh. gat um áðan og það er samræmt þeirri stefnu, sem hafin er með frv. um Landsvirkjun. Markmiðið er landsveita og ég hef síður en svo við það að athuga. Laxárvirkjunin á að vera slík veita á sinu svæði, hliðstæð því, sem Landsvirkjunin hér syðra á hennar svæði.. En auðvitað er Laxárvirkjunin miklu minni í sniðum, enda minna við hana haft, að því er þetta frv. snertir.

Landsvirkjunarfrv. fylgja miklar áætlanir. En það er ekki haft fyrir því að láta þessu frv. fylgja slíkar grg. Ég sakna þess og ég veit, að aðrir eru á sama máli, jafnvel þótt hæstv. ráðh. bætti nokkuð úr því áðan í framsöguræðu sinni með því að segja frá einstökum atriðum úr áætluninni. Það er gert ráð fyrir því, að tvöfalda megi virkjun þá, sem fyrir er í Laxá við Brúar. Og það er gert ráð fyrir framlögum og öðrum stuðningi af ríkisins hálfu, sem ég vænti, að sé í svipuðu hlutfalli við tilkostnað og eignarhluta eins og er af ríkisins hálfu gagnvart Landsvirkjuninni hér syðra. Vissu um það hef ég þó ekki, af því að áætlunarútreikninga vantar. En hvenær má ráðast í stækkun virkjunar fyrir norðan? Það er ekkert um það í frv. né grg., svo að ég hafi fundið. Mér er sagt, að í blaði fyrir nokkrum dögum hafi hæstv. raforkumálaráðh. talað um, að það yrði ekki fyrr en eftir 4 ár. Nú standa þannig sakir, eftir því sem ég veit bezt, fyrir norðan, að raforka sú, sem þar er framleidd, er fullnýtt. Það er komið í toppinn og ef Norðlendingar eiga að bíða í 4 ár eða þangað til búið er að virkja við Búrfell, fer ekki hjá því, að það verður rafmagnshungur. Nú vildi ég biðja hæstv. ráðh. að upplýsa, hvort það er ætlun hæstv. ríkisstj. að ætla okkur, sem búum á orkusvæði Laxárvirkjunar, þetta hlutskipti. Við erum þannig gerðir, að við viljum ógjarnan vera hornrekur.

Annars vil ég fyrir mitt leyti gera það, sem í mínu valdi stendur til að greiða fyrir framgangi þessa frv. Hæstv. ráðh. minntist þó á galla í 2. gr. Ég hef merkt þar við og geri það ekki að umræðuefni. Hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir því, að það yrði bætt úr þeim ágöllum, sem þar eru fyrir hendi.