05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

202. mál, Laxárvirkjun

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta frv. um Laxárvirkjun er flutt samhliða hinu stóra frv. um Landsvirkjun og er sniðið í samræmi við þá stefnu, sem kemur fram í frv. um Landsvirkjun. Landsvirkjunarfrv. hefur nú verið hér til 1. umr. í þessari d. og afgr. til n. Við þá umr. var sú stefna, sem kemur fram í þessum málum, rædd nokkuð almennt og ég ætla mér ekki að fara að endurtaka það, sem þá kom fram. En ég tel þó rétt að víkja nokkuð að einum þætti þessara mála eða í þeirri stefnu, sem kemur fram í þessum frv., bæði til þess að vekja nokkuð fyllri athygli á þeim þætti málsins heldur en gert hefur verið í d., og ég tel mig hafa ástæðu til þess að víkja að þessum þætti, vegna þess að í þessu frv. um Laxárvirkjun er með vissum hætti vikið að raforkumálum Austurlands, en þessi þáttur, sem ég ætla að gera að umtalsefni, er um skipulag og yfirstjórn raforkumála og sambandið, eins og mér virðist það verða á milli raforkumálaskrifstofunnar annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar, eins og frv. liggur fyrir.

Þegar raforkulögin voru sett fyrir um það bil 20 árum, var sú stefna mörkuð í löggjöfinni, að það væri ríkisstofnun, sem færi að mestu leyti með framkvæmd raforkumála, þegar undan er skilin Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin og um dreifingu raforkunnar og orkuveitur úti um land væri það ríkisstofnun, raforkumálaskrifstofan, sem hefði þær framkvæmdir á hendi með umsjá raforkuráðs, sem er þingkjörin n., undir yfirstjórn ráðh., en síðan ætti ráðh. að leita heimildar hjá Alþ. hverju sinni, sem ný orkuver væru reist eða meiri háttar orkuveitur lagðar.

Ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að færa þessum orðum stað með því að vitna beinum orðum í nokkur ákvæði raforkulaganna. Í 1. gr. raforkul, segir svo:

„Ríkinu einu er heimilt að reisa og reka raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl. Réttur sá, sem ríkinu er áskilinn samkv. 1. mgr., verður ekki framseldur, nema samþykki Alþ: komi til. Við gildistöku þessara l. er þó þeim, sem eiga og reka eða eiga í smíðum raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl, heimilt að reka þau áfram og ráðh. er heimilt að leyfa aukningu á þessum raforkuverum allt að fullri fyrirhugaðri virkjun, enda sendi eigendur þeirra uppdrætti og grg, um framkvæmdir innan 6 mánaða frá gildistöku l., og setur ráðh. þau skilyrði fyrir slíkum leyfum, sem hann telur nauðsynleg, að fenginni umsögn raforkumálastjóra. Enn fremur er ráðh. heimilt að fengnum till. raforkumálastjóra að veita sveitarfélagi, einstökum manni eða félagi leyfi til að reisa og reka raforkuver allt að 2.000 hestöflum að stærð til að fullnægja rafmagnsþörf sinni, ef rafmagnsveitur ríkisins eða héraðsveitur geta ekki eða óska ekki að láta rafaflið í té.“

Í 3. gr. segir: „Ríkisstj. setur á stofn og starfrækir rafmagnsveitur, er vera skulu eign ríkisins og reknar sem fjárhagslega sjálfstætt fyrirtæki með sérstöku reikningshaldi undir umsjón þess ráðh., sem fer með raforkumál.“

Í 7. gr. segir enn fremur: „Engum nema rafmagnsveitum ríkisins er heimilt að selja raforku í heildsölu. Þó mega Reykjavíkurkaupstaður, Akureyrarkaupstaður, Siglufjarðarkaupstaður, Ísafjarðarkaupstaður og Andakílsárvirkjun selja héraðsrafmagnsveitum sínum og rafmagnsveitum ríkisins raforku í heildsölu frá orkuverum þeim, sem aðilar þessir eiga og reka eða eiga í smíðum samkv. 1. gr.“ — Þ.e.a.s. fyrir 20 árum, þegar raforkul. voru sett, þetta er nú innskot frá mér. — „Réttur sá sem rafmagnsveitum ríkisins er áskilinn samkv. 1. mgr., verður ekki framseldur, nema samþykki Alþ. komi til.“

Í 8. gr. segir enn fremur: „Áður en hafizt er handa um að reisa, kaupa eða leigja orkuver eða orkuveitu, skal raforkumálastjóri hafa látið fara fram rannsókn á því, á hvern hátt yrði heppilegast fullnægt raforkuþörf þess héraðs eða landshluta, sem hinni fyrirhuguðu orkuveitu er ætlað að ná til. Að lokinni þeirri rannsókn sendir raforkumálastjóri ráðh. till. sínar um hinar fyrirhuguðu framkvæmdir. Till. sínum til ríkisstj. lætur raforkumálastjóri fylgja nauðsynlegar kostnaðaráætlanir, grg. um skilyrði fyrir orkuvinnslu eða orkukaupum og orkusölu og nákvæmiar áætlanir um tekjur og gjöld af virkjunum.“

Í 9. gr. segir: „Nú telur ráðh. að fengnum till. raforkumálastjóra rétt að reisa ný orkuver eða koma upp nýjum orkuveitum eða auka við hin fyrri orkuver eða orkuveitur eða festa kaup á slíkum mannvirkjum, og leitar hann þá til þessa samþykkis Alþ. og gerir jafnframt till. um það, á hvern hátt fjár til þeirra framkvæmda skuli aflað.“

Og enn í 53. gr., þar sem rætt er um raforkuráð, er það berum orðum tekið fram, að eitt af verkefnum raforkuráðs sé það, að ráðinu skuli sendar til athugunar og umsagnar till. raforkumálastjóra um að reisa, kaupa eða leigja orkuver eða orkuveitur og till. ríkisstj. til Alþ. um að reisa ný orkuver eða koma upp nýjum orkuveitum eða festa kaup á slíkum mannvirkjum.

Ég hef vitnað hér í allmörg ákvæði raforkulaganna til þess að færa sönnur á það, að það er stefnan, sem mótuð var með raforkul. fyrir um það bil 20 árum, að ríkisvaldið hafi bæði yfirstjórn raforkumálanna og beiti sér fyrir öllum meiri háttar framkvæmdum að þessu leyti. Og stefnan, sem leggja á til grundvallar samkv. anda raforkul, um útfærslu raforkukerfisins og aukningu orkunnar, virðist mér vera sú, að það eigi að leggja til grundvallar orkuþörf þeirra héraða eða landshluta, þar sem framkvæmdir eru gerðar.

Ég fæ ekki séð, að með þessum frv. sé ætlazt til að fella raforkul. úr gildi eða breyta þeim, ég hef ekki komið auga á það. En hins vegar er í þessum frv. mótuð sú stefna að koma upp nýrri stofnun. Landsvirkjun, sem á að vera sjálfstæður réttaraðili, er hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald og sjálfstæða stjórn. Auðvitað lýtur hún yfirstjórn ráðh., eins og aðrar stofnanir, en ég fæ ekki séð, að hún eigi að vera í beinum tengslum eða undir yfirstjórn raforkuráðs eða raforkumálastjóra. Þegar málin horfa svo, er full ástæða til þess að gera sér grein fyrir því, hvernig sambandið verður í reynd milli þessara stofnana. Nú segir í 1. gr. í frv. um Landsvirkjun, að Reykjavíkurborg og ríkið eigi hvort um sig helming fyrirtækisins og stjórn fyrirtækisins á að vera skipuð í samræmi við þessi eignahlutföll. Nú held ég, að það sé rétt, að ríkið eigi vatnsréttindin í Þjórs, og enn fremur eru ákvæði í frv. um það, að ríkisstj. er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán, er Landsvirkjunin tekur, að fjárhæð 1.204 millj, kr. Ríkið á að vera í sjálfskuldarábyrgð fyrir eiginlega nær öllu lánsfénu. Þegar á þetta er litið, virðist ekki vera óeðlilegt, að ríkinu hefði verið ætluð meiri íhlutun í stjórn fyrirtækisins, en frv. gerir ráð fyrir. En ég fæ ekki betur séð en að þessi nýja stofnun, Landsvirkjun, eigi beinlínis að seilast inn á það verksvið, sem raforkumálaskrifstofan hefur nú samkv. raforkul. Í 2. gr. frv,.er talað um, að Landsvirkjun eigi að byggja og starfrækja mannvirki til vinnslu og flutnings á raforku til almenningsnota og iðnaðar, yfirtaka með samningum orkuver og aðalorkuveitur frá öðrum aðilum, selja raforku í heildsölu til héraðsrafmagnsveitna, rafmagnsveitna ríkisins o.s.frv. og enn fremur að annast áætlanagerð um nýjar aflstöðvar og aðalorkuveitur á orkuveitusvæði Landsvirkjunar. En þetta orkuveitusvæði er í grg, ráðgert austan úr Skaftafellssýslu og allt vestur á Snæfellsnes og á þessu svæði mun verða framleiddur mikill meiri hluti af allri þeirri orku, sem landsmenn nota, a.m.k. á næstu árum. Og í 3. gr. frv. um Landsvirkjun er beinlínis tekið fram, að starfsemi Landsvirkjunar skuli í upphafi beinast að öflun raforku fyrir þau orkuveitusvæði, sem nú eru tengd Sogsvirkjun, en sýni áætlanir fyrirtækisins, að fjárhagslega sé hagkvæmt að leggja aðalorkuveitur frá orkuverum Landsvirkjunar til annarra orkuveitusvæða, skal einnig heimilt að tengja þau orkuverum fyrirtækisins. Ég fæ ekki séð samkv.

þessu frv., að í hvert sinn, sem ráðizt er í meiri háttar orkuveitu eða stækkun eða byggingu á nýju orkuveri, þurfi að leita heimildar Alþ. eins og þó hefur verið gert samkv. raforkul. um þær framkvæmdir, sem raforkumálaskrifstofan hefur á hendi fyrir ríkisins hönd. Mér sýnist, að það eitt eigi að nægja, að fyrirtækið meti það, hvort slíkar framkvæmdir séu fjárhagslega hagkvæmar fyrir það og leggja grg. fyrir ráðh. og með samþykki hans sé málið afgreitt. En þessi þáttur mála er með þessu dreginn úr höndum Alþ. umfram það, sem verið hefur. Þá er einnig eftirtektarverður sá munur, sem er á þeim anda, sem kemur fram í raforkul. um nýjar orkuveitur, þar sem í raforkul. er það sem aðalatriði, að áður en hafizt er handa um að reisa eða kaupa eða leigja orkuver eða orkuveitu, skal raforkumálastjóri hafa látið fara fram rannsókn á því, á hvern hátt verði heppilegast fullnægt raforkuþörf þess héraðs eða landshluta, sem hinni fyrirhuguðu orkuveitu er ætlað að ná til. Það er grundvallaratriði í raforkul. að meta þörf þess landshluta, sem framkvæmdirnar eiga að ná til, fyrir aukna orku. En tilsvarandi grundvöllur samkv. þessu frv. er, að sýni áætlanir fyrirtækisins, þ.e.a.s. Landsvirkjunar, að fjárhagslega sé hagkvæmt, þ.e.a.s. fyrir það, fyrirtækið, að leggja aðalorkuveitur o.s.frv., skuli það gert eða leitað samþykkis ráðherra fyrir því. Það virðist vera, að gróðasjónarmið fyrirtækisins sé sett ofar, en orkuþörf þess landshluta, sem til greina kemur. Ég vildi vekja athygli á þessari stefnu, því að mér sýnist hún vera næsta athugunarverð.

Þá vil ég í framhaldi af þessu segja örfá orð um raforkumál Austurlands og af því tilefni, að eitt ákvæði í frv. um Laxárvirkjun snertir þessi mál á Austurlandi.

Í 2. gr. frv. um Laxárvirkjun er ákvæði alveg hliðstætt því, sem ég var að tala um í Landsvirkjunarfrv., þar sem segir:

„Sýni áætlanir stjórnar Laxárvirkjunar og eigenda hennar, að fjárhagslega sé hagkvæmt að leggja aðalorkuveitu frá Laxárvirkjun til Norðvesturlands, Skeiðfossvirkjunar og Austurlands, skal það vera í verkahring Laxárvirkjunar að leggja og eiga slíkar aðalorkuveitur og selja raforkuna í heildsölu til rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna í þessum landshlutum.“

Í 5. gr. þessa frv. er enn fremur ákvæði um það, að fyrirtækið, þ.e. Laxárvirkjun, geti ráðizt í byggingar nýrra aflstöðva og aðalorkuveitna, en til þess þurfi leyfi ráðh. og áður en byrjað er á nýjum mannvirkjum, hvort heldur eru aflstöðvar eða aðalorkuveitur, skal Laxárvirkjun senda ráðh. þeim, sem fer með raforkumál, uppdrætti að hinum fyrirhuguðu mannvirkjum og lýsingu á þeim o.s.frv. Það var vakin athygli á því í umr. um Landsvirkjun af hv. 6. þm. Sunnl., að mig minnir, að ákvæði í því frv., sem að þessu lúta, munu væntanlega eiga við þá áfanga, sem til greina komi við Þjórsárvirkjun samkv. frv., en varla eigi að skilja þau svo víðtækt, að í þessu felist heimild til þess að koma upp nýjum aflstöðvum við önnur vatnsföll. Ég tek eftir því, að í grg. Laxárvirkjunarfrv. segir um þetta ákvæði: „Frvgr. er sama efnis og 5. gr. l. nr. 54 1949 og þarfnast ekki skýringa.“ Ég hef veitt því eftirtekt, að orðalagið á frvgr. er með nokkuð öðrum hætti, en í þeirri lagagr. sem hér er tekin til samanburðar, því að sú lagagr., sem hér er tekin til samanburðar, er svona, með leyfi hæstv. forseta: „Áður en byrjað er á nýju verki eða aukningu eða breytingu á mannvirkjum, sem fyrir eru, skal senda ráðh. uppdrætti að hinum fyrirhuguðu framkvæmdum ásamt lýsingu á þeim.“ En það væri fróðlegt að fá skýringar hæstv. ráðh. á því, hver skilningur hans er á þessu ákvæði í 5. gr. landsvirkjunarfrv.

Raforkumál Austurlands voru á sínum tíma leyst með Grímsárvirkjun, að svo miklu leyti sem hún fullnægir orkuþörf þess landshluta. En Grímsárvirkjunin skilar ekki nægilegri orku, bæði vegna þess, eins og frá öndverðu var vitað, að vatnsmagnið er nokkuð breytilegt í Grímsá, en eigi síður vegna hins, að orkuþörfin á Austurlandi hefur aukizt stórkostlega á undanförnum árum og er í hröðum vexti, ekki sízt vegna þess mikla síldariðnaðar, sem þar hefur risið upp og er enn að aukast. Að því er ég ætla, mun orkuþörfin á Austurlandi á þessu ári vera metin af þeim mönnum, sem bezt yfirlit hafa yfir þessi mál, um 6 þús. kw, en Grímsárvirkjunin fullnægir ekki nema í mesta lagi helmingi þess afls og stundum miklum mun minna en helmingi. Til viðbótar Grímsárvirkjuninni verður því að starfrækja dísilstöðvar í kaupstöðunum og kauptúnunum austanlands. Þegar rafrokumál Austurlands eru á þessu stigi, virðist það vera fullkomlega tímabært, að nú þegar á þessu ári eða a.m.k. á næsta ári verði gert átak með einhverjum hætti til þess að auka þá raforku frá vatnsaflsvirkjun, sem fjórðungurinn getur haft yfir að ráða. Það er langt síðan þeir, sem eru í forsvari fyrir Austfirðingafjórðung, bæði hér á þingi og heima í héraði, komu auga á þetta mál og þessa aðstöðu Austurlands. Og það munu liggja fyrir þegar frá árinu 1956 lög, frá 20. febr. 1956, þ.e.a.s. lögin voru afgreidd á þingi 1955, þótt þau væru ekki staðfest fyrr en eftir áramótin, heimildarlög bæði um virkjun Grímsár, sem þegar hefur komið til framkvæmda og samkv. þessum l. er ríkisstj. heimilt að láta leggja aðalorkuveitu frá Laxárvirkjun í Suður-Þingeyjarsýslu til Fljótsdalshéraðs til að tengja saman orkuveitusvæði Norðurlands og Austurlands. Og í þessum l. er lánsheimild til þess að hjálpa til að standa straum af kostnaði við verkið. Sú fjárhæð, sem þar stendur, alls 134 millj. kr., til þeirra verkefna, sem í þessum l. greinir, er að sönnu orðin of lág tölulega nú á viðreisnartímum, en frá þessu var gengið á sínum tíma á árinu 1955. Og um það leyti sem þessi lög voru sett var birt tilkynning opinberlega frá raforkumrn. Ég skal taka fram, að það var ekki núverandi hæstv. raforkumálaráðh., heldur fyrirrennari hans, sem gegndi embætti raforkumálaráðh. 1955, sem lét birta þessa tilkynningu, sem ég skal nú leyfa mér að lesa:

„Ákvarðanir hafa verið teknar um helztu virkjana- og veituframkvæmdir á árinu 1955 samkv. l. nr. 52 1954 um viðauka við raforkulög. Á Austurlandi verður hafizt handa um virkjun Grímsár í 2.400 kw orkuveri, sem gert verður við Grímsárfoss og í beinu framhaldi af þessari virkjun verður lögð raflína milli Laxárvirkjunar og Egilsstaða, sem tengir saman veitusvæði Austurlands og Norðurlands.“

Það vantar því ekkert á af hálfu Alþ. um lagaheimildir, að þessi lína væri nú komin austur á Hérað. En það hefur orðið nokkur dráttur á framkvæmdum og þegar þessi dráttur var tekinn að verða nokkur langur, var á Alþingi 1960 gerð þál. um raforkumál Austurlands. Hún er afgreidd frá þinginu 27. marz 1961, eftir áramótin og sú ályktun er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara heildarathugun á því, hvernig raforkuþörf Austurlands verði fullnægt á sem hagkvæmastan hátt. Verði m.a. tekin til athugunar tenging orkusvæða Austurlands og Norðurlands, virkjun Lagarfoss og virkjun Fjarðarár í Seyðisfirði.“

Ég tel víst, að hæstv. ráðh., sem skipað hefur það sæti nú um 5 ára skeið, sé vel kunnugt um þessar samþykktir Alþ., sem ég hef nú gert hér að umtalsefni. Og það væri fróðlegt og ég vildi gjarnan óska þess, að hann nú við þessa umr. gerði grein fyrir þeim ráðstöfunum, sem hann hefur látið gera eða hefur í huga til þess að auka orkuna eða bæta aðstöðu Austurlands í sambandi við raforkuna á grundvelli þeirra samþykkta þingsins, sem fyrir liggja og í samræmi við raforkulög, því að allar þessar samþykktir, sem síðan hafa verið gerðar, eru grundvallaðar á raforkul. og grundvallaðar á því, að raforkumálastjórnin, raforkumálaskrifstofan hafi á hendi og beiti sér fyrir þessum framkvæmdum vegna Austfirðinga. En nú sé ég það, að þegar þetta frv. um Laxárvirkjun kemur fram, segir í frv. berum orðum, að sýni áætlanir stjórnar Laxárvirkjunar og eigenda hennar, að fjárhagslega sé hagkvæmt að leggja þaðan orkuveitur, m.a. til Austurlands, skal það vera í verkahring Laxárvirkjunar að leggja og eiga slíka raforkuveitu. Mér sýnist þetta orðalag svo afdráttarlaust, að það verði naumast skilið á annan veg, eins og það stendur í frv., en þann, að Laxárvirkjunin hér eftir, verði þetta samþ. óbreytt, eigi að hafa þetta verkefni á hendi, það sé á hennar verksviði. En ég vil þó beinlínis vænta þess að fá að heyra skilning ráðh. á þessu ákvæði. Er það skilningur ráðh., eins og mér sýnist orðalagið benda til, að eldri lagaákvæði, sem ég hef rakið, verði talin fara í bága við þessi lög, sem nú verða sett og þau eigi að víkja fyrir þeim ákvæðum, sem kæmu inn í þessi hin nýju lög? Ef þetta er rétt, yrðu Austfirðingar þannig settir í sambandi við þetta mál, að þeirra orkuþörf ætti að fullnægja af stofnun, þar sem þeir eiga enga íhlutun um stjórn, stofnun, sem er að nokkru leyti stjórnað af fulltrúum, sem ríkisstj. skipar, ekki einu sinni Alþ. kýs, heldur ríkisstj. skipar og að öðru leyti af fulltrúum, sem Akureyrarbær tilnefnir. Austfirðingar hafa þá ekkil lengur sömu aðstöðu og áður að leita til alþm., sem eru fulltrúar fyrir þennan landshluta og láta þá sækja sín mál við ríkisstofnun. Þeir ættu þá hér eftir að sækja sín mál við stofnun norður á Akureyri, þar sem þeir eiga sjálfir engan mann í stjórn. Og eins og orðalagið á frvgr. er, á ekki að leggja til grundvallar orkuþörfina á Austurlandi, þegar ákveðið er að leggja þessa línu, heldur það, hvort það er fjárhagslega hagkvæmt fyrir Laxárvirkjun, fyrir þá stofnun, sem á að framkvæma þetta verk.

Þessa breytingu munu Austfirðingar ekki geta sætt sig við og ég vil nú vænta þess, að hæstv. ráðh. skýri frá því í þessum umr., hvað hann hefur gert til þess að framkvæma þær samþykktir Alþ., sem ég hef hér gert að umtalsefni og Austurland snerta, hverjar hans fyrirætlanir eru um aukningu á raforkunni á Austurlandi, en ég endurtek það, að Grímsárvirkjunin skilar nú um það bil helmingi og oft minna, en helmingi af þeirri orkuþörf, sem fyrir hendi er á Austurlandi, nú þegar á þessu ári, en er þó í örum vexti, m.a. vegna þess mikla síldariðnaðar, sem þar er í uppbyggingu. Ég tók eftir því, og ég vil að síðustu segja hæstv. ráðh. það, að ég fagnaði þeim ummælum hans hér í framsöguræðunni, að hann virðist sjálfur hafa komið auga á, að það þurfi að gera breytingu á þessum ákvæðum frv., sem ég hef sérstaklega gert að umtalsefni. Ég fagna þessum ummælum hans og ég vona, að um það megi takast samvinna í meðferð og athugun málsins í n. og áður en það er afgreitt hér í þinginu, að færa þetta í það horf, sem Austfirðingar mundu geta unað við.